17.02.1948
Neðri deild: 58. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1074 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

88. mál, fiskveiðar í landhelgi

Frsm. (Pétur Ottesen):

Frv. þetta fjallar eingöngu um þann þátt laganna um fiskveiðar í landhelgi, sem snertir sektarákvæðin. Frv. fór í gegnum þessa d. í fyrra, en í Ed. var því vísað til ríkisstj. til athugunar. Sjútvn. sendi frv. til dómsmrn. til umsagnar, og fékk n. bréf frá dómsmrh., þar sem látið er í ljós það álit, að sektarákvæðin séu allt of lág. Hins vegar getur dómsmrh. þess, að hann teldi æskilegt að afgreiða þetta mál í sambandi við landhelgismálin í heild, en telur þó ekki nauðsyn bera til að fresta afgreiðslu þessa máls þangað til. Sjútvn. var sammála um að hækka sektarákvæðin og færa þau til samræmingar við ákvæðin um bann gegn botnvörpuveiðum í landhelgi. En með tilliti til þess, að í l. eru sektirnar miðaðar við gullkrónur, taldi n. rétt að lækka sektirnar frá því, sem var í frv. upphaflega. Er þó um mikla hækkun að ræða frá því, sem er í gildandi l. Hef ég svo ekki meira um þetta að segja, en vænti þess, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem ég hef þegar gert grein fyrir.