15.03.1948
Efri deild: 78. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1071 í B-deild Alþingistíðinda. (1576)

144. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem borið var fram í hv. Nd. og er upphaflega á þskj. nr. 296, gerir ráð fyrir því, að það skuli fastbundið með l., að tryggja skuli hjá Samábyrgð ríkisins öll skip, sem ríkissjóður á og tryggir á hverjum tíma. Þetta frv. hefur tekið nokkrum breyt. í Nd., eins og séð verður á þskj. 416, þannig að ákveðið er, að tryggingarnar skuli ekki vera lakari en hjá öðrum tryggingarfélögum, að dómi ríkisstj. Ef frv. verður samþ. nú, er í raun og veru lítið annað gert með þessu lagaákvæði en það að skylda þær ríkisstofnanir, sem fara með þessi mál, sem eru hér Skipaútgerð ríkisins. til þess að leggja þau tilboð, sem fyrir liggja um vátryggingar í þessum efnum, fyrir Samábyrgðina og leyfa henni að ganga inn í beztu kjör. Það kann að vísu að vera nokkur hætta í sambandi við þetta þannig, að ef menn vita fyrir fram, að lögboðið er, að ríkisstofnun skuli eiga heimtingu á því að fá jafnan að ganga inn í lægsta tilboð um tryggingar í þessum efnum, þá kann sá möguleiki að vera fyrir hendi, að það dragi úr áhuga vátryggingarfélaganna um að gera tilboð um vátryggingarkjör á hverjum tíma, vitandi, að það er ekki trygging fyrir því, að lægsta tilboð yrði samþ. og gengið að samningum um tryggingu. Sjútvn. hyggur þó, að þetta muni ekki raunverulega verða neitt til tjóns. En þetta lagaákvæði mundi verða til þess að beina þessum tryggingamálum inn á þá braut, að beinir samningar yrðu gerðir á milli Samábyrgðarinnar og Skipaútgerðar ríkisins. Enda mun þetta hafa verið rætt við forstjóra Skipaútgerðar ríkisins við meðferð málsins í hv. Nd., sem þó kemur ekki fram í þskj., og mun hann geta fellt sig við þá breyt., sem orðin er á þessu á þskj. 416. Sjútvn. sá því ekki ástæðu til að gera till. um breyt. á frv. eins og það er á því þskj. og mælir með því, að það verði samþ. óbreytt. að undanteknum hv. þm. N-Þ., sem hefur skrifað undir nál. með fyrirvara, og mun hann gera grein fyrir fyrirvara sínum við þessa umr. Hann hefur borið fram brtt. við frv., sem hann mun gera grein fyrir. En allir aðrir nm. standa að því að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það er á þskj. nr. 416 og eins og það kom frá hv. Nd.