24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1079 í B-deild Alþingistíðinda. (1616)

165. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Atvmrh. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég skal fyllilega viðurkenna með landbn., að það var ástæða til að taka þetta mál til meiri og róttækari meðferðar en gert var í því frv., sem komið hefur fram um þetta mál og er nú hingað komið frá Nd., þó að þar væri gerð tilraun til að bæta fyrir þá yfirsjón, sem gerð var í sambandi við breyt. á þeim l., sem hv. frsm. minntist á. Ég tel sjálfsagt, að reynt sé að finna úrlausn á þessum grundvelli, sem hér er lagður. En ég vil óska þess, að n. gefi mér tækifæri til að ræða nánar við hana um málið, áður en frv. fer lengra. Það er sérstaklega eitt atriði, sem mér er ekki alveg fullkomlega ljóst, hvernig kemur til með að verka, en það er 3. liður í þeirri gr., sem á að verða 5. gr. I. Þar er slegið föstu, að byggingarfulltrúum skuli greidd laun eftir VIII. flokki launalaga. Er gert ráð fyrir, að viðkomandi sýslur greiði kostnaðinn að hálfu leyti. Nú getur verið, að 1–3 sýslur samþykki að koma á slíkri starfsemi, sem hér er gert ráð fyrir. Þá er mér ekki alveg ljóst, hvort hinum sýslunum á því starfssvæði sé skylt að greiða hálfan kostnað úr sínum sjóði á móti þessari einu sýslu. Þessu hef ég ekki fullkomlega gert mér grein fyrir, hvernig þetta verkar, ef ekki nema brot af sýslunum samþykkir þessa starfsemi. Vildi ég fá að ræða um þetta við landbn., áður en málið kemur til 3. umr.