15.12.1947
Neðri deild: 32. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (1242)

111. mál, bráðabirgðafjárgreiðslu 1948

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég hef sem einn fjárhagsnefndarmanna orðið við þeirri beiðni ráðh. — af kurteisi við hann — að flytja þetta mál En ég verð að segja það, að mér finnst það sannarlega þess vert, að Alþ. athugi nokkuð, hvernig komið er þessu máli með stjórn núv. ríkisstj., þegar hún fer fram á þessa heimild, án þess að fjárl. hafi verið afgreidd. Það hefur gengið hjá okkur s.l. ár, en meðan stjórnir hafa setið að völdum, sem haft hafa stuðning meiri hluta þingsins, hefur ekki þurft að fara fram á svona heimild. Þegar nýsköpunarstjórnin tók við, þó að seint væri, 21. okt. 1944, þá voru samt fjárl. afgreidd 19. des. fyrir árið 1945. Og þegar fjárl. voru afgreidd fyrir árið 1946, þá munu þau líka hafa verið afgreidd 19. des. 1945. Hitt hefur skeð, þegar ríkisstj. hafa setið, sem ekki hafa haft stuðning þingsins, að farið hefur verið fram á heimild svipaða þessari. En hinu man ég ekki eftir, að slíkt hafi komið fyrir, þegar að völdum hefur setið ríkisstj., sem haft hefur stuðning þingsins. Ég álít þess vegna, að þessi afgreiðsla málsins sé óhæfileg og sýni, að ríkisstj., sem nú hefur setið að völdum í 10 mánuði, sé ekki fær um að gegna sínum einföldustu embættisskyldum, þannig að fjárl. séu afgreidd í tæka tíð. Það verður ekki annað sagt en ríkisstj. hefði haft nægan tíma til að undirbúa þessi fjárl. og ganga frá þeim að öllu leyti, og mér finnst, að þm. eigi nokkra kröfu á að fá að vita, hvernig á slíku stendur, hvernig á því stendur, að afgreiðsla fjárl., sem er eitt hið sjálfsagðasta embættisverk sérhverrar ríkisstj., skuli ganga með þessum endemum. Fyrst kemur fjárlagafrv. miklu seinna en það átti að koma, þannig að það hefur dregizt úr hófi fram, sem er brot á öllum þingreglum og lögum, þar sem svo er fyrirskipað, að fjárlagfrv. skuli liggja fyrir í byrjun hvers þings. Svo, eftir að frv. kemur allt of seint fram og þingið búið að standa í 21/2 mánuð, er farið fram á það, að framlengd séu fjárl. yfirstandandi árs fyrir næsta ár, ótímabundið. Þegar mestu vandræðin voru með stjórnarmyndunina í fyrra, var fyrst framlengt fyrir janúar og síðan næstu mánuði þar á eftir. Þarna er eins og ríkisstj. treysti sér ekki til þess að segja, hvenær hún treysti sér til að vera búin að afgreiða fjárl. fyrir næsta ár, og vildi ég mjög gjarnan, að fjmrh. gæti gefið d. nokkrar upplýsingar um það, hvernig á þessu stendur. Ef maður með velvilja til ríkisstj. leitar orsakanna til slíkra hluta, held ég, að ekki sé bægt að finna nema eina ástæðu, sem ríkisstj. máske gæti fært fram sem afsökun fyrir slíku, en hún er sú, að það hafi verið ákveðið í l., sem samþ. voru á síðasta þingi, h um fjárhagsráð, að þar skyldi gerð áætlun bæði fyrir yfirstandandi ár og sérstaklega næsta ár og í þeirri áætlun skyldi nákvæmlega vera útreiknað allt, sem þjóðarbúið sem slíkt ætlaði að gera á næsta ári. Ef ég man rétt, átti að reikna út kostnað við hverja framkvæmd og hvernig fjár skyldi aflað til hverrar framkvæmdar. Og þegar slíka nákvæma skipulagningu ætti að taka upp, gæti maður auðvitað ætlað, að við samningu fjárl. fyrir árið 1948 yrði tekið nákvæmt tillit til þess, slíkrar áætlunar, því að tilgangurinn með samþykkt slíkrar áætlunar er sá í öllum löndum, sem þann hátt hafa á sínum þjóðarbúskap, að tryggja, að allir hafi atvinnu.

