12.12.1947
Neðri deild: 31. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (1295)

102. mál, almannatryggingar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vil þakka heilbr.- og félmn. fyrir þá athugun, sem hún hefur gert á þessu máli, en um leið og ég þakka, verð ég að skýra frá því, að það kom ekkert fram í ræðu frsm., sem færir mér sanninn um það, að orð þau, er ég sagði við 1. umr., hafi verið að ófyrirsynju. Það er enn stefnt að því að fresta I. kafla l. og láta þar gilda eldri lög. Ég ámæli ekki þeim, sem vilja þessa breytingu, því að hún er ekki óhyggileg, en ég vil vekja athygli á því, að ég tel þetta frv. ekki geta komið í stað þess frv. um breyt. á tryggingalögunum, sem flutt hefur verið og ég er meðflm. að. Ég mun fylgja þessu frv., sem hér liggur fyrir, í trausti þess, að n. athugi það frv., sem áður er fram komið.

Þá vil ég endurtaka það, sem ég drap á hér við 1. umr., en það var, að ég tel ekki glögg ákvæði um það, hvernig greiða skuli sjúkrahjálp til þeirra, sem hafa orðið fyrir slysum. Sömuleiðis tel ég þörf á að athuga nánar kaflann um heilsugæzlu, sem ráðgert er að fresta. Í sambandi við slysabætur eða þann kafla, sem um þær fjallar, þá vil ég vekja athygli á því, að fresti Alþ. III. kafla, þá er ekki heimilt að greiða sjúkrahjálp samkvæmt honum. Þá er að athuga það, hvort ekki eru annar s staðar ákvæði, sem fela í sér sama efni. Og þá er að leita til eldri laganna, sem eiga að halda gildi sínu að nokkru leyti. Ef flett er upp í kaflanum um slysatryggingar í III. kafla l. nr. 104 frá 1943, sem nú á að ákveða, að haldi gildi sínu, þá er svo fyrir mælt í 41. gr. í þeim kafla, sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta. Greinin hefst svo:

„Nú er samlagsmaður einnig slysatryggður samkv. lögum þessum, og greiðir samlagið þá læknishjálp og aðra sjúkrahjálp hans vegna samkv. 16. gr. 1. tölulið laganna, að undanteknum dagpeningum.“ Ef þetta er nú lengra rakið og athugað, hvað segir í þessari 16. gr. eldri laganna, sem þetta á að greiðast samkvæmt, og hvernig ástatt er um hana, þá verður ljóst, að sú gr. stendur mitt í þeim kafla eldri laganna, sem úr gildi fellur. En um leið og sá kafli allur er úr gildi felldur, þá hlýtur 16. gr., sem er inni í honum miðjum, þar með að vera úr gildi fallin. Þannig sýnist mér þá ekki lengur stoð fyrir því að greiða þetta samkv. 16. greininni. — En hér er enn fremur meira sagt, sem ég vildi vekja athygli á. 41. gr. eldri l., sem er í III. kaflanum, sem á að framlengja, hefst svona: „Nú er samlagsmaður einnig slysatryggður....“ M.ö.o., þessi ákvæði, sem tilgreind eru í þessari 41. gr. eldri l., eru einskorðuð við menn, sem eru meðlimir í einhverju sjúkrasamlagi, enda er sá kafli allur um sjúkrasamlögin. Ég vil út af þessu minna á, að til eru nokkur sveitarfélög úti um land, þar sem aldrei hafa verið stofnuð sjúkrasamlög og engin sjúkrasamlög starfa. Ég skal ekki fullyrða, hve margir þessir hreppar eru í sveitum landsins samtals, en mér er kunnugt um nokkra. T.d. er svo ástatt um helming hreppanna í kjördæmi því, sem ég er fulltrúi fyrir, eða m.ö.o. annan hvern hrepp í þeirri sýslu. Þá fæ ég ekki séð, hvaða lagaákvæði eru eða verða eftir, sem fjalla um aðstöðu þessara manna, sem í engu sjúkrasamlagi eru, um þetta atriði gagnvart tryggingastofnunni, þegar búið er að fella úr gildi slysatryggingakafla gömlu 1. og fresta framkvæmd III. kafla nýju l. Það er ekki hægt að segja, að sjúkrasamlögin greiði slysahjálp eða sjúkrahjálp til þeirra, og ekki hægt að gera ráð fyrir, að neinar sjúkrasamlagsstjórnir séu aðilar fyrir þeirra hönd gagnvart tryggingastofnuninni, heldur verður þetta sjálfsagt svo í framkvæmd, eins og verið hefur, að einstaklingarnir sjálfir skipti að þessu leyti við tryggingastofnunina, eða ef til vill með tilstyrk umboðsmanna tryggingastofnunarinnar í þeirri sýslu, þar sem þeir eru búsettir. En ég fæ ekki séð við athugun, hvar verða skrásett þau lagafyrirmæli, sem þessar greiðslur eiga að byggjast á. Til þess að gera það ljóst og skýrt, finnst mér, að þyrfti að bæta inn ákvæði í þetta frv., sem hér liggur fyrir. Mér skilst, að það, sem n. hefur yfirleitt viljað segja um þetta mál, sé — eða hún hafi sett það þannig upp fyrir sér —, að vegna þess að þessi venja hefur skapazt, sem byggzt hefur á ákvæðum l., sem hafa verið í gildi að undanförnu, þá er það fyrirætlun þeirra, sem um framkvæmd málanna fjalla, að halda þessari reglu, og þess vegna er hér ekkert í hættu. — Ég get tekið undir þetta að vissu leyti, enda er þetta ekki mjög stórt atriði út af fyrir sig. Ég vil láta það koma skýrt fram, að ég dreg alls ekki í efa, hver fyrirætlun þeirra, sem um tryggingamálin fjalla, er um framkvæmd á þessu. Því fer alls fjarri. En það, sem ég vil segja í stuttu máli, er þetta: Þar sem nú er verið að setja sérstök l. til þess að fá lagagrundvöll undir þær framkvæmdir, sem gera á á þessu sviði á næsta ári, þá finnst mér eðlilegt, að þetta atriði komi einnig fram í þessu frv. og þessum l. Það er aðeins til þess að skýra málið, en ekki til þess að spilla því. Og í samræmi við þetta sjónarmið, sem ég hef dregið fram, vil ég leyfa mér að lýsa hér skrifl. brtt., sem ég ætla mér að leggja fram og kemur undir atkv. hv. þdm. Hún er á þá lund, að inn í frv. bætist nýr tölul. í 1. gr. á eftir 1. tölul., svo hljóðandi (og breytist röð tölul. á eftir samkv. því): „að Tryggingastofnun ríkisins skuli greiða nauðsynlega sjúkrahjálp vegna slysa við tryggingarskylda vinnu, hvort sem aðili er samlagsmaður í sjúkrasamlagi eða ekki, og eigi lægri upphæð en sams konar greiðslur sjúkrasamlaga til samlagsmanna nema samkvæmt III. kafla laga nr. 104 1943.“ Með þessu hef ég það tvennt fyrir augum, að endurgreiðsla slysatryggingardeildarinnar til sjúkrasamlaga þurfi ekki að hvíla eingöngu á ákvæðum 16. gr. gömlu l., sem úr gildi eru felld, og þó sérstaklega hitt, að það komi fram í þessu frv., hvernig aðstaða þeirra manna eigi að vera, sem í engu sjúkrasamlagi eru og falla því ekki undir ákvæði sjúkrasamlagslaganna.