24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1617)

165. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Þetta, sem ég vildi segja, er að nokkru leyti í framhaldi af því, sem hæstv. ráðh. minntist á. Ég vil nefnilega biðja n., sem telur sér skylt að athuga málið nánar, að taka þá um leið til athugunar stöðu þeirra sýslufélaga — það er kannske ekki nema eitt —, sem þegar hafa ráðið sér byggingarfulltrúa. N. er kannske ekki kunnugt um, að Byggingarfélag Eyfirðinga, sem tekur yfir alla Eyjafjarðarsýslu og flestir bændur þar eru i, hefur fyrir alllöngu síðan ráðið sér byggingarfulltrúa, Snorra Guðmundsson byggingarmeistara á Akureyri. Ég skal ekki segja, hvort hann gæti bætt á sig því verkefni að taka líka að sér Þingeyjarsýslur báðar. En dálítið virðist það í fljótu bragði undarlegt, ef sýslufélag, sem af sjálfsdáðum, hjálparlaust af ríkinu hefur komið á hjá sér því fyrirkomulagi, sem hér er gert ráð fyrir, á að vera sett saman við önnur sýslufélög að því forspurðu. Þetta vil ég biðja n. að taka til athugunar og vil gjarnan fá að ræða þetta atriði við hana.