06.02.1948
Neðri deild: 52. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1069 í B-deild Alþingistíðinda. (1565)

144. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Flm. (Sigurður Kristjánsson):

Herra forseti. Eins og tekið er fram í grg. þá hefur mér verið falið fyrir hönd Samábyrgðar ríkisins að flytja þetta frv. Þessari þingdeild mun vera það kunnugt, að Samábyrgð ríkisins er stjórnað af þremur mönnum undir yfirstjórn viðkomandi ráðuneytis. Framkvæmdastjóri er flm. þessa frv. og mun vera talinn form. Hinir stjórnendurnir eru Vigfús Einarsson, skrifstofustjóri í atvmrn., en í forföllum hans nú Gunnlaugur Briem, og skólastjóri Sjómannaskólans, Friðrik Ólafsson, en hann tók við af Páli Halldórssyni. Þessi stjórn Samábyrgðarinnar hefur ásamt sérfræðilegum ráðunautum samhljóða falið flm. að bera fram þetta frv.

Hv. deild mun líka vera það kunnugt, að öllum skipaeigendum er skylt að endurtryggja skip sín hjá þessu félagi. Sömuleiðis tryggði ríkið sin skip hjá Samábyrgðinni, en nú hefur því verið breytt og ríkið tryggir sín skip beint hjá erlendu tryggingarfélagi. Þetta virðist vera dálítið undarlegt, að allir skipaeigendur eru skyldir að tryggja hjá Samábyrgðinni, en ríkið sjálft, sem er raunverulega eigandi Samábyrgðarinnar, tryggir þar ekki sín eigin skip. Hvað hagkvæmar tryggingar ríkið fær á sín skip, veit ég ekki, en hitt þykir mér sennilegt, að félag eins og Samábyrgðin, sem endurtryggir fyrir 100 millj., njóti ekki lakari kjara og ætti að geta náð allmiklu hagkvæmari kjörum en einstaklingar. Auk þess taldi stjórnin, að sjálfsagt væri, að tryggingarnar væru að eins miklu leyti innanlands og fjárhagsgeta leyfði. Nú hefur Samábyrgðin 25% af áhættu fiskiskipa, en hámarkstryggingarupphæð hvers skips hefur verið 100 þús. kr. Grunntryggingin er 15%, en Samábyrgðin lætur svo stríðsslysatryggingarnar hafa vissan hluta. Að öðru leyti eru tryggingarnar í London.

Ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í þetta við þessa umr., enda mun gefast tækifæri til þess, þegar málið hefur verið athugað í n., og þá um leið hægt að ræða niðurstöður n. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.