08.12.1947
Neðri deild: 28. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 970 í B-deild Alþingistíðinda. (1288)

102. mál, almannatryggingar

Skúli Guðmundsson:

Ég hef nú lesið yfir þetta frv., sem flutt er á þskj. 155, og sýnist mér það miða að mjög litlu leyti í þá átt að afnema eða draga úr því misrétti, sem nú er í l. um almannatryggingar í mörgum atriðum.

Ég vil í sambandi við þetta frv. minna á, að áður er fram komið frv. um breytingar á l. um almannatryggingar, sem er 78. mál þingsins, og var því fyrir nokkru vísað til heilbr.og félmn.

Nú hefði mér fundizt, að n. hefði átt að taka þetta frv. til athugunar og segja álit sitt, áður en hún flytur nýtt frv. um sömu lög. Það hefði mátt athuga frv. og gera á því þær breyt., sem nauðsynlegar hefðu þótt til þess að fá það lögfest.

Ég vildi leyfa mér í sambandi við þetta mál að beina þeirri fyrirspurn til n., hvort vænta mætti innan skamms álits hennar um hið fyrra frv., sem ég gat um, og hvort hún hefði nú þegar tekið það að einhverju leyti til athugunar og hvort gera megi ráð fyrir, að hún geti fallizt á þær breyt. á h, sem þar er farið fram á. Þetta tel ég nauðsynlegt, að liggi fyrir, áður en þetta frv., sem nú er á dagskrá, verður látið ganga gegnum d., því að vel getur komið til mála, að flutt verði við það brtt. Það fer í sjálfu sér eftir því, hvers er að vænta frá n. um fyrra frv. og afgreiðslu þess.