10.11.1947
Efri deild: 16. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

2. mál, gagnfræðanám

Frsm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. — Það er nákvæmlega eins ástatt um þetta mál og það, sem var hér síðast til umr. (frv. um breyt. á l. um menntaskóla). Í 5. kafla l. um gagnfræðanám eru allströng skilyrði sett, sem fullnægja ber til að geta orðið fastur kennari við skóla gagnfræðastigsins. Þar á meðal er í a-lið 37. gr. skilyrði um það, að þá eina megi setja fasta kennara við skóla þessa stigs, að þeir hafi almenna kennaramenntun og stúdentsmenntun og hafi þar til viðbótar numið uppeldisfræði og kennslufræði, er fræðslumálastjóri meti gilt.

Þegar átti að framkvæma þessi 1., kom í ljós, að kennarar voru ekki nægilega margir fyrir hendi, sem fullnægðu þessum skilyrðum, og sá hæstv. kennslumrh. ekki unnað fært en að mega setja bráðabirgðal., sem bættu úr þessu, og felst það í innihaldi þessara bráðabirgðal. og þessu frv., að aftan við a-lið 37. gr. l. nr. 48 1946, um gagnfræðanám, bætist: Þó má skipa menn, er lokið hafa kennaraprófi eða meistaraprófi við Háskóla Íslands eða hliðstæðu prófi við sambærilega stofnun innan ársloka 1948, kennara við skóla gagnfræðastigsins, enda þótt þeir hafi eigi stundað nám í uppeldis- og kennslufræðum. Þegar búið er að brúa þetta, á vandinn að vera leystur, því að eftir árslok 1948 á háskólinn að geta útskrifað menn í kennslufræðum og þannig fullnægt skilyrðum laganna.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meir um málið. Það er sama eðlis og hitt frv., að það á að bæta úr framkvæmd l., svo að þeir, sem nú eru kennarar við skólana, og þeir, sem taka próf fram til ársloka 1948, skuli geta öðlazt full réttindi við skóla gagnfræðastigsins.