17.02.1948
Neðri deild: 58. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1407)

103. mál, innflutningur búfjár

Frsm. (Steingrímur Steinþórsson):

Herra forseti. Landbn. hefur orðið ásátt um, eins og nál á þskj. 345 ber með sér, að frv. þetta, sem komið er frá hv. Ed., verði samþ. með nokkrum breytingum, sem greinir á því þskj. Þau lög, sem gilt hafa um innflutning búfjár, eru frá 1931, með nokkrum viðaukum. Sú meginbreyt., sem gerð er nú, er sú, að nú er ekki heimilt að flytja inn búfé, nema það verði í ævilangri einangrun í eyju, þannig að það verði aldrei saman við innlent búfé, og er hugmyndin að viðhafa sæðisflutning til frjóvgunar. Hér er um að ræða stóraukna tryggingu gegn því, að sjúkdómar breiðist út frá hinu erlenda fé, og er ekki vafi á því, að hér er stefnt að mun öruggari einangrun en að undanförnu. En þótt frv. sé þannig öruggara en gildandi lög, þótti landbn. rétt að herða enn á öryggisákvæðunum. N. leitaði álits yfirdýralæknis og innti hann eftir, hvað til frekara öryggis mætti gera, og hygg ég, að frv. sé nú mjög í samræmi við skoðanir hans.

Ég skal svo með örfáum orðum skýra brtt. n. á þskj. 345, en þær stefna allar í þá átt að gera ákvæði frv. öruggari um hindrun gegn útbreiðslu búfjársjúkdóma, og leggur því n. til, að fram komi skýrt í 1. gr., að bannað sé að flytja inn öll dýr nema með undanþágu, er landbrh. veitir. 2. brtt. n. er við 3. gr., og er þar lagt til, að aftan við gr. bætist, að framlög ríkissjóðs séu ákveðin í fjárl. hverju sinni. Þá er brtt. við 5. gr. um það, hversu lengi gripir, sem flytja á til landsins, skuli vera einangraðir í heimalandi sínu. Í frv. er gert ráð fyrir, að sá tími verði 4 vikur, en n. taldi tryggara að hafa heldur 6 vikur, og vildu sumir nm. ganga enn lengra, en þetta varð að samkomulagi. Þá er hér brtt. við 7. gr., að gr. orðist um, en það er ekki efnisbreyt. Hún er aðeins til að taka skýrar fram, hvernig reglugerð skuli sett að fengnum till. yfirdýralæknis. Hún er ákveðnar orðuð hér en í frv., án þess að þar sé um verulega efnisbreyt. að ræða. Loks er gerð smávægileg brtt. við 11. gr., sem ræðir um sektir við brotum gegn l. Í frv. er gert ráð fyrir sektum allt að 20 þús. kr. N. leggur til, að því ákvæði verði breytt í 1000–20000 kr. N. virtist, að svo gæti farið, að mönnum virtist, að það gæti borgað sig að brjóta l., ef þeir ættu aðeins von á smávægilegri sekt fyrir það, og leggur því til, að sekt verði aldrei minni en 1000 kr.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. Ég vænti þess, að hv. þdm. hafi áttað sig á þessum brtt. Þær stefna að því einu að auka það öryggi, sem er í frv., svo að mjög litlar líkur geti verið fyrir því, að tjón geti hlotizt af. Það mun einnig vera álit sumra í n., að heimildirnar, sem ráðuneytinu eru gefnar, skuli notaðar með mestu varasemi, og ég hýst við, að menn vilji ekki, að þær séu notaðar, nema brýn nauðsyn sé til þess. Hins vegar eru skoðanir nm. skiptar um, hversu langt skuli ganga í að nota slíkar heimildir.