15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 40 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Herra forseti. — Þegar núverandi ríkisstj. tók við störfum, þá lýsti hún yfir því, hér á Alþ., að það væri stefna ríkisstj., að atvinnuvegir landsmanna verði reknir á sem hagkvæmustum og arðbærustum grundvelli og stöðvist ekki vegna verðbólgu og dýrtíðar og unnið verði að því að stöðva hækkun á vísitölunni og framfærslukostnaði. Enn fremur að vinna að því að athuga möguleika á lækkun vísitölunnar. Í því skyni hefur verið leitað til sjómannastéttarinnar og til samtaka framleiðenda til sjávar og sveita til þess að gera frekari ráðstafanir til lækkunar á dýrtíðinni; og loks varð að samkomulagi milli stjórnarflokkanna að greiða enn um sinn fé úr ríkissjóði, þannig að vísitalan hækki ekki frá því, sem nú er.

Þegar núverandi stjórn tók við störfum í byrjun febrúar 1947, hafði verið reiknuð út verðvísitalan eftir verðlagi 1. febrúar 1947, og reyndist hún þá vera 316 stig. Gegn þessari hækkun vísitölunnar varð ekki unnið af núverandi ríkisstj., og kom hún því til framkvæmda á þann hátt, að í marz 1947 var stigatalan 316. Strax við næsta útreikning verðvísitölunnar gerði ríkisstj. ráðstafanir til þess að greiða þetta niður á vissum nauðsynjavörum, sem orkuðu þannig á vísitöluna, að hún fór niður í 310 stig eftir verðlagi, sem var í marz 1947. Úr því hélzt verðvísitalan óbreytt, þannig að hún var í marz, apríl, júní og júlí 310 stig, í maí 311 stig og ágúst og september 312 stig, og nú síðustu þrjá mánuðina hefur hún verið svipuð, eða í október 325 stig, í nóvember 326 stig og í desember 328 stig. Útreikningur á vísitölu, sem á að koma til framkvæmda í sambandi við launagreiðslur í janúar 1948, ef engin breyting verður gerð, verður svipaður.

Ríkisstj. gerði því þær ráðstafanir að halda niðri verðvísitölu á því stigi, sem hún hafði tilgreint. um 310 stig. En þegar kom fram á haustmánuðina, urðu svo hraðar breytingar til hækkunar af teknískum og fjárhagslegum ástæðum, að varla þótti fært að hækka svo niðurgreiðslu vísitölunnar, að hún héldist í 310 stigum, enda hafði ríkisstj. ekki lýst öðru yfir en að hún gerði fyrst um sinn þær ráðstafanir, sem hún gerði, og hefur fullkomlega við það staðið.

Menn höfðu haft þær vonir á síðasta sumri, þar sem verð á síldarafurðum var talsvert hátt, að útlit gæti verið til þess, að sæmileg veiði yrði og það mundi nokkuð bæta úr til bráðabirgða. Menn ólu þessar vonir í brjósti, og var ekki annað að skilja á mönnum en að þeir væru lítt móttækilegir fyrir nokkrar þær ráðstafanir, sem hertu að í þessum etnum, meðan ekki væri séð fyrir endann á því, hvernig gengi með síldveiðarnar og sölu á þeim afurðum, sem gæti að minnsta kosti til bráðabirgða bjargað því, sem þá var sýnilega fram undan, vöntun á erlendum gjaldeyri, sem þyrfti að nota jafnvel til hinna nauðsynlegustu atvinnugreina í landinu.

Þær góðu vonir, sem menn gerðu sér um þessa hluti, brugðust, síldveiðarnar urðu mjög litlar, og í staðinn fyrir það að gefa nú sjómönnum og útvegsmönnum möguleika til þess að bæta upp það, sem þurfti vegna síldarleysisins í fyrra, urðu þeir fyrir vonbrigðum og erfiðleikum. Og vonir manna um það, að úr gjaldeyrisörðugleikunum mundi eitthvað rætast til bráðabirgða, hurfu líka. Það var því augsýnilegt, að því yrði ekki frestað lengur að gripa til ráðstafana, sem gætu gefið vonir um, að íslenzkur atvinnurekstur gæti haldizt í horfinu og unnt væri að afla nægilegs gjaldeyris til þess að kaupa nauðsynjavörur til almennings og til framleiðslunnar í landinu.

