21.11.1947
Neðri deild: 22. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1591)

88. mál, fiskveiðar í landhelgi

Flm. (Pétur Ottesen):

Eins og grg. þessa frv. ber með sér, þá hefur það verið flutt á tveim síðustu þingum, en ekki hlotið fullnaðarafgreiðslu. Það var samþykkt hér í Nd., en í Ed. var því vísað til ríkisstj. með rökstuddri dagskrá til undirbúnings, og var gert svo ráð fyrir, að athugun hjá ríkisstj. yrði lokið fyrir þetta þing. Eftir að ég kom til þings í haust, fór ég að kynna mér, hvað ríkisstj. hefði gert, og komst þá að því, að undirbúningur var ekki hafinn og ekkert hafði verið gert í málinu. Þess vegna höfum við flm. lagt málið fram á ný, því að við lítum svo á, að þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir, séu mjög nauðsynlegar, en þær eru fólgnar í því að hækka sektarákvæði laganna og færa þau til samræmis við samsvarandi ákvæði í l. um bann við botnvörpuveiðum í landhelgi. Auk þess höfum við tekið það upp um skip, sem fá afla án þess að veiða hann sjálf, að sektarákvæðin nái einnig til slíkra skipa, en það er ógreinilegt, eins og lögin nú eru, að sektarákvæðin nái til annarra skipa en þeirra, sem beinan þátt eiga í veiðunum. Sé ég svo ekki ástæðu fyrir hönd okkar flm. að fara um þetta fleiri orðum, en vildi mælast til þess, að sjútvn. fengi þetta mál til athugunar að lokinni þessari umr. Ég geri ráð fyrir, að meðlimir sjútvn. ræði málið við viðkomandi ráðuneyti, og hafi þá orðið einhver undirbúningur af hálfu ríkisstj., þá takist samstarf milli n. og þess ráðh., sem mál þetta heyrir undir.