Það eina, sem ég gæti hugsað mér sem afsökun fyrir ríkisstj., væri það, að dregizt hefði úr hömlu að gera slíka áætlun, að engin slík áætlun væri enn til hjá fjárhagsráði. Ég veit ekki um það, og það væri mjög æskilegt að fá hér upplýsingar um það, að hve miklu leyti búið er að undirbúa grunninn, sem fjárl. fyrir næsta ár hljóta að byggjast á. En ef ennþá skyldi standa á þessari áætlun. er engin afsökun fyrir ríkisstj. í heild. Það var skylda þessarar ríkisstj. að sjá um, að fjárl. og fjármálaáætlun þjóðarbúskaparins væri lögð fram, áður en árið 1948 byrjaði, en hefði helzt átt að leggjast fyrir þingið ekki seinna en 1. nóv. Þess vegna álít ég, að það að fara fram á, að fjárl. fyrir 1947 gildi áfram fram á árið 1948, sé dæmi um það, að ríkisstj. hafi alls ekki verið fær um að framkvæma þau störf, sem hún hafði tekið að sér og beðið um vald til að fá að framkvæma. Ríkisstj. lagði mikið upp tír því að fá þetta samþykki í vor, að setja upp sitt mikla ráð, sem síðan virðist hafa unnið kröftuglega að því að stöðva framkvæmdir hér á landi í stað þess að skipuleggja framkvæmdir. Og nú virðist þetta allt komið í slíkt öngþveiti, að þrátt fyrir stærsta skrifstofubákn, sem stofnað hefur verið í okkar landi, virðist ríkisstj. ekki geta framkvæmt þau embættisverk, sem hún tók að sér, þegar þessi stjórn var mynduð.

Ég skil ekki annað en ríkisstj. sé það ljóst, að það er óvenjulegur hlutur, sem hún fer fram á, að óska eftir svona framlengingu á fjárl. Það er óvenjulegt, að stjórn, sem nýtur stuðnings meiri hluta þings, verði að fara fram á slíkt, og hlýtur að stafa af því, að það, sem ríkisstj. hefur tekið að sér, hefur lent í handaskolum. Hún hefur brugðizt þeirri skyldu sinni að framkvæma þessa áætlun, þannig að hægt væri að undirbúa fjárl. og marka heildarstefnu, hvað þjóðarbúskapinn snertir, leggja þá stefnu fyrir þingið til samþykktar. Þess vegna þótti mér rétt að óska þess við þessa umr., að fjmrh. skýrði frá, hvernig á því stendur, að svona hefur farið með fjárl. En þetta er sem sagt eina skýringin, sem ég hef getað fengið frá mínu sjónarmiði, og réttlætir það þó ekki ríkisstj. að þessu leyti.

Hins vegar verð ég að segja það, að það er mjög erfitt að hafa á móti því út af fyrir sig, þegar svona er komið. að framlengja til einhvers ákveðins tíma svona heimild. Það er mjög erfitt fyrir þm. að halda því fram, að það eigi engin fjárl. að vera til. Það er hver þm. settur í klipu af ríkisstj. með því að leggja svona frv. fyrir Alþ. Það er ekki hægt að skorast undan því að samþykkja það með einhverjum breyt., ef menn vilja ekki láta hjól ríkisbúskaparins stöðvast 1. janúar. Hins vegar kemur ríkisstj. Alþ. í klípu með því að hafa ekki reynzt fær um að inna þetta af hendi. Og það, sem sérstaklega væri gaman að heyra nú, væri álit þess flokks, sem mest hefur óskapazt yfir fjármálaástandinn á undanförnum árum og talað um, að allt væri að fara í vitleysu og allt vegna þess, að Framsfl. væri ekki í ríkisstj., allt væri að enda í vitleysu í þjóðarbúinn vegna dýrtíðarinnar og fjárlagaafgreiðslunnar. Nú hefur Framsfl. farið inn í ríkisstj. og hefur setið þar í 10 mánuði og sýnt dugnað sinn, enda undirstrikað af menntmrh., sem sjálfur segist vera mesti sérfræðingurinn í fjármálum, að það sé sameiginlegt álit ríkisstj. að sjá nú um stjórn á öllum fjármálum landsins og hún sé nú ekki aldeilis í slæmum höndum! Það væri gaman að heyra frá ráðh. Framsfl., hvernig þessi fjárlagaafgreiðsla hæstv. ríkisstj. nú lítur út í þeirra augum. Þeir ósköpuðust yfir því. hvernig nýsköpunarstjórnin hefði verið viðvíkjandi fjárl. Hún sá þó um það, og það tveim mánuðum eftir að hún tók við völdum, að fjárl. fyrir næsta ár væru tilbúin. Nú hefur Framsfl. setið að völdum í 10 mánuði, haft yfirstjórn allra fjármála landsins og 2 menn í fjárhagsráði, og þetta eru nú afleiðingarnar, þetta eru stórvirkin. Ég hef þann tíma, sem ég hef verið á Alþ., sjaldan séð aðra eins gjaldþrotayfirlýsingu frá embættismönnum eins lands eins og þessa, þegar nú er farið fram á við Alþ. að framlengja fjárl. fyrir næsta ár.

Ég taldi rétt að vekja máls á þessu einmitt við þessa umr., því að hv. deild á heimtingu á að fá skýringu á þessu.