19.12.1947
Efri deild: 41. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (1310)

102. mál, almannatryggingar

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Heilbr.og félmn. hafði nú litinn tíma til þess að athuga þetta mikla og vandasama mál og gat því ekki haldið um það nema einn fund. N. þótti þó rétt að kveðja á fund forstjóra tryggingastofnunarinnar, Harald Guðmundsson, og ræddi hún við hann um málið.

Nú er ljóst, ekki einungis n., heldur og þm., að til Alþingis hafa borizt margar umkvartanir um þennan lagabálk og sumar sannarlega á svo miklum rökum reistar, að brýna nauðsyn ber til þess, að þessi l. verði tekin til endurskoðunar hið allra bráðasta. En með því að ákveðið hefur verið af ríkisstj. í samráði við forstjóra tryggingastofnunarinnar að fresta framkvæmd á III. kafla l., um heilsugæzlu, er nauðsynlegt að hafa ákvæði um það í l. og að þau l. nái staðfestingu fyrir áramót n.k., áður en þinghlé er tekið. — Eingöngu af þessum ástæðum hefur því heilbr.- og félmn. viljað mæla með því, að frv. þetta nái fram að ganga eins og það er, því að henni er vel ljóst, að það er ekki hægt til langframa að hafa löggjöfina án þess að fara fram á mjög nákvæma endurskoðun á henni. Nú stendur hér í þskj. 216, að rannsókn sú, er um ræðir í 7. tölulið bráðabirgðaákvæða, skuli hafin eigi síðar en í byrjun ársins 1948 og að heildarendurskoðun laganna skuli hafin á síðari hluta ársins 1948. Með öðrum orðum, hér eru ekki gefin nein fyrirheit um það, að endurskoðuninni skuli lokið það snemma, að næsta Alþ. geti tekið málið til meðferðar, en á það leggur heilbr.- og félmn. sérstaka áherzlu, að endurskoðuninni verði lokið á næsta ári, áður en þing kemur saman, og í fullu trausti þess hleypir hún þessu máli í gegn. Forstjóranum var gert þetta fyllilega ljóst, og taldi hann á því ýmis vandkvæði, en n. óskar mjög ettir því, að gerðar verði ráðstafanir til þess, að þessari endurskoðun verði lokið áður en Alþ. kemur saman næst, svo að það fái málið til endanlegrar afgreiðslu.

Ég vil benda á, að í 6. tölul. frv. er ákveðið, að vísitöluálagið skuli miðast við 315 stig, en nú er ákveðið í stjfrv., sem hér liggur fyrir, að vísitöluálag í landinu skuli á þann hátt greitt með 300 stigum, þó með þeirri undantekningu, að ellilífeyrir og örorkubætur skuli greidd með 315 vísitölustigum. Okkur í n. þótti hér vera um misræmi að ræða. Fengum við þær upplýsingar hjá forstjóranum, að um 30 millj. kr. af gjöldum stofnunarinnar færu í elli- og örorkubætur, en um 26 millj. í aðrar bætur, þannig að því sem næst 3/5 yrðu greiddir út með 315 vísitölustigum. N. taldi því nægilegt að setja hér inn í, að þetta vísitöluálag skyldi vera 308. Til þess að forðast, að málið hrekist á milli deilda, hefur orðið samkomulag um það í n., að ef ríkisstj. vill lýsa yfir því, að álagið verði ekki meira en 308 stig og hæst 310, þá vill n. leggja til, að málið verði afgr. héðan óbreytt. Komi hins vegar ekki slík yfirlýsing, mun n. athuga málið aftur fyrir 3. umr. og þá ef til vill gera till. til breyt., að þetta verði sett inn í löggjöfina, en mundi ekki telja þess þörf, ef ríkisstj. vill lýsa yfir, að þessi háttur verði á hafður.