Strax á síðasta hausti tók núv. ríkisstj. til alvarlegrar athugunar það viðhorf, sem að vísu hafði orðið enn hvassara fyrir það, hve síldveiðin hefur gengið illa. En það var á vitund allra, sem fylgdust sæmilega með, að það hlaut að koma til þess fyrr eða síðar, að gera yrði einhverjar ráðstafanir til viðréttingar atvinnuvegunum í landinu, jafnvel þó að síldarafurðir og sala þeirra bætti eitthvað úr til bráðabirgða. Einmitt þegar það kom í ljós að loknum síldveiðum, að þær vonir um bráðabirgðalagfæringu — ég undirstrika bráðabirgðalagfæringu — brugðust, kom það í ljós, sem allir vissu, sem eitthvað höfðu kynnt sér þessi mál, að nú var mjög að herðast að því, að erlendur gjaldeyrir væri fyrir hendi til þess að standa straum af innkaupum til landsins.

Rannsókn, sem fram fór hjá fjárhagsráði, og skýrslur frá Landsbankanum gáfu til kynna, að fara yrði mjög sparlega með þann litla gjaldeyri, sem eftir væri, og að nauðsynlegt væri að gera þegar einhverjar nýjar ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir algert öngþveiti vegna gjaldeyrisskorts. Þess vegna var skömmtun á vörum tekin upp í sumar til þess að draga úr innflutningi á ýmsum vörum, sem við verðum að fá frá útlöndum. En það var augsýnilegt, að þótt þessari skömmtun yrði haldið áfram og hún framkvæmd til fyllstu hlítar, þá mundi slíkt ekki duga og útvegun gjaldeyris útilokuð og útlit fyrir, að höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar mundu stranda ekki síðar en um næstu áramót, ef ekki yrði eitthvað að gert.

Að vísu var flokkur í landinu, sem þráfaldlega hélt því fram á þeim tíma, að allar slíkar ráðstafanir væru staðleysur og að það væri allt í stakasta lagi með þjóðarbúskapinn yfirleitt, ef við hefðum ekki svona slæma stjórn í landinu, sem ekki vildi selja íslenzkar afurðir við því háa verði, sem löndin í austri væru fús að greiða fyrir þær. Að vísu var þessi kenning frá upphafi alröng fullyrðing út í loftið, er ekki fær staðizt, og hefur verið hér á Alþ. margsýnt fram á, að svo er. En svo breyttist þetta síðar í meðförum kommúnista á dýrtíðarmálunum, að í staðinn fyrir að halda því fram, að allt sé í lagi og ekkert að gera annað en semja í Austur- og Mið-Evrópu, þá er nú komið annað hljóð í strokkinn. Nú segja þeir, að það þurfi að gera ráðstafanir gegn stöðvun atvinnuveganna og yfirvega það mál mjög rækilega.

Nú var óhjákvæmilegt að gera einhverjar ráðstafanir að undangenginni svo ýtarlegri rannsókn sem unnt væri að láta fara fram til þess að sjá, hvað væri hægt að gera til þess að skerða sem minnst kjör fólksins í landinu eða hvort þess væri kostur að gera slíkar ráðstafanir, án þess að yfirleitt þyrfti að skerða kjör almennings. Þessi ýtarlega rannsókn, sem fram hefur farið að tilhlutan ríkisstj., tók að sjálfsögðu talsvert langan tíma, en hún leiddi í ljós, svo óvefengjanlegt var, að engar vonir stæðu til þess, að hægt væri að reka innlendan sjávarútveg hallalaust, án þess að gerðar væru ráðstafanir til annars hvors eða hvors tveggja að lækka framleiðslukostnaðinn og setja lágmarksverð á íslenzkar sjávarafurðir. Spurningin gat aðeins verið sú, hversu mikið þyrfti að lækka framleiðslukostnaðinn og hve háu verði þyrfti að taka ábyrgð á, til þess að öruggt mætti teljast, að sjávarútvegurinn yrði rekinn, án þess að fyrirsjáanlegt tap yrði á honum.

Eins og ég sagði áðan, tók þessi rannsókn mjög langan tíma, enda kostaði ríkisstj. kapps um, að rannsóknin yrði sem allra nákvæmust, og var leitað upplýsinga hjá ýmsum aðilum, sem með sjávarútgerð hafa að gera, um álit þeirra á þessum málum og um það, hvað gera þyrfti, til þess að sjávarútvegurinn gæti gengið á næsta ári.

