16.12.1947
Efri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1372)

47. mál, togarasmíði í tilraunaskyni

Eiríkur Einarsson:

Það er fjarri því, að ég ætli að blanda mér í þessar umr. að því er snertir málefnið sjálft. En það, sem olli því, að ég kvaddi mér hljóðs, var einungis orðalagsatriði. Ég kann ómögulega við að láta 1. gr. frv. byrja eins og hún nú er: „Ríkissjóði er heimilt að láta smíða í tilraunaskyni“ o.s.frv. Sá, sem heimila á þarna, er ekki ríkissjóður, heldur ríkisstj. Þess vegna vil ég leyfa mér að bera fram brtt. í þá átt, að þessu verði breytt, þannig að í staðinn fyrir „ríkissjóði“ komi: ríkisstjórninni. Því að ríkisstj. mundi láta smíða þennan togara á kostnað ríkissjóðs.