18.12.1947
Neðri deild: 36. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

102. mál, almannatryggingar

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég sé, að það er prentvilla á dagskránni, því að brtt. sú, sem ég flutti og tók aftur til 3. umr., er ekki hér með. Það er aðeins talað um þskj. 216, en ég hafði ekki tekið brtt. aftur nema til 3. umr.

Ég verð að viðurkenna, að ég varð fyrir vonbrigðum um það, hvernig þeirri brtt. var tekið. Mér skilst, að sú brtt. hafi ekki nægilegt fylgi á þessu stigi málsins. Ég tek að vísu ekki gild þau rök, sem færð hafa verið fram gegn brtt., en ég verð hins vegar að taka þær staðreyndir til greina. Brtt. hefur ekki á þessu stigi málsins fylgi, og hafa ýmsir hv. þm. vísað til frv., sem hv. þm. V-Húnv. hefur flutt og liggur nú fyrir heilbr.- og félmn. Ég ætla þess vegna að taka þessa brtt. aftur í þeirri von, að í sambandi við það frv. fáist full leiðrétting á þessu máli, og bezt verður náð því marki með því annaðhvort að fella niður 112. gr. tryggingal. eða fella hana niður að mestu leyti, eins og ég hef lagt til.

Ég tek þess vegna brtt. aftur í þetta sinn, af því að hún hefur fengið þær viðtökur, að litlar líkur eru til þess, að hún verði samþ. nú.