Þessar rannsóknir leiddu ótvírætt í ljós, að hefjast yrði handa til þess að stemma stigu við áframhaldandi verðbólgu og fjárhagshruni og að ekki yrði gengið móti verðbólgunni, nema þjóðin tæki á sig byrðar um tíma, meðan verið væri að komast á öruggan grundvöll. Þessi staðreynd fannst ríkisstj. blasa við, eftir að þessi rannsókn hafði farið fram, og að gera þyrfti ráðstafanir til þess að lækka framleiðslukostnaðinn, samtímis því sem öll þjóðin — hver eftir sinni getu — yrði að leggja nokkuð af mörkum fyrst um sinn til þess að mæta erfiðleikunum.

Höfuðsjónarmið ríkisstj. í sambandi við úrlausn málsins voru þau, að byrðar þær, sem þjóðin yrði að taka á sig, kæmu sem réttlátast niður á þjóðfélagsþegnana, þannig að þeir, sem minnst mega, tækju minna, en þeir, sem mest gætu, tækju hlutfallslega mest í sinn hlut.

Eftir að það, sem ég hef getið um, hafði verið leitt í ljós með ýtarlegri rannsókn og athugunum, kom það til kasta ríkisstj. sjálfrar í samráði við stuðningsflokka sína að finna þær aðgerðir, sem úr mættu bæta eftir þeim höfuðsjónarmiðum, sem ég hef nú drepið á, og höfuðsjónarmiðið er að sjálfsögðu það að tryggja áframhaldandi atvinnurekstur þjóðarinnar og koma í veg fyrir atvinnuleysi, en eins og ég sagði áðan, leiddi rannsókn það óvefengjanlega í ljós, að ekki væri hægt að framkvæma þessar aðgerðir með öðru móti en því, að þjóðin öll tæki á sig einhverjar fórnir til bráðabirgða.

Það var gefið, að innan ríkisstj. mundi þurfa að samræma talsvert ólík sjónarmið, þar sem 3 flokkar standa að henni með nokkuð ólíkar skoðanir, og þetta frv., sem fyrir liggur, er ekki stefna neins ákveðins flokks, heldur stefna þriggja flokka, þar sem reynt hefur verið að ná saman endunum eftir þeim höfuðsjónarmiðum, sem ég hef nefnt, en sjálfsagt mundi hver þessara þriggja flokka hafa lagt fram frv. í nokkuð annarri mynd en það frv., sem ríkisstj. nú leggur fram. Þetta vildi ég segja fyrir hönd okkar allra, að við höfum orðið af eðlilegum ástæðum að hnika til til þess að ná samkomulagi. En ríkisstj. var ljóst, að ekki varð hjá því komizt að gera ráðstafanir, og nauðsynin á því, að ráðstafanirnar væru gerðar, rak á eftir því og studdi að því, að stj. gæti náð samkomulagi.

Frv. á þskj. 190 er því ávöxtur þeirra rannsókna og athugana, sem gerðar voru, og þess samkomulags, sem að lokum var gert innan stj. um lausn þessa vandasama viðfangsefnis.

Ég skal geta þess, áður en ég vík að einstökum köflum frv., að það er eftirtektarvert, ef þetta frv. er borið saman við frv. það, sem kommúnistar hafa flutt fyrir nokkru hér á Alþingi, að það er tvennt, sem segja mætti að væri eins í báðum þessum frv., þótt það sé sitt með hvoru móti. Annað er það, að í frv. kommúnista, í grg., segir, að nauðsynlegt sé að stöðva vísitöluna og hafa hana ekki hærri en 300 stig. Þessi nauðsyn er viðurkennd í grg., en ekki er í frv. sett nokkurt ákvæði, til þess að hægt sé að framkvæma þetta nauðsynlega atriði. Ríkisstj. var á þeirri skoðun, að nauðsynlegt væri, að vísitalan væri föst og stæði ekki hærra en í 300, en stjórnin dró rétta ályktun af þessari skoðun sinni og hefur þess vegna lagt til, að hærri vísitala yrði ekki greidd á laun.

