01.03.1948
Neðri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1087 í B-deild Alþingistíðinda. (1645)

84. mál, sóknargjöld

Sigfús Sigurhjartarson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. með fyrirvara og þykir rétt að gera grein fyrir atkvæði mínu. Í menntmn. var töluverður ágreiningur um þetta mál. Náðist samkomulag um flest það, sem ágreiningur var um, og svo kom, að ágreiningurinn var ekki meiri en það, að mér þótti rétt að skrifa undir nál. með fyrirvara.

Ég get ekki til hlítar gert grein fyrir þessum fyrirvara, nema taka frv. í heild og ræða það grein fyrir grein.

Samkv. 1. gr. er gert ráð fyrir, að lögmæt sóknargjöld úti um sveitir verði kr. 3.00, en í Rvík 6.00, og bætist þar við verðlagsvísitala. Í þessu er ekki fólgin nein stórfelld breyt. frá því, sem nú gildir í 1., því að samkvæmt gildandi l. er sóknarn. heimilt að hækka sóknargjöldin eins mikið og verkast vill, takmörkunin fólgin í samþykktum vissra aðila. N. varð sammála um að setja lágmark 3 kr. og hámark 6 kr., og skyldi mega hafa gjaldið einhvers staðar þar á milli. Ég get fallizt á þessa breyt., tel hana meinlausa og gagnslitla. Ég geri ráð fyrir því, að fjárhagurinn muni víðast hvar vera slíkur, að ekki veiti af þessu, og held, að flestar sóknir mundu færa gjöld sín eitthvað í þessa átt, hvort sem þetta ákvæði væri eða ekki.

Ég get ekki komizt hjá að ræða um þau ákvæði, sem snerta þá, sem eru utan þjóðkirkjunnar. Það gæti virzt ástæða til að ræða þetta ekki, því að þessi ákvæði eru öll í stjskr., ákvæðin um það, að menn skuli greiða til Háskóla Íslands og að þeir skuli ekki vera skyldir til að greiða persónuleg gjöld til annarra safnaða en þeirra, sem þeir eru meðlimir í. Það mætti segja, að þessi ákvæði væru óþörf, þar sem þau er að finna í stjskr. Hins vegar er þetta ekki breyt. frá núgildandi l. Ákvæðið er í l. um sóknargjöld nú. Ég get ekki látið hjá líða að drepa á það, að ég lít svo á, að þetta ákvæði 1. gr., sbr. ákvæði stjskr., samrýmist ákaflega illa því trúfrelsi, sem stjskr. lofar okkur. Mér finnst einkennilegt, að í landi, þar sem menn mega dýrka þann guð, sem þeir vilja, skuli menn vera skyldaðir til að greiða gjöld til ákveðinnar stofnunar, jafnhá þeim gjöldum, sem menn greiða annars staðar. Ég vil drepa á þetta í sambandi við þetta mál, en sérstaklega þarf að athuga þetta í sambandi við stjskr., og væri eðlilegt, að þetta yrði ekki tekið inn í önnur l., en að beðið yrði við og séð, hvernig færi um hana.

Ég kem þá að 2. gr., en það er varðandi þá gr., sem ágreiningurinn er. Þar er um nýmæli að ræða. Það er gert ráð fyrir, að af sóknargjaldi hvers þjóðkirkjumanns skuli renna kr. 0.50 að viðbættri verðlagsuppbót í sameiginlegan kirkjusjóð, sem er í umsjá biskups og kirkjuráðs. Þessu á að verja til þjóðkirkjunnar í landinu til sameiginlegra þarfa. Í frvgr. segir ekki meira um þennan sjóð. Það er hér tekið fram, að honum skuli verja til eflingar og styrktar kirkju og kristindómi landsins samkvæmt reglugerð. Þessu hefur n. viljað breyta í það form, að kirkjumálaráðh. sé ekki bundinn af till. biskups, og er það sjálfsagt. En ég vil segja það, að öll ákvæði um þennan sjóð eru mjög óljós, og einnig, að hér er um verulega skattlagningu að ræða. Ég vil einnig benda á það, að ekki hefur verið gerð tilraun til þess að gera grein fyrir, hversu miklar tekjur þessa sjóðs verða á ári. Það er þó auðvelt reikningsdæmi, því að það er vitað, hve meðlimir kirkjunnar eru margir, og þá er ekki annað en að margfalda með kr. 1.50. Það kann að vera, að frsm. n. hafi gert grein fyrir þessu, en ég gat ekki hlustað á mál hans, því að ég var á fundi í bæjarráði Rvíkur.

