15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1538)

80. mál, ljósmæðralög

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. Þetta frv. er búið að vera ákaflega lengi hjá n., en það er af gleymsku einni, en ekki neinni andúð n. á málinu. Það liggur alveg ljóst fyrir. Í fyrra voru hækkuð laun ljósmæðra. og var sú hækkun túlkuð á þá leið, að grunnlaun þeirra hækkuðu um 200 kr. Bent var á það í báðum deildum þingsins, að sú 25% og 30% hækkun, sem í gildi var áður, ætti að gilda áfram með hinni nýju launahækkun, en þegar til framkvæmdanna kom, var 25% og 30% uppbótin látin falla niður, og útkoman varð sú, að árslaun ljósmæðra hækkuðu um 12 kr. og 50 aura með breytingunni á síðasta Alþingi, og er hér því raunverulega aðeins um leiðrétting að ræða.

Þetta mál var í fyrra flutt af heilbr.- og félmn. Nd. og er nú flutt af tveimur þm. úr þeirri n., og í heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur enginn ágreiningur verið um þetta mál, þó að það hafi verið svo lengi hjá n. Það verður að kenna mér einum, sem formanni hennar, það er gleymsku minni að kenna. — Ég vænti svo, að þessi sjálfsagða réttarbót verði samþ.