Annað atriði er eins í frv. ríkisstj. og kommúnista, en það er um ábyrgðina til sjávarútvegsins. Þetta er nákvæmlega eins í báðum frv. En það er eins og fyrra atriðið, að ríkisstj. dró réttar ályktanir af því, að þessa ábyrgð þyrfti að taka á sig, en flm. hins frv. drógu hins vegar enga ályktun af þessu. Því hefur stjórnin lagt til, að ríkissjóði verði aflað tekna til þess að standa undir þeirri ábyrgð, sem ríkið þarf að taka á sig fyrir íslenzkar sjávarafurðir, og verður að áætla í það ekki minna en um 20 millj. kr. Það er líka álit stjórnarinnar — og að mér skilst einnig gengið út frá því í frv. kommúnista — að ekki skuli hætta niðurgreiðslum á nauðsynjavörum, til þess að verðlagið hækki ekki. Til þess að standa undir þeim greiðslum af hálfu ríkissjóðsins þarf líka að afla tekna.

Ég vildi aðeins nefna þessi tvö atriði, sem eru eins í báðum frv., að vísitalan verði stöðvuð og að það verði að taka ábyrgð á fiskverðinu eins og í fyrra, en ef menn viðurkenna það, verða menn að draga af því réttar ályktanir.

Eftir þessi almennu inngangsorð, skal ég leyfa mér að snúa mér að sjálfu frv.

1. gr. er aðeins um það, hvað í l. felist, að þau séu sett til þess að vinna gegn verðbólgu og dýrtíð, tryggja áframhaldandi rekstur sjávarútvegsins, stemma stigu fyrir atvinnuleysi og auka framleiðslu til gjaldeyrisöflunar. Þetta er höfuðatriðið, sem stjórnin ætlaðist til að næðist með þessari löggjöf. Það að tryggja sjávarútveginn, stemma stigu fyrir atvinnuleysi og auka framleiðsluna til gjaldeyrisöflunar.

Í samræmi við þá yfirlýsingu, sem ég gaf út frá því, sem ég almennt ræddi um dýrtíðarmálin, er settur II. kafli frv. um, að lagður skuli á sérstakur eignaraukaskattur. Gert er ráð fyrir því, að enginn þegn þjóðfélagsins skuli komast hjá því að taka á sig fórnir til þess að rétta við atvinnulíf landsins, og er ætlazt til þess, að menn greiði skatt af þeim eignarauka, sem þeir hafa fengið á tímabilinu 1940–1947.

Í 2. gr. er skattstiginn, eins og hann er settur upp, en fyrst koma nokkrar undantekningar um aðila, sem eru undanþegnir eignaraukaskatti, en undanþegin eru: 1. Eimskipafélag Íslands h/f. 2. Fé það, sem félög og einstaklingar, sem hafa sjávarútveg að aðalatvinnurekstri, hafa lagt í vara- og nýbyggingarsjóði og ekki hefur verið greiddur tekjuskattur af. 3. Fé það, sem samvinnufélög hafa lagt í varasjóði samkvæmt ákvæðum laga um samvinnufélög eða tekjuskattur hefur ekki verið greiddur af.

Hvað Eimskipafélaginu viðvíkur, má segja til stuðnings þeirri undantekningu, að þótt það hafi að vísu grætt mikið á undanförnum árum, er það þó sá félagsskapur í íslenzku þjóðfélagi, sem nauðsynlegast er, að geti staðið undir sínu hlutverki til þess að geta rekið flutningaskipaflota bæði fyrir flutninga til landsins og flutninga á afurðum okkar til annarra landa. Eimskipafélagið er eign fjölda manna um allt land, og arður af hlutabréfum þess er ekki greiddur hærri en 4%, svo að ekki getur ágóðinn verið hvatning fyrir hluthafana, heldur hitt, að hér er um nauðsynjafyrirtæki að ræða.

Um einstaklinga og félög, sem stunda útgerð, er það yfirleitt í samræmi við það skattfrelsi, sem þessi aðilar hafa haft, að láta þá ekki heldur greiða eignaraukaskatt.

Hvað snertir samvinnufélögin, eru varasjóðir þeirra óskiptanlegir og eiga, ef félögin, sem eiga þá, verða leyst upp, að geymast, þangað til annar sams konar félagsskapur verður stofnaður á félagssvæðinu.

Því næst kemur skattstiginn, og er hann frá 5% upp í 30%. 100 þús. kr. eignarauki er skattfrjáls, en eftir það er skattur frá 5% upp í 30%. Það er líka höfuðregla samkvæmt þessum kafla, að eignir, sem menn hafa átt allt tímabilið, eins og fasteignir, skuli ganga inn og út með sama verði, að ekki skuli gjalda af þeim eignaraukaskatt, þótt þær hafi hækkað í verði af konjunkturástæðum á þessu tímabili. Um skattstigann sjálfan skal ég ekki hafa fleiri orð, en í niðurlagi gr. er ákveðið, að reikna skuli á sérstakan hátt eignaraukaskatt hjá samvinnufélögum og félögum og einstaklingum, sem hafa sjávarútveg að atvinnurekstri.

