19.02.1948
Efri deild: 65. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

45. mál, búfjárrækt

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir skynsamleg ummæli um meðferð málsins. þar sem hann talaði um, að slík stór lagafrv. þyrftu náinnar athugunar við. Enn fremur þakka ég hv. 1. þm. N-M. fyrir upplýsingarnar, og hefði hann gjarnan mátt spara sér þau hnýfilyrði í minn garð, að ég hefði átt að lesa frv. betur, því að ég tók það fram, að ég hefði viljað spara mér tíma með því að spyrja hv. þm. að þessu og tók fram, að mér hefði ekki gefizt tími til að lesa allt frv. og breyt. við það vandlega í gegn. Það er nú komið greinilega í ljós, að stefna búnaðarþings er önnur en felst nú í frv. Og þegar því er slegið föstu, að það eigi þannig að verða að l., þá verður þetta ekki skilið öðruvísi en svo, að þeir þm., sem sitja hér og eru sérstakir fulltrúar búnaðarsamtakanna, ráði meiru en fulltrúar bænda á búnaðarþingi og geti tekið á sig meiri ábyrgð. Ég ætlaði mér ekki að tefja málið, en bendi aðeins á, hvílíkur reginmunur er á afstöðu búnaðarþings annars vegar og landbn. Nd. og Ed. hins vegar. Hv. 1. þm. N–M. segir, að búnaðarþing hafi spennt kröfurnar í alla enda og kanta, og ef þetta er hæstaréttardómur í þessu máli, þá er þetta þungur dómur um búnaðarþing. Hv. þm. ætti þá ekki að láta fylgja næsta frv., sem komið er frá búnaðarþingi, að menn ættu að gleypa við því athugunarlaust, og ætti hann að minnast þessa, þegar hann mælir með söluskattinum.

Í þessu frv. hefur verið dregið úr öllu, svo að hv. þm. segir, að ef til vill geti búnaðarþingsfulltrúinn hv. þm. Dal. ekki sætt sig við það. Ég vildi í sambandi við málið leyfa mér að spyrja enn hv. 1. þm. N–M., eftir að hann hefur gefið upplýsingar um styrkinn til hrossaræktarinnar, hvort hann sér ekki fært að gera sterk átök til að laga ástandið í þessum málum, og segi ég þetta ekki til að tefja þetta mál.

Hvað viðvíkur héraðsráðunautunum, þá verður því ekki neitað, að eftir að málið hefur gengið í gegnum Nd., er hér ekkert eftir nema það að setja á um 20–30 nýja embættismenn, og hefði mátt gera það á einfaldari hátt en svo að umsteypa heilum lagabálki, því að fráteknum héraðsráðunautunum eru engin nýmæli í frv. nema ákvæðin um svína- og alifuglarækt og svo sæðingarstöðvarnar. En megináherzlan er lögð á héraðsráðunautana, og bendi ég á þetta af því, hve flokksbræður hv. þm. N-M. hafa undanfarið fjölyrt um, hve óverjandi væri, hve mörg lög hefðu verið sett að undanförnu, sem fjölguðu mjög embættismönnum og yrðu til þess að stórauka útgjöld ríkissjóðs. Ef þetta er rétt athugað hjá framsóknarmönnum, á að breyta þessari gr. um héraðsráðunautana. Það hefur einnig verið heimilað með l. um húsagerð í sveitum að taka um 20 húsameistara út í sveitirnar. Ef þessir embættismenn eru svo nauðsynlegir, að það fé, sem ríkið greiðir þeim fyrir starf þeirra, kæmi aftur með vöxtum og vaxtavöxtum, þá er þetta náttúrlega rétt, hvort heldur um er að ræða húsameistara eða héraðsráðunaut. En þá er eðlilegast, að þessum embættismönnum sé borgað af þeim atvinnuvegum, sem þeir þjóna. Búnaðarfélag Íslands hefur nú einnar milljón króna ársstyrk, og er þetta mjög þungur baggi á ríkissjóð, og segi ég þetta ekki af því, að ég sé á móti því, að félagið njóti styrksins, en þetta er mjög erfitt fyrir ríkissjóð. Ég geri ráð fyrir, að það sé álit þings og þjóðar, að þetta fé komi aftur með vöxtum og vaxtavöxtum, en þetta er sannarlega ekki lítill peningur, og þingið verður að gera það upp við sig, hvort það vill uppfylla gömul loforð eða setja ný ákvæði, sem koma til með að kosta ríkissjóð stórfé. Ég er ekki á móti því, að ríkið greiði héraðsráðunautunum, en þegar lögð er áherzla á að skera niður öll önnur framlög, er ekki eðlilegt að setja ný embætti, sem engar líkur eru til, að nokkrir menn fáist í.

Ég hef ekki verið með nein hnýfilyrði í garð hv. 1. þm. N-M. Það stendur ótvírætt í grg. frv., að aðalástæðan fyrir því, að krafizt er fjölgunar búfjárræktarráðunautanna sé sú, að þeir, sem ráðnir eru nú, komist ekki yfir starf sitt. Ef ráðunautarnir komast ekki yfir það starf, sem þeir eru ráðnir til að gegna, þá er það skylda Búnaðarfélags Íslands að binda þá við störf sín , en láta þá ekki sinna ýmsu öðru, og eru þetta engin hnýfilyrði. Það er engin einasta stofnun í landinu, sem á eins marga menn í aukastörfum og Búnaðarfélag Íslands, og getur hv. 1. þm. N-M. kynnt sér þetta með því að lesa launaskýrsluna frá Búnaðarfélaginu árin 1944 og '45. Meira en helmingur starfsmannanna er í allt öðrum störfum, og á sama tíma er svo lýst yfir því, að þessir starfsmenn komist ekki yfir þau störf, sem þeir eru ráðnir til að gegna. Ég hugsa, að þetta sé frekar sett inn sem pólitískur bitlingur. Þetta voru því ekki hnýfilyrði til hv. frsm., siður en svo.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta meira nú, og mín vegna óska ég ekki eftir, að umr. verði frestað. Ég get borið fram brtt. við 3. umr.