24.02.1948
Efri deild: 68. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

165. mál, byggingarsamþykktir fyrir sveitir og þorp

Frsm. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Það eru örfá orð út af því, sem hæstv. ráðh. sagði og hv. 1. þm. Eyf.

Út af aths. hæstv. ráðh. vil ég taka fram, að í frv. er svo ráð fyrir gert, að 3/5 sýslunefndarmanna á samþykktarsvæðinu skuli vera samþ. fylgjandi og þá sé hún bindandi fyrir svæðið allt, líka þá, sem ekki vildu vera með. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að þetta mundi í öllum tilfellum nægja til þess, að tvö sýslufélög yrðu á móti einn, ef um skiptar skoðanir væri að ræða.

Það er ekki nema sjálfsagt, og ég lofa því f.h. n., að ræða við hæstv. ráðh. og hv. 1. þm. Eyf. um þessi atriði, sem þeir minntust á. Ég skal geta þess út af aths. hv. þm., að það er meiningin hjá n. að steypa sýslum saman til þess að koma í veg fyrir, að ein sýsla geti krafizt 2/3 af launum byggingarfulltrúa, ef hún er ein sér, en ég skal játa, að n. hefur ekki rætt sérstaklega, hvort ein sýsla getur haft byggingarfulltrúa, ef hún vill leggja á sig að greiða þeim mun meira af launum hans, en það er það, sem mér skilst, að hv. 1. þm. Eyf. hafi jafnvel meint. (BSt: Þetta hefur verið gert.) Það mun vera búinn að vera fulltrúi þar í nokkuð mörg ár, og ég ætla, að kaupfélagið hafi greitt nokkurn hluta af þessum kostnaði. Í 3. gr. er talað um, að sýslun. hafi leyfi til að jafna kostnaðinum niður jöfnum höndum sem fastagjaldi og í hundraðshlutum af heildarfasteignamati jarða og húsa með lóðum, og er þar gert ráð fyrir, að aðrir aðilar innan héraðs geti komið til greina.

Sem sagt, ég lofa því f.h.n., að hæstv. atvmrh. og hv. 1. þm. Eyf. skuli fá tækifæri til að ræða við hana og segja sitt álit á þessu nánar.