Ég tel ekki ástæðu til að rekja þennan kafla nánar. Þetta eru höfuðatriði hans, sem ég hef nefnt, en ég skal geta þess, að skattur þessi á að renna í framkvæmdasjóð ríkisins samkv. l. nr. 55/1942. Þessi skattur á ekki að verða eyðslueyrir, heldur á það að vera hlutverk hans að standa undir nýbyggingum og nytsömum framkvæmdum í þjóðfélaginu.

Um III. kaflann er það að segja, að í 12. gr. er svo fyrir mælt, að þar sem miðað er við verðlagsvísitölu, má ekki miða við hærri vísitölu en 300, á meðan þessi l. eru í gildi. Þetta er hvort tveggja, niðurskurður á vísitölunni og stöðvun hennar í vissu marki. Ég skal segja það hreint og ljóst, að þessi niðurskurður er ekki nema um 8%, og eftir útreikningi hagstofunnar um það, hvað ætla mætti, að þetta mundi nema miklu í lækkun launa, m:rtti ætla, að það yrði um 5%. Það er að vísu ekki ánægjulegt að leggja fram frv. um það, að laun allra launamanna í landinu eigi að lækka um 5%, en þegar það er athugað, að ef ekkert er að gert og engar ráðstafanir gerðar, er víst og áreiðanlegt, að af því mundi leiða hrun og atvinnustöðvun, slík atvinnustöðvun mundi fyrst og fremst lenda á launafólkinu í landinu, og álít ég því, að það megi skoða þessi 5% sem eins konar vátryggingarpremíu til þess að tryggja sér áframhaldandi örugga atvinnu í landinu. Ég tel, að þetta vátryggingariðgjald verði að greiða af höndum, ef áfram á að haldast örugg atvinna í landinu og fólk á ekki að þurfa að óttast atvinnuleysi. Um þetta atriði vildi ég láta þessi orð falla. Ég veit, að það verður sagt — og það með réttu —, að hér sé verið að rýra kjör launafólksins. En við drögum enga dul á það í stjórninni, að við höfum ekki séð okkur annað fært til þess að tryggja frambúðarkjör þessara stétta en að láta þær nú um skeið draga af launum sínum og til þess að tryggja áframhaldandi atvinnu fyrir þetta fólk.

Í 13. gr. eru aðeins ákvæði um það, að ef föst laun eru greidd, án þess að miðað sé við verðlagsvísitölu, skuli þau lækka hlutfallslega við vísitöluna.

Í 14. gr. er lagt til að afnema skattfrelsi af áhættuþóknun. Það er nú orðið svo, að ég býst við, að þær stéttir, sem hafa áhættuþóknun, sjá það — ekki að ófyrirsynju —, að sá tími er á enda, þar sem það skattfrelsi getur átt sér stað. Sérstaklega er það af því, að í hópi þeirra manna, sem njóta þessa, eru þeir menn, sem hafa hæst laun allra landsmanna, þar sem eru skipstjórar með 100–200 þús. kr. í árslaun, stýrimenn og vélstjórar, sem hafa geysihá laun, og ýmsar aðrar stéttir, sem njóta þessara hlunninda. Stjórninni finnst líka, að ekki megi svo til ganga að láta menn njóta lengur þessa skattfrelsis. Hins vegar eru þessum mönnum og öðrum ákvörðuð ýmis fríðindi, sem aðrir ekki hafa, sem sé, að þegar maður hefur fæðishlunnindi, skuli það ekki teljast honum til skattskyldra tekna, ef það er forsvarsmaður heimilis, sem hefur þessi kjör. Sama er um menn, sem leita vinnu utan heimilis og verða að sjá sér sjálfir fyrir fæði, þá skal frá tekjum þeirra dreginn hæfilegur fæðiskostnaður, áður en skattur er á þær lagður. Með þessu finnst stjórninni vera skapað réttlæti gagnvart þeim mönnum, sem sjó stunda, sem sækja frá verstöðvum og vinna við vegagerðir, brúargerðir, hafnargerðir o.s.frv. Ég tel, að þetta ætti að teljast réttlátt.

