12.12.1947
Efri deild: 31. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 996 í B-deild Alþingistíðinda. (1357)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Frsm. (Gísli Jónsson):

Sjútvn. þessarar hv. d. hefur athugað þetta mál og rætt það ýtarlega á fjórum fundum. N. þótti rétt að senda frv. til umsagnar allra aðila, er málið snerti, og var svo gert, og hafa svör borizt frá þeim öllum, eins og segir á þskj. 174 í áliti sjútvn. N. þótti ekki ástæða til að birta í nál. allar umsagnirnar, því að það hefði orðið allt of langt mál, og vil ég því víkja nokkru nánar að umsögnum hinna einstöku aðila.

N. þótti rétt að senda frv. til umsagnar Félags íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, og var spurt um í fyrsta lagi, hvort félagið teldi slíka tegund togara hentuga til fiskveiða við Ísland. Í öðru lagi, hvort slík skip mundu skapa enn meira öryggi en þau togveiðiskip, er nýjust hafa verið keypt til landsins. Í þriðja lagi, hvort slík skip hefðu meiri möguleika til hagnýtingar aflans en þau skip, er keypt voru til landsins fyrir milligöngu ríkisstj., og í fjórða lagi, hvort slík skip væru að dómi félagsins hentug til fiskirannsókna. Þessu var svarað þannig varðandi fyrstu spurningu, með leyfi hæstv. forseta: „Oss dylst ekki, að hér er um að ræða tilraun, sem gæti leitt til algerrar byltingar á sviði togveiðanna að því er snertir allan útbúnað og frágang botnvörpuskips.“ Um þetta er svo farið fleiri orðum, sem ég sé ekki ástæðu til að tilfæra. En um annað atriðið segja þeir, með leyfi forseta: „Um annað atriðið, sem sagt það, hvort slík skip, er hér nm ræðir, skapi meira öryggi en þau botnvörpuskip, er reynsla er fyrir um, teljum vér ek4ci vafa.“ Og þriðja atriði svara þeir hiklaust játandi og telja miklu meiri möguleika til hagnýtingar aflans á svona skipi en á þeim, sem nú eru gerð út frá Íslandi. Í fjórða lagi telja þeir skipið hentugt til hafrannsókna og leggja sérstaka áherzlu á, að slíkt skip væri hentugt sem leitarskip að nýjum fiskimiðum, og vænta þeir þess, að frv. verði samþ. og þess, að skipið verði notað til slíkrar starfsemi. Það er mikils virði fyrir flotann, þegar hann er orðinn svo stór sem hann verður á næsta ári, að til sé eitt skip, sem vinnur að því að leita að nýjum fiskimiðum, því að undanfarið hefur það verið svo, að veiðiskipin hafa flykkzt á þá staði, þar sem afla verður vart, en hafa vanrækt að leita nýrra miða, þótt allt of þröngt væri um þau. Einstaklingar hafa varla efni eða ástæi5ur til að fara í leit að fjarlægum miðum, þótt slíkt hafi að vísu verið gert. En það er mjög mikilvægt, að miða sé leitað, og þess er vænzt, að ef frv. verður samþ., þá verði það skip, sem með frv. er ætlazt til, að smíðað verði, notað til slíkrar leitar.

N. þótti og rétt að senda frv. til skipaverkfræðinga, þeirra hr. Ólafs Sigurðssonar, forstjóra landssmiðjunnar, og hr. Viggós Maack, sem er nýlega útskrifaður frá einum bezta verkfræðingaskóla í Ameríku. Þeir telja, að öryggi skipsins verði meira, vegna þess að auðveldara sé að koma fyrir vatnsþéttum þiljum og þilförum og vegna þess, að á slíku skipi verði meira fríborð. Þeir telja og, að öryggi skipshafnar verði meira, vegna þess að vinna fari fram aðallega undir þiljum, togútbúnaður með vírum og rúllum sé ekki á aðalvinnslustað, sú vinna, sem fari fram ofan þilfars, sé framkvæmd undir mun öruggari aðstæðum en ofan þilfars á eins þilfars skipi, og innangengt sé milli íbúða og vinnustaða. Þá telja þeir, að í tveggja þilfara togara verði meira og betra rúm fyrir íbúðir skipverja, aukið rúm fyrir nýtízku fiskvinnsluvélar, aukið burðarmagn, sem þýðir aukið fiskimagn eða eldsneyti eða hvort tveggja, og að auðveldara sé að koma fyrir hagkvæmari lyftitækjum við innbyrðingu á afla og veiðarfærum.

