10.12.1947
Efri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

103. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Mér finnst sessunautur minn, hv. þm. Barð. (GJ), og ég vera í öllum aðalatriðum sammála um þetta mál og að hann viðurkenni, að frv. miði að því að skapa meira öryggi við að flytja inn búfé heldur en nú er. Hann talaði um, að mikill skaði hefði hlotizt af þessum innflutningi áður og að ekki hefði verið farið eftir þeim reglum, sem gilt hefðu. Ég held því fram, að farið hafi verið eftir gildandi reglum, en þær hafi ekki reynzt nægilegar. Hins vegar var ekki farið eftir þeim till., sem ég lagði til, og nú upp undir 20 ára skeið hefur ekki það ár liðið, að ekki hafi verið fluttar einhverjar skepnur til landsins. Þá verður hv. þm. Barð. að viðurkenna, að nauðsynlegt er að hafa reglur um þetta, sem hægt er að láta gilda og hægt er að framkvæma. Það er t.d. stutt síðan, að fluttir voru til landsins nokkuð margir minkar, og taldi dýralæknir ómögulegt að fara eftir reglum samkv. l. til að tryggja öryggi í þessum efnum, og hefði það ekki verið hægt, ef ekki hefði notið við prívatmanna til þess að einangra dýrin og yfirdýralæknirinn fengið þá til þess. Og það er nú svo, að þessi innflutningur hefur ekki verið einskorðaður við landbrh., eins og hér er lagt til í frv., en samkv. því er landbrh. einum heimilt að flytja búfé til landsins, og væri þá allt miklu tryggilegar búið heldur en nú er. Hins vegar skal ég gjarnan stuðla að því, að landbn. athugi það, hvort ástæða sé til að hafa ákvæði 1. gr. frv. skýlausar orðað, sem er hugsað þannig, að einstaklingar geti ekki flutt inn búfé, heldur aðeins landbrh. — Hv. þm. minntist á innflutning hunda fyrir sendiherrafrúr hér á landi, en sá innflutningur mundi aldrei verða hindraður, því að venjulega eru þessir hundar komnir inn í höfnina, þegar tilkynnt er um komu þeirra, og heldur en að láta það verða að utanríkisdeilumáli, er þeim hleypt í land.

Ég veit, að hv. þm. Barð. getur ekki annað en viðurkennt, hve ástandið er slæmt í þessum málum hér á landi. Við höfum hér alls konar sjúkdóma í búfé, svo sem fjárpestir, fleiri tegundir, svínapest og hænsnapest, sem borizt hafa til landsins á síðustu árum, og ekki allar með búfé, heldur mönnum og hlutum, og allt stafar þetta af því, að ekki er nógu örugglega um þetta búið og að búfé það, sem smitið hefur flutzt inn með, hefur verið flutt inn til einstakra manna án sérstaks eftirlits, en það, sem fyrir mér og okkur vakir með þessu frv., er ekki annað en það að ganga svo örugglega frá þessum málum, að komið verði í veg fyrir, að slíkt tjón hljótist af innflutningi búfjár í framtíðinni. Ég ítreka það, að ég skal milli umr. athuga það í n., hvort ástæða sé til að taka fram í 1. gr. frv., að öllum öðrum en landbrh. skuli bannað að flytja inn búfé. Hitt er svo annað mál, hvort rétt sé að standa á móti öllum innflutningi búfjár, hverju nafni sem nefnist, og liggur utan við þetta frv. Sjálfur lít ég þannig á hvað okkar búfé snertir, að við ættum hvorki að flytja inn hesta né kýr. Ég er á gagnstæðri skoðun við bæjarstjórn Reykjavíkur, sem nú er farin að sækja fast að flytja inn kýr, sem hafi hærri ársnyt en okkar kýr hafa, og mun ég ekki fara að rökstyðja það hér, hvers vegna ég er á gagnstæðri skoðun við hana, en það hafa tvisvar komið til mín menn til þess að ræða þetta mál við mig, og lét ég það í ljós við þá, að sem ráðunautur Búnaðarfélagsins mundi ég leggja á móti slíkum innflutningi. Aftur á móti tel ég rétt og sjálfsagt að flytja til landsins sauðfé. Ég hef aldrei hvikað frá þeirri skoðun minni, síðan ég fyrst tók opinberlega til máls um þetta mál, en það var árið 1912, og kom fyrst fram á prenti árið 1917, að við ættum að flytja inn búfé (sauðfé) og einangra það úti í eyju og hafa það þar einangrað saman við íslenzkt fé, en þegar búið væri að rannsaka, hvaða gagn slík blöndun gerði og að um enga sjúkdóma væri að ræða, mætti flytja hið erlenda fé í land. Kom þessi skoðun mín fram í frv. um innflutning búfjár, sem ég og Metúsalem Stefánsson sömdum fyrir ríkisstj. og var lagt fyrir búnaðarþing til umsagnar árið 1931, en þetta ákvæði var fellt úr því, af því að búnaðarþingsmenn og alþingismenn vildu hafa þetta öðruvísi en ég. — Þá vil ég taka það fram um svínin, að sá stofn, sem hér er á Suðurlandi, er allur út frá nokkrum skepnum og mjög skyldleikaræktaður og nú allur smitaður af svínapest, og þarf að bólusetja hann árlega til þess að halda honum frá smitun. Ég tel því nauðsynlegt til þess að geta haldið áfram að reka svínarækt hér á landi að hreinsa þann stofn, sem til er, og fá nýtt blóð. Eigi svínarækt að vera hér í framtíðinni, þarf innflutning á svínum. Hitt er svo annað mál, hvort svínarækt á hér rétt á sér eða ekki. — Loðdýraræktin er sem stendur á því stigi, að frá mínu sjónarmiði tel ég ekki miklar líkur til, að nauðsyn sé á innflutningi í hennar þágu. Hins vegar lítur loðdýraræktarráðunauturinn öðrum augum á þetta. Hann flutti inn loðdýr á s.l. ári, þótt ekki væri hægt að fara með þann innflutning að landslögum, og vill flytja inn enn fleiri loðdýr til þess að bæta stofninn.

