24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (1615)

165. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á l. um byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp, sem ekki eru löggiltir verzlunarstaðir, er flutt til þess að hindra, að ákvæði l. geti valdið byggingarsjóði óhæfilegum útgjöldum vegna kostnaðar við byggingarfulltrúa. Vil ég gera grein fyrir frv. með nokkrum orðum.

1. gr. er um það, að í stað ákvæðisins um, að sýslun. sé heimilt að hafa byggingarsamþykkt fyrir sýsluna, þá sé það skylt. Það þykir ekki minni nauðsyn, að byggingarsamþykkt verði gerð fyrir þessa aðila heldur en fyrir bæi og stór kauptún.

2. gr. er um breyt. á 4. gr., og er þar gert ráð fyrir, að síðari hluti 4. gr. falli niður. Í þeim ákvæðum. sem lagt er til, að falli niður, er svo ákveðið, að sýslun. ráði byggingarfulltrúa í samráði við stjórn teiknistofu landbúnaðarins og stjórn hlutaðeigandi búnaðarsambands, og sé hann formaður allra byggingarnefnda hreppanna, og heimilt sé tveimur eða fleiri sýslufélögum að hafa sameiginlegan byggingarfulltrúa. Hér er aðeins gert ráð fyrir, að sýslufélögum sé heimilt að hafa sameiginlegan byggingarfulltrúa, en frekar gert ráð fyrir, að hver sýsla hafi hann út af fyrir sig. Enn fremur er ákveðið, að launin séu greidd af þessum aðilum: sýslusjóði, nýbýlasjóði og byggingarsjóði, að 1/3 frá hverjum. Þessir sjóðir voru settir saman í eina stofnun, byggingarsjóð, en það láðist að taka það inn í þau l. að yfirfæra á sjóðinn þá skyldu að greiða byggingarfulltrúum laun. Þess vegna er nú allt í lausu lofti, hvernig launin verði greidd, en vitanlega er óhjákvæmilegt að hafa einhver ákvæði um launagreiðslurnar. Í frv., sem lagt var fyrir Nd. og hefur verið afgr. frá henni til þessarar d., er gert ráð fyrir, að þessar skyldur skuli fara yfir á byggingarsjóð. Nú óttast þeir, sem mest hafa um þetta mál fjallað, að hér sé heldur hátt stefnt, að heimila hverju sýslufélagi að hafa byggingarfulltrúa og síðan sé gert ráð fyrir, að byggingarsjóður sé skyldur til að greiða 2/3 af launum þessara fulltrúa. Þess vegna er í þessu frv. í 3. gr. lagt til, að inn í l. komi tvær nýjar gr., sem verði 5. og 6. gr., og er þar svo ákveðið, að sýslun. skuli heimilt að ráða byggingarfulltrúa og launin skuli greidd að hálfu af viðkomandi sýslufélagi og að hálfu af öðrum aðilum innan héraðs, en sýslun. sé heimilt að jafna því niður jöfnum höndum sem fastagjaldi og í hundraðshlutum af fasteignamati jarða og húsa með lóðum, þó megi þetta gjald aldrei fara yfir 2,5% af fasteignamatinu.

Það gæti virzt, að þegar sýslan á nú að greiða helming af laununum, en 1/3 áður, þá séu það aukin útgjöld fyrir sýslufélögin, en svo er ekki, því að hér er ákveðið, að landinu sé skipt í 7 svæði, svo að tala byggingarfullfrúanna verður ekki nema 7 í staðinn fyrir, að áður var ákveðið, að heimilt væri að hafa þá 20. Þetta fyrirkomulag mundi spara sýslunum fé og einnig byggingarsjóði mikið fé, og er þess full þörf, því að öllum kemur saman um, að eins og fyrirkomulagið er nú, þá mundi það skapa byggingarsjóði óhæfilega þungar kvaðir. Þetta er aðalbreyt., sem gerð er á l.

Í gr. þeirri, sem á að verða 6. gr. l., er gert ráð fyrir, að þegar sýslun. óskar, að komið verði á samþykkt um sameiginlegan byggingarfulltrúa fyrir hlutaðeigandi byggingarumdæmi, þá geri sýslun. frv. að samþykkt þar að lútandi og sendi öllum sýslun. innan byggingarumdæmisins, og hljóti hún samþykki 3/5 atkvæða allra sýslunefndarmanna á samþykktarsvæðinu, sé hún bindandi fyrir öll sýslufélög innan þess byggingarumdæmis. Um skiptinguna sjálfa þarf ég ekki að ræða, ég veit, að allir hv. þdm. hafa kynnt sér það atriði í frv.

Breyt. við 9. og 11. gr. eru aðeins orðabreyt. í samræmi við þær breyt., sem gert er ráð fyrir, að komi á undan, og ég hef nú lýst.

Það varð að samkomulagi milli beggja d. að afgreiða ekki að svo stöddu frv. um breyt. á l. um landnám, nýbyggðir og endurbyggingar í sveitum, heldur flytja þetta frv., þar sem það mun ná betur því takmarki, sem að er stefnt. Ég vil þó enn fremur geta þess, að í því frv., sem er samkomulag um að láta ekki ganga fram að svo komnu, er líka ákvæði um breyt. á jarðræktar- og húsagerðarsamþ. í sveitum. Þessi ákvæði eru líka yfirfærsla á byggingarsjóð af nýbýlasjóði, en gert er ráð fyrir, að líka verði flutt frv. um það í þessari d., áður en langt líður.

Ég sé svo ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið. Frv. hefur fengið athugun í landbn., og sé ég ekki ástæðu til að vísa því til hennar aftur.