Þeir færa einnig fram galla á tveggja þilfara togara samanborið við eins þilfars togara, og taldi n. rétt að láta það einnig koma fram. Í fyrsta lagi telja þeir sem galla, að erfiðara verði að innbyrða fisk og botnvörpu vegna hærra fríborðs. Þetta munar þó ekki miklu frá því, sem nú er, því að á togurum af nýrri gerð er fríborð 22 tommur og 48 tommu skjólborð, eða samtals 70 tommu fríborð, sem á tveggja þilfara togara yrði aðeins 4 tommum hærra, eða 74 tommur. Þetta ætti því ekki að valda neinum teljandi erfiðleikum frá því, sem nú er. Þá telja þeir, að gjöld miðuð við rúmmál verði meiri, og er það rétt, en smávægilegt atriði. Og loks telja þeir þann galla, að byggingarkostnaður verði mun meiri, og er það einnig rétt. Til rökstuðnings álits síns varðandi kosti skipsins geta þeir þess, að 15 manna þýzk sérfræðinganefnd, sem athuga skyldi, hvernig framtíðartogarinn væri bezt byggður, hafi komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt byggðum tveggja þilfara togara muni varla geta hvolft og að um 42 m langt skip tveggja þilfara geti haft 20% meira lestarúm og 26% meiri eldsneytisforða en eins þilfars af sömu tegund. Almennt álita þeir smíði þessa skips spor í rétta átt og leggja til, að frv. verði samþ.

N. þótti enn fremur rétt að senda frv. til umsagnar skipaskoðunarstjóra, og segir hann, að hann telji örugglega séð fyrir því, að sjóhæfni (stabilitet) tveggja þilfara togarans verði í engu minni en hinna nýju togara, sem nú eru að koma til landsins, og telur hann stórt spor stigið í áttina til meira öryggis fyrir skipverja, til aukinna vinnuafkasta og fullkomnari vinnuverndar. Hann segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Ég tel það vel farið, að frv. þetta er fram komið. og að það verðskuldi að ná fram að ganga.“ Hans umsögn er því sú, að hann mælir eindregið með því, að frv. verði samþ.

Þá var frv. og sent til umsagnar Skipaútgerðar ríkisins, eða forstjóra hennar, og m.a. spurt um, hvort hann teldi, að nota mætti skipið til björgunarstarfsemi og landhelgisgæzlu. Svar hans er yfirleitt mjög jákvætt, og segir hann m.a.: „Á slíkum togara getur mestöll vinna við fisk og veiðarfæri farið fram undir þilfari, og skapar það auðvitað margfalt betri vinnuskilyrði og öryggi fyrir sjómennina en nú á sér stað á togurum. Auk þess er þá hægt að koma fyrir ýmsum vinnuvélum, svo sem flatningarvél, flökunarvél og ýmsum færiböndum. Ætti allt þetta að gera alla vinnu auðveldari og auka afköst.“ Hann segir enn fremur: „Þá má benda á, að skip þetta er til margra hluta nytsamlegt, t.d. flutninga á hraðfrystum og ísuðum fiski, hafrannsókna, björgunarstarfsemi og sem venjulegt flutningaskip.“ Hann mælir hins vegar á móti því, að skipið sé notað til landhelgisgæzlu, með því að það sé auðþekkjanlegt í mikilli fjarlægð.

Þá þótti n. hlýða að senda frv. til umsagnar Slysavarnafélagsins, sem telur, að hér sé farið inn á nýjar brautir til aukins öryggis, og leggur því til, að frv. verði samþ.

Þá var frv. og sent til Alþýðusambands Íslands og Sjómannafélagsins, og segir í bréfi Alþýðusambandsins, að það mæli eindregið með því, að sú tilraun, sem frv. ætlast til, verði gerð. Skriflegt svar hefur ekki borizt frá Sjómannafélaginn, en formaður þess, hv. 1. landsk. þm., á sæti í sjútvn. þessarar hv. d., og hefur hann lýst vilja félags síns um, að frv. verði samþ.

Þá hafa komið frá öðrum aðilum umsagnir, sem eru nokkru minna „pósitívar“. Fyrst frá Fiskifélagi Íslands, en það hefur skipað n. í málið til að athuga það, og segist stjórnin gera álit n. að sínum orðum og samþykkt og sendir það athugasemdalaust til n. Þessi skýrsla ber þó með sér, að n. álítur, að hér sé um mikilsvert mál að ræða, en leggur hins vegar til, að gerðar verði frekari rannsóknir í málinu og fengnar verði frekari upplýsingar og álit sérfræðinga erlendis. Sérstaklega leggja þeir þó áherzlu á, að aðrar þjóðir láti gera þessa tilraun og Íslendingar hafi ekki forgöngu í málinu. Þess vegna vilja þeir fresta málinu þar til tillögur frá öðrum þjóðum liggja fyrir.

