10.12.1947
Neðri deild: 30. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1042 í B-deild Alþingistíðinda. (1472)

45. mál, búfjárrækt

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Út af þessari aths. hv. 6. þm. Reykv. (SigfS) vil ég segja það, að ég þekki ekki þessa merkingu í orðinu stóðhestur, sem hann talaði um. En ég veit, að það er oft talað um, að t.d. tamdir hestar gangi í stóði og að ótamdir, geltir hestar gangi í stóði. En ég hef aldrei heyrt talað um þá sem stóðhesta. En orðið graðhestur og stóðhestur hygg ég, að séu notuð í sveitum um óvanaða hesta jöfnum höndum. En fyrir okkur vakti það, að okkur þótti þetta orð fallegra. Ég fletti þessu upp í orðabók, og þar var sú merking lögð í orðið stóðhestur, að það þýddi graðhestur. Til þess samt að taka af öll tvímæli, settum við inn í, hvað orðið merkti, ef einhver skyldi hafa aðra skoðun á þessu. Og ef sú forna merking þessa orðs er eitthvað að slævast hjá mönnum, sem ég þekki ekki svo til, þá sé ég ekkert á móti því, að þingið geri þá sitt til þess að halda þessu gamla og góða orði í máli okkar með þessari merkingu. Annars er mér þetta ekkert kappsmál. En okkur þótti þetta orð fara betur, og við héldum, að það þyrfti ekki að valda neinum ruglingi. (SigfS: Hvar eru „Einarssynir í Reykjadal“, sem talað er um í 37. gr. frv.?) Það er leiðrétt í brtt. okkar, eins og ýmislegt annað, því að eins og hæstv. atvmrh. (BÁ) tók fram, þá var frv. frá búnaðarþingi dálítið snöggsoðið, því að það var afgr. þar á allra síðustu stundu, þannig að ekki vannst tími til þess um þennan stóra lagabálk að ganga frá málinu á frv. eins og þurft hefði að vera og æskilegast hefði verið. en meira hugsað um, að efnislega mætti málið ganga fram nokkurn veginn eins og vera þyrfti.