Í 15. gr. er fyrirskipað, að verðlagsyfirvöldin skuli, strax þegar l. þessi öðlast gildi, gera ráðstafanir til þess að lækka verðlag, þar sem vinna og vinnulaun orka á verðlagið. Þetta á jafnt að ná til einstaklinga og hins opinbera, t.d. um rafmagn, sem selt er af opinberum aðilum. Þetta er sjálfsagt og eðlilegt og einn þátturinn í því, sem lýst hefur verið yfir af hálfu stjórnarinnar, að hún mun leggja höfuðáherzluna á að halda niðri verðlaginu svo sem unnt er, þannig að tjón þeirra manna, sem vísitölulækkunin snertir, verði sem allra minnst, og þeim mun minna, sem lengra líður frá.

Þá er í 2. málsgr. 15. gr. ríkisstj. veitt heimild til þess að fyrirskipa húsaleigunefndum að lækka húsaleigu í húsum, sem reist hafa verið eftir 1941, um allt að 10%, og einnig í eldri húsum, þar sem nýr leigusamningur hefur verið gerður eftir árslok 1941, þ.e. þar sem komnir eru nýir leigjendur eftir 1941.

Þá er í 16. gr. frv. gert ráð fyrir, að framleiðsluráð landbúnaðarins verðskrái landbúnaðarvörur að nýju, og er í gr. ákveðið, að verð þeirra vara haldist í sama hlutfalli við laun þeirra stétta, sem við var miðað við verðákvörðun varanna sumarið 1947, þangað til ný landbúnaðarverðlagsvísitala hefur verið ákveðin samkv. gildandi l.

Ég held, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um HI. kafla, sem er í raun og veru mjög stór kafli í frv. III. kaflinn er að því leyti þungamiðjan í frv., að þar eru gerðar ráðstafanir til að stöðva verðbólguna, svo að hún hætti að vaxa áframhaldandi, sem aftur yrði til þess að öryggja rekstur atvinnuveganna. En eins og ég sagði, þá er ráð fyrir því gert í sambandi við þessa stöðvun og lækkun á verðbólgunni, að það þurfi að færa nokkrar fórnir af þeim mönnum, sem ákvæði þessi ná til.

IV. kafli þessa frv. er um ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins o.fl., og þarf ég ekki að fara um hann mörgum orðum, því að í þeim kafla er gert ráð fyrir sömu ábyrgð á verði þessara vörutegunda eins og á því ári, sem nú er að líða. Miðað við það, að verðvísitalan verði þó a.m.k. 10 til 15 stigum lægri við framleiðslu næsta árs heldur en hún var við framleiðslu ársins 1947, þá ætti þetta ábyrgðarverð að verða þeim mun betra, sem kostnaður við framleiðsluna. að þessu leyti er minni. Meðaltalsverðvísitala ársins, sem er að líða, er nákvæmlega 315 stig. Og mundi þá mega reikna með því, að fyrirtæki, sem ynnu að sams konar framleiðslu á næsta ári eins og í ár, ættu við að búa 15 stigum lægri dýrtíð. Þá ætti ábyrgðarverðið með því móti að geta orðið á þann veg, að atvinnureksturinn ætti að bera sig.

Í 22. gr. frv., sem er í IV. kaflanum, er gert ráð fyrir, eins og í 1. málsgr. segir, að við samninga um sölu íslenzkra afurða erlendis skuli þess g:ett, að sem bezt söluverð fáist fyrir, og er ríkisstj. heimilt að binda sölu einstakra vörutegunda nauðsynlegum skilyrðum, til þess að því verði mið. Eins og allir vita, sem nokkuð þekkja til sölu á íslenzkum afurðum erlendis, er misjafnlega mikil eftirspurn eftir þeim tegundum af sjávarafurðum, sem við sérstaklega framleiðum. Í ár, og væntanlega á næsta ári, verður mest eftirspurn eftir ýmiss konar feitmeti, svo sem lýsi, og sömuleiðis er útlit fyrir, að eftir fiskimjöli og síldarmjöli verði nokkur eftirspurn. En hins vegar er nokkurn veginn víst, að með þeim tilkostnaði, sem verið hefur á frystum og söltuðum fiski, er mjög erfitt — að ég ekki segi alveg útilokað — að selja þann fisk á erlendum markaði fyrir það verð, sem framleiðendur telja sig þurfa að fá og ríkið ábyrgist. En þetta mætti þá nokkuð laga með því að selja saman þær vörur, sem mest eru eftirsóttar erlendis, og hinar, sem minna eru eftirsóttar, þó að ekki væri með verðjöfnun á vörum hækkað verð þeirra vara, sem minna eru eftirsóttar eða m.ö.o. standa í tiltölulega lágu verði. Þótti ríkisstj. því sjálfsagt að hafa þessi ákvæði hér í frv.