Það má segja, að það sé engin ofrausn í því, hverju er varið til kristindóms í landinu, og skal ég ekki vera í hópi þeirra manna, sem vilja telja eftir það, sem fer til sannlegs kristindóms í landinu. En ég vil segja það, að sú blessun, sem frá kirkjunni hefur stafað, hefur ekki ætíð verið í réttu hlutfalli við það fjármagn, sem kirkjan hefur haft, og get ég ekki hjá því komizt að benda á það, að innan kirkjunnar eru nú straumar, sem mér þykja uggvænlegir. En ég skal taka það fram, að biskup landsins viðurkenni ég sem frjálsan vörð um kirkjunnar mál, en að sjálfsögðu getum við ekki miðað við ákveðna persónu um það, hvort kirkjan sem stofnun er látin fá þetta fé í hendur. Og ég efa það fyllilega, að það sé til nokkurrar blessunar fyrir kirkjuna og þjóðina, að kirkjan sem slík verði fjárhagslega óháð stofnun og sem minnst háð þjóðfélaginu. — Ég er ekki meðmæltur þessari gr. og mun greiða atkv. gegn henni, og afstaða mín til frv. fer eftir því, hvernig fer um þessa gr.

Þá kem ég að 4. gr. og get ekki látið hjá líða að segja það, að eins og 4. gr. er lögð fram, tel ég það með meiri ágengni, sem hér hefur verið sýnt í frv.- formi. Í þessari gr. var gert ráð fyrir, að kirkjan fengi að leggja hundraðsgjald á alla útsvarsgjaldendur í landinu. Gilti þetta jafnt um kaþólska menn og lútherstrúar, um aðventista og heiðingja, útgerðarmenn og verzlunarmenn. Safnaðarfundur gat ákveðið að leggja þetta gjald á alla í sókninni, bara ef þeir voru útsvarsgjaldendur. Ég verð að segja, að mér finnst þetta sú mesta frekja, sem ég hef séð í frumvarpsformi á Alþ. Um þetta var mikið rætt, og var fallizt á það að lokum að hafa þetta heimild, sem eingöngu væri miðuð við safnaðarmenn. Ég leit svo á, að ekkert annað gæti samrýmzt stjskr. og að engan mætti neyða til að greiða til neinnar annarrar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann sjálfur aðhyllist. Nú er farið inn á það form að miða þetta við safnaðarmenn. Nú er það að athuga, að það eru l. í landinn um sóknarnefndir, og er svo ákveðið, að safnaðarfundir geti ákveðið að jafna niður á safnaðarmenn eftir efnum og ástæðum, sem þýðir það sama og að leggja hundraðsgjöld á útsvör, sem lögð eru á eftir efnum og ástæðum. Nú finnst mér miklir annmarkar á þessu eins og nú er og eins og það yrði, þótt brtt. okkar yrði samþ., og finnst mér það koma sérstaklega í ljós, þegar athugað er hér í Rvík, sem skipt er niður í 4 sóknir. Ég fór þess á leit, að málið yrði sent til skattstjóra og tollstjóra, svo að þeir gætu sagt til um framkvæmdaratriði. Á þetta var ekki fallizt. En þegar ég segi, að á þessu séu annmarkar, þá meina ég það, að sóknirnar í Rvík eru 4. Ein getur ákveðið álag, önnur ekkert álag og hin þriðja annað álag en sú fyrsta og sú fjórða enn annað álag en sú fyrsta og þriðja. Ég tel efalítið, að skattstjórinn í Rvík mundi telja sér verulegan bagga bundinn, ef skattstofan ætti að sjá um að leggja á samkvæmt þessu, og að tollstjórinn í Rvík mundi telja sér bagga bundinn að eiga að innheimta samkvæmt þessu. Ég held líka, að kirkjan sjálf mundi komast að þeirri niðurstöðu, að um erfitt starf væri að ræða. Meðnm. mínir vildu ekki athuga þetta, en ég hygg, að erfiðleikarnir á þessu séu svo miklir, að þótt þetta væri ákveðið, mundi þessi heimild ekki verða notuð hér í Rvík.

Ég get nú stytt mál mitt. Það er annars vegar nýmælið í 4. gr. og hins vegar nýmælið í 2. gr., sem ég er mótfallinn. Ég er algerlega mótfallinn nýmælinu í 2. gr., en að öðru leyti álít ég, að það, sem í frv. er, finnist í gildandi l. og að það, sem á að framkvæma samkvæmt því, megi framkvæma með gildandi l. Mér finnst frv. án 2. gr. meinlaust og gagnslaust, en með 2. gr. samþykki ég ekki frv. Ég samþykki það ekki nema 2. gr. verði úr því felld.