Það verður sjálfsagt um það deilt milli mín og annarra, hvort yfirleitt á að banna allan innflutning á búfé eða ekki eða fara þá leið, sem frv. gerir, að heimila ríkisstj. sjálfri og ekki öðrum slíkan innflutning, sem framkvæmdur sé á þann hátt, að sem öruggast sé, að með búfénu berist engir sjúkdómar. Þá verðum við að gera okkur ljóst, að ástandið í þessum efnum er nú allt annað heldur en var áður. Það var svo, að hingað komu skip endrum og eins, kannske með nokkurra daga fresti fram til síðustu ára, en áður með vikna- og mánaðafresti, og voru þessi skip oft lengi á leiðinni milli landa, þannig að möguleikinn til, að smitandi sjúkdómar bærust hingað með öðru en búfé, var tiltölulega lítill. Nú er það hins vegar svo, að hingað eru daglega ferðir og stundum oft á dag frá hinum ýmsu löndum, bæði sjóleiðis og flugleiðis, og má taka það sem dæmi um það, hve smithættan í þessum efnum hefur aukizt, að maður, sem stígur ofan á lambasparð í Skotlandi og sezt síðan upp í flugvéi, sem eftir nokkrar klukkustundir hefur skilað honum á flugvöllinn í Reykjavík, getur hæglega borið það neðan í skónum sínum, sem þarf til að bera garnaveikina milli landa.

Þó að menn vilji einangra skepnurnar, þá kemur það ekki að fullum notum, því að smithættan er orðin svo mikil vegna aukinna samgangna. T.d. getur garnaveikibakterían lifað lengi, eða allt að 18 mánuðum undir hentugum skilyrðum. Þeir, sem áður voru á móti öllum innflutningi, verða nú að breyta um stefnu vegna breyttra og aukinna samgangna. Ég skal viðurkenna, að í þessu frv. hefði ef til vill verið ástæða til að taka þetta atriði fastari tökum og setja strangari ákvæði til að fyrirbyggja hættuna á, að sjúkdómurinn berist með öðru en lífandi skepnum. En það er þó gert að nokkru leyti hér, en að mjög óverulegu leyti eða ekki í núgildandi löggjöf. Þó er tæplega nógu örugglega um það búið. Ég talaði um þetta við þá menn, sem voru í sumar að undirbúa þetta frv., en þeir sáu sér ekki fært að gera það, og ástæðan, sem þeir færðu fram. fannst mér heldur léleg, og þó, hún var nefnilega sú, að meðan dýralæknarnir í landinu væru svo fáir sem þeir væru nú og viðkomustaðir flutningatækjanna orðnir svo margir, gætu dýralæknarnir ekki komið því við að hafa svo víðtækt eftirlit sem skyldi með alls konar innflutningi, þar á meðal fólki. Ég skal svo ekki orðlengja mikið meira um þetta, en vil aðeins benda mönnum á, að aðstaðan er orðin mjög breytt. Ég skal svo taka það til athugunar, hvort rétt sé að setja inn í frv. ákvæði um, að enginn nema landbrh. hafi rétt til að flytja inn dýrin.