Þá er í 25. gr. frv. gert ráð fyrir, að verðlag á beitu verði tekið til sérstakrar athugunar með það fyrir augum, að það verði lækkað, og að ríkisstj. geti bundið niðurfærslu á verði beitunnar því skilyrði, að útvegsmenn geri þær ráðstafanir, sem ríkisstj. telur heppilegar til þess að spara útgjöld við beitu. Þarna er átt við það, sem er skoðun margra manna, að á seinni árum hafi beitan verið skorin óþarflega stórt niður, og að þannig hafi eyðzt óþarflega mikið í beitu á undanförnum árum, með því að hver síld hafi dugað á tiltölulega fáa öngla. En nú á að ná samkomulagi, ef unnt er; við útvegsmenn um að spara meir beituna en gert hefur verið, ef þeir þá fengju beituna ódýrari. Þess vegna er í 25. gr. frv. gert ráð fyrir, að ef útvegsmenn setja samþykktir um sparnað á beitu, þar sem allir útvegsmenn í viðkomandi verstöð á hverjum stað hafa verið kvaddir til fundar, þá bindi slík samþykkt alla útvegsmenn í þeirri verstöð, er ráðh. hefur samþ. slíka fundarsamþykkt. Og þá er þessi samþykkt bindandi fyrir þá, sem voru á móti henni eða ekki sóttu fundinn. Og þegar útvegsmenn þannig gera þær ráðstafanir, sem ríkisstj. telur heppilegar til að spara beitu, getur hún fært niður verðið á henni og bundið niðurfærsluna því skilyrði, að útvegsmenn geri ráðstafanir til sparnaðar á beitunni. Ætti þetta hvort tveggja að geta orðið til þess að lækka einn af þyngstu og stærstu kostnaðarliðum línubátaútgerðarinnar, mótorbátanna, sem er beitukostnaðurinn.

Þá er V. kafli frv. um aðstoðarlán til útvegsmanna, sem stunduðu síldveiðar sumarið 1947. Margir útvegsmenn urðu svo hart úti s. l. sumar, að þeir gátu ekki gert upp við sjómennina á skipunum, ekki greitt þeim kaup þeirra, svo að sjómenn urðu að gera tilraunir til þess að ganga að sjóveðum sínum til þess að fá kaup sitt greitt. Að vísu kann vetrarsíldin að hafa lagfært fyrir einstökum mönnum í þessu efni. En mjög er hætt við, að margir útvegsmenn, sem hafa orðið illa úti á s.l. sumri. og sérstaklega þeir, sem komust seint til veiðanna og komu með dýra báta, fái ekki undir því risið, hve síldveiðin á s.l. sumri gekk illa, og að það verði því að veita þeim aðstoðarlán, eins og gert var á síðasta ári. Er þessi kafli að öllu leyti sniðinu eftir þeim l., sem sett voru hér á síðasta ári vegna þeirra útvegsmanna, sem verst fóru út úr síldveiðunum árið 1946. Þykir eðlilegt og nauðsynlegt að hafa þennan kafla með í þeim allsherjaraðgerðum, sem af hálfu ríkisstj. eru gerðar til viðréttingar og tryggingar því, að íslenzk sjávarútgerð verði rekin til fullnustu, eftir því sem framleiðslutæki eru fyrir hendi.

Þá er VI. kafli frv., sem er um framlengingu á ákvæðum I. frá 1947 um hækkun á aðflutningsgjöldum, og þarf ég ekki mörgum orðum um hann að fara, þar sem hann er í samræmi við l., sem samþ. voru á síðasta þingi, hvað snertir þessa tolla. En vegna þess að útlit er fyrir með tilliti til þess, hvernig fjárlagafrv., sem fyrir þinginu liggur, er, þar sem það er með 20 millj. kr. greiðsluhalla, að það þurfi að verja til niðurgreiðslna á nauðsynjavörum — við skulum segja milli 20 og 30 millj. kr. og að það þurfi að greiða vegna ábyrgða ríkisins á ákveðnu verðlagi á íslenzkum sjávarafurðum — við skulum segja 20 millj. kr., þá ber brýna nauðsyn til þess, að aflað sé tekna, til þess að ríkissjóður geti staðið undir slíkum skuldbindingum. Þess vegna er lagt til. að þessi tollur, sem settur var á síðasta þingi, verði framlengdur.

