09.12.1947
Efri deild: 29. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (1389)

103. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Það þarf talsvert mikinn kjark til þess að tala eins og sessunautur minn, hv. þm. Barð., gerði nú. Hann segir, að það þurfi kjark til að flytja þetta frv. Það er svo. Veit hann, hvað er nú að gerast í landinu í þessum málum? Veit hann, að á s.l. ári voru fluttir inn 25 minkar? Hvað gat yfirdýralæknir gert til að ganga úr skugga um, að þeir væru ekki hættulegir? Jú, hann sagði við eigendurna: Reynið þið að einangra þá og gá, hvort þeir eru veikir. Veit hann, að á s.l. ári voru flutt inn á annað hundrað hænsni? Veit hann, hvað yfirdýralæknir sagði þá: Reynið þið, góðarnir mínir, að einangra þau sjálfir. Veit hann, að á s.l. ári voru flutt inn 5 þús. egg til útungunar? Hvaða kontrol hefur verið með því, að ekki bærist veiki með þessum innflutningi? Veit hann, að yfirdýralæknir, sem á að hafa eftirlit með þessum innflutningi, hefur enga aðstöðu til þess? Það er ekki langt síðan hundar komu hingað til lands með erlendum sendimönnum. Hann gat beðið þá að passa þá í stofunni sinni. Hann gat ekki einangrað þá. Öll löggjöf, sem til er um þetta efni, er svo götótt, sérstaklega að því leyti, að ekki er lögð upp í hendurnar á yfirdýralækni nein aðstaða til að geta framkvæmt einangrun dýra. Þetta frv. er því til að skerpa þetta eftirlit, og það er ekki nema byrjun. Ég álít, að álitamál geti verið, hvort ekki ætti að fyrirskipa einangrun þeirra á Keldum, en það er látið óákveðið í frv., en bent á eyjar, sem vel getur verið réttara, þegar um mörg dýr er að ræða, en Keldur vafalaust heppilegri, ef og þegar um einstakar skepnur er að ræða. En þetta er staðreynd, að það eru til þrenn l., sem gilda um innflutning búfjár, og til þess að flytja inn þarf leyfi ráðh., og þó eru skepnur fluttar inn án þess að spurt sé um leyfi. Hingað koma hundar svo að segja með hverjum einasta sendiherra. Það er vegna þessa, sem gera þarf ráðstafanir til, að ekki stafi hætta af hundum. Það var lagt til á sínum tíma að hafa stranga einangrun, m.a. af mér. Ég lagði til, að féð, sem flutt var inn, væri haft í einangrun í eyju í tvö ár, áður en það kæmi í land. Það var ekki gert, og af því súpa menn svo seyðið, þar sem fjárpestirnar eru. Nú er verið að ganga svo frá, að ekki komi að sök, þótt fluttar séu inn skepnur. Þó segir hv. þm., að það þurfi kjark til að bera fram svona frv. Ég segi, að það þurfi kjark til að halda áfram því ófremdarástandi, sem nú gildir um innflutning búfjár. Yfirdýralæknir á að sjá um eftirlitið, en hann er ekki látinn hafa neina aðstöðu til þess. Úr því er verið að bæta með frv. Það þarf kjark til að standa á móti því, að Sigurður Hlíðar geti séð um, að sjúkdómar berist ekki inn í landið með dýrum, og segja, að hann skuli bara gera það heima í stofunni hjá sér, þar skuli hann einangra hina innfluttu gripi. Þú færð þúsund krónur í skrifstofufé, og notaðu þær til að einangra, svo að skepnurnar smiti ekki. — Það þarf kjark til að búa þannig að mönnum. Til hins þarf ekki kjark, að reyna að koma hér á því öryggi, sem er til staðar í öllum sæmilegum menningarríkjum, og skapa þá aðstöðu, að yfirdýralæknir geti framkvæmt það, sem honum er sagt að gera, með löggjöf. Hvers vegna kom svínapest til landsins? Hvers vegna kom hundapest til landsins, svo að þurfti að drepa hunda í mörgum sveitum og heilli sýslu? Af því að ómögulegt var að hafa eftirlit með því, að nauðsynleg einangrun ætti sér stað, þar sem engin aðstaða var til þess. Það er engin aðstaða til, að yfirdýralæknir geti haft þetta eftirlit, en það er það, sem fyrst og fremst er reynt að bæta úr með þessu frv., að yfirdýralæknir geti framkvæmt sína embættisskyldu, sem honum er ómögulegt nú. Á þessu er misskilningurinn byggður hjá hv. þm., og ég veit, að þegar hann athugar, hvernig frv. er til komið, þá sér hann, að frv. er ekki um að flytja inn skepnur, heldur til að skapa harðara aðhald og betra eftirlit með þeim innflutningi, sem á sér stað, hvort sem við viljum eða ekki, oft í óleyfi allra.