Athugun Fiskimannasambandsins er nokkuð á sömu leið. Þeir telja rétt að halda áfram rannsóknum og smíða líkan af skipi og sjá, hvort það reynist vel, og þá taka málið á ný til athugunar. Í sambandi við þessi ummæli vil ég mega benda á, að ég tel ekki ástæðu til, að n. verði sammála um, að það sé þörf á að bíða eftir slíkum rannsóknum frá öðrum þjóðum. Hinir nýju togarar, sem fluttir hafa verið til landsins, hafa sýnt, að við Íslendingar erum færir um að segja til um nýbreytni í útgerðinni. Það verður ekki borið á móti því, að hinir nýju togarar eru með glæsilegustu togurum, sem flotið hafa, og er álitið, að Englendingar muni taka upp þá tegund togara, með þeim útbúnaði, sem settur er í þau skip, þegar þeir almennt fara að byggja upp flota sinn á ný. Bendir þetta allt til þess, að við Íslendingar getum lagt þar til málanna ekki síður en aðrar þjóðir og ekki einungis leitað til annarra þjóða. Hins vegar hafa komið fram ýmsar nýjungar nú á síðari árum. T.d. hafa Englendingar verið að gera tilraun með tveggja þilfara togara, sem tekur vörpuna inn að aftan. Þetta er einnig til rannsóknar í Þýzkalandi. í sjálfu sér er það hlutverk þeirra manna, sem fá þetta til meðferðar, að kynna sér allt á þessu sviði, áður en gengið er að samningum um, hvernig smíða skuli skipin, og nota þá reynslu, sem fyrir er. N. leggur síðan málið fyrir sjávarútvegsmálaráðh. Hann telur, að leita þurfi umsagnar sérfræðinga hér á landi. Hins vegar telur hann það nokkuð eðlilegt, að leitað sé til sérfræðinga annarra landa í skipasmiðum, áður en samið er um smiði skipanna, en leggur til, að frv. verði gert að l. á þessu þingi með þeim breyt., sem hann óskar eftir að gera á frv., þ.e. að ríkisstj. hafi heimild til að gera það, því að ýmislegt gæti komið upp í málinu, sem ekki væri hægt að uppfylla. N. hefur fallizt á þetta sjónarmið og leggur því til, að frv. verði samþ. með þessari breyt., þ.e., að upphaf 1. gr. orðist þannig: „Ríkissjóði er heimilt að láta smíða“, í staðinn fyrir að ætlazt er til, að það sé fyrirskipun, sömuleiðis að tæknilegum undirbúningi skuli vera lokið 1948. Þar er átt við, að gerðar verði allar teikningar, vinnulýsingar og leitað verði tilboða á því sviði og því verði öllu lokið síðast á næsta ári. Þá má sjá, hvort hægt yrði að veita fé og hvaða leið væri farin, ef það þykir rétt að halda þessu verki áfram, sem ég efa ekki, að sé talið heppilegt og nauðsynlegt. Ég veit ekki, hvað hæstv. ríkisstj. hugsar um framkvæmd í málinu. Líklega felur hún þetta ákveðnum sérfræðingi hér heima.

Það er ósk n., að undirbúningi verði hraðað svo, að honum verði lokið á næsta ári. Ég vil þó leyfa mér að taka það fram, að einn nm., 6. landsk., hafði sérstöðu í n. Hann vildi láta samþykkja frv. óbreytt, en gerði þó ekki annan ágreining, heldur lagði áherzlu á, að því yrði hraðað eins og hægt væri.

Að síðustu vil ég segja það, að þessi hugmynd er komin fram af tveimur ástæðum. Aðallega til að vernda líf og limi þeirra, sem á sjónum eru og starfa við þetta. Margra ára reynsla mín hefur sýnt það, að það er hægt að bæta úr þessu, og ég tel, að þessi breyting mundi verða stórkostleg í þá átt að vernda og skapa meira öryggi og betri aðbúnað fyrir skipverja. Hin ástæðan er sú, að nauðsynlegt er að hagnýta aflann meir en hingað til. Það er ekki vafi á því, að það er hægt með þeim skipum, sem hér er ætlazt til, að smíðuð verði. Ég met því mjög skoðanir meðnm. minna og að sjútvn. fallist á þetta sjónarmið og geti lagt til, að frv. verði samþ. Ég met mjög vel það sjónarmið, sem þar er farið fram á í þessu máli, og vænti þess, að d. samþykki frv. eins og það liggur fyrir.