06.02.1948
Efri deild: 54. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (1424)

106. mál, skráning skipa

Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Herra forseti. Eins og lofað var, bæði af mér og form. n., hefur n. gert ýmsar brtt. við frv. og farið nákvæmlega í gegnum það. N. er sammála um brtt., eins og þær liggja fyrir á þskj. 301. En áður en atkvgr. hefst, vil ég fara um þær örfáum orðum.

Fyrsta brtt., að í stað orðsins „Fjármálaráðuneytið“ í upphafi 1. mgr. komi: Ráðuneytið, var gerð í samráði við fjmrh. Sumir töldu rétt, að þetta heyrði undir siglingamálaráðh., en með brtt. er gert ráð fyrir því, að það sé óbundið, og þótti það réttara. Öll venja, sem skapazt hefur um þetta, er á þá lund, að það heyri undir skipaeftirlitið og skipaskoðunarstjóra að miklu leyfi.

Um aðra brtt. er það að segja, að það er mesta efnisbreytingin, sem lögð er til. Í frv. er gert ráð fyrir, að 150 smál. skip breyti skráningu, ef það er tekið til annarra afnota. En n. telur, að þetta mundi valda ruglingi. Það gæti farið svo, að sífellt þyrfti að vera að breyta skráningu á sama skipi, þ.e. skipta um fiskveiðiskipsskírteini og flutnings,skipsskírteini, og því fylgir, að breyta þyrfti réttindum manna á þessum skipum. Það yrði að setja meiraprófsmann — mann með fullum réttindum — í stað þess, er áður hafði rétt til þess að fara með skipið. Þetta álítum við illframkvæmanlegt og töldum, að það mundi valda óánægju. Þetta hefur verið rætt við skipaskoðunarstjóra, sem hefur samið þetta frv. með aðstoð félmrn., og mér skildist, að hann hafi fallizt á þá breytingu, sem við í n. höfum komið okkur saman um, að miða þetta við 350 rúmlesta skip, sem smíðað er sem fiskiskip eða hefur stundað fiskveiðar, þó að það taki upp starf, sem er utan við aðalverksvið slíkra skipa, en það er að flytja ísvarinn fisk milli landa. Ef slík skip eru tekin í aðra flutninga en hér er gert ráð fyrir, verður að sjálfsögðu að breyta um skráningarskírteini þeirra.

Aðalbreyt. n. er því sú, að öll okkar fiskiskip að meðtöldum minni togurum, sem við eigum nú, þurfi ekki, ef þau flytja ísvarinn fisk milli landa án þess að hafa veitt hann, að skipta um skráningarskírteini. Það hafa verið nokkur brögð að því, að skip, sem keypt hafa verið til landsins og hafa ekki verið flutningaskip, hafa verið notuð hér heima í flutninga og hafa alls ekki farið á fiskveiðar, en hafa verið sett undir skráningarmerkið fiskiskip. Allir þeir menn, sem hafa rétt til þess að sigla farskipum, telja, að þar sé gengið á rétt þeirra og það sé þeirra að vera á slíkum skipum sem yfirmenn og fiskveiðiréttindi komi ekki þar til greina. Þetta mun vera í samræmi við það, sem tíðkast á Norðurlöndum, að á slíkum skipum séu menn með sérréttindi, en ekki fiskveiðiréttindi. Krafan um að breyta þessu fyrirkomulagi er komin frá stétt farmanna, sem þurfa að hafa skip til þess að öðlast réttindi á. En á undanförnum árum hefur sá skipastóll verið lítill, og hafa færri komizt þar að en æskilegt væri til þess að ala upp farmenn.

Frv. hefur, eins og sést á brtt., verið breytt af eðlilegum ástæðum með tilliti til þeirrar þróunar. sem orðið hefur á okkar siglingamálum, og samkvæmt þeim venjum, sem skapazt hafa í nærliggjandi löndum. Einmitt um þetta ákvæði, um skráningu skipa, er samvinna meðal vestrænna þjóða.

Þriðja brtt. er leiðrétting. Fjórðu brtt. má einnig telja leiðréttingu, því að ákvæðið, sem breytt er, þótti ekki nógu skýrt í frv.

Svo koma hér brtt., sem skýra sig flestar sjálfar, t.d. að í stað orðsins „félagsmálaráðuneytisins“ komi: ráðuneytisins. Og eru margar fleiri brtt. þess eðlis, að um enga efnisbreytingu er að ræða, heldur aðeins um skýrari ákvæði að ræða heldur en í frv.

Þá vil ég mælast til þess við hæstv. forseta, að hann láti ekki fara fram atkvgr. um 10. brtt., því að það eru tilmæli okkar nú., að hún verði tekin til baka og athuguð fyrir 3. umr.

Með 11. brtt. er aðeins fært til betra máls efni þeirrar gr.

N. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. hér í hv. d. með þeim breyt., sem hún leggur til, að gerðar verði á frv. og ég hef nú skýrt nokkuð.