Svo kemur VII. kaflinn, um álagningu söluskatts vegna ábyrgðar á fiskafurðum og niðurgreiðslu á innlendum vörum. Þar er lagt til, að lagður sé á sérstakur söluskattur, sem af heildsölu og umboðssölu sé 2%, en af smásölu 11/2% og af sölu iðju- og iðnfyrirtækja sem og allra annarra fyrirtækja, sem á annað borð eiga að greiða þennan söluskatt (skv. 411. gr. frv.), 11/2%. undanskilin þessum skatti eru öll fyrirtæki, sem áður voru undanskilin veltuskattinum, sem hér var í gildi samkv. l. En auk þess er undanskilið söluskatti sala veiðarfæra, salts og olíu og viðgerðir á skipum, til þess að auka ekki kostnað við sjávarútveginn með þessum skatti. — Eftir 45. gr. frv. má verð á vörum hækka, sem söluskatti nemur, en óheimilt er að hækka álagningu verzlana eða fyrirtækja vegna skattsins sjálfs. Að þessu leyti er söluskatturinn ólíkur veltuskattinum, þ.e. að því leyti, sem segir í 45. gr. frv.

Í 48. gr. frv. eru ákvæði um, að ríkisstj. láti gera till. um árlegan vísitöluútreikning, miðað við magn og verðmæti útflutningsframleiðslunnar. Þetta er aðferð, sem oft hefur verið stungið upp á hér á Alþ., og þykir nú rétt að fyrirskipa, að framkvæmd verði, til hvers sem það kann afi verða notað, þegar þar að kemur.

Ég hef þá, bæði með nokkrum almennum orðum í upphafi ræðu minnar lýst, hvers vegna frv. þetta er fram komið og hve lengi það dróst, að frv. skyldi koma fram, og síðan tekið fram, hver eru helztu efnisatriði frv. Vildi ég mega vænta þess, að allur hv. þingheimur viðurkenni nauðsynina á því, að gerðar séu ráðstafanir til þess að tryggja áframhaldandi atvinnurekstur landsmanna, þannig að hann sligist ekki af dýrtíð, og einnig nauðsynina á því að vel yfirveguðu ráði. að allir þjóðfélagsþegnar verði þar eitthvað af mörkum að leggja í bráð, hver eftir sinni getu, til þess að þær framkvæmdir verði gerðar í þjóðfélaginu, sem skapa þegnunum meira öryggi til framhaldandi atvinnu, til þess að þeir geti séð sér og sínum farborða. Vildi ég því mega vænta þess, að þetta frv. gæti gengið fljótt í gegnum Alþ., því að þörf er á því, að þetta mál verði afgreitt fyrir áramót. Mál það, sem frv. fjallar um, er þrautrætt meðal manna innan þings og utan, og um þau meginregluatriði, sem skoðanir kunna að vera skiptar um, verða atkvæði úr að skera, eins og venja er, þegar skoðanir eru skiptar um afstöðu til mála. Enginn græðir á því, að mál þetta sé tafið, og allra sízt þar sem allir viðurkenna nú orðið, að gera þurfi ráðstafanir til að öryggja áframhaldandi atvinnurekstur og hindra atvinnuleysi í landinn. Vildi ég því mega vænta þess, að þrátt fyrir þær misjöfnu skoðanir, sem kynnu að vera um einstaka kafla frv. — á ég þar að sjálfsögðu við stjórnarandstöðuna —, að þetta mál yrði ekki þæft endalaust, heldur yrðu atkv. látin skera úr eftir að rök hafa verið færð fram helzt með ekki óþarflega löngum ræðum, því að ræður eru ekki meir sannfærandi, þótt langar séu og endurteknar, heldur en styttri ræður og gagnorðari. Mest er um vert að koma fram þeim röksemdum, sem menn hafa á hjarta fyrir þeim brtt., er menn kunna að bera fram, og síðan láta atkv. á Alþ. skera úr.

Ég leyfi mér að leggja til, að máli þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.