01.03.1948
Neðri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1089 í B-deild Alþingistíðinda. (1646)

84. mál, sóknargjöld

Jörundur Brynjólfsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég get ekki fallizt á þá breyt., sem með þessu frv. er ætlazt til, að gerð verði á greiðslum til kirkjuþarfa. Það má vel vera, að oft hafi verið skortur á fé til þessara framkvæmda, en samt sem áður tel ég, að ekki sé rétt að stíga þetta spor eins og nú standa sakir. Mér finnst ekki fært að leggja í þetta á þeim tíma, þegar verið er að sporna móti aukinni dýrtíð, að samtímis því sé verið að afgreiða nýjar álögur hér á Alþ., og því síður finnst mér það sanngjarnt, þegar nokkur hluti gjaldsins á að renna í þennan sérstaka sjóð.

Ég get tekið undir ummæli hv. 6. þm. Reykv. hvað áhrærir 2. gr. þessa frv. og alveg eins, þótt brtt. n. yrði samþ., þar eð það er engin röskun á höfuðtilgangi till., en eins og hann benti réttilega á, er það annað aðalatriði þessa frv., og vildi ég, að ef á að fara að skattleggja fólkið, þá yrði betur um það búið og betur fyrir því séð, að þetta kæmi að notum. Ég mæli þetta ekki af neinu vantrausti til herra biskupsins, sem nú skipar þetta embætti, heldur vegna þess, hvernig málið er í eðli sínu. Menn koma og fara, og löggjafarákvæði á ekki að miða við það hverju sinni, hvernig embættið kann að vera skipað, heldur á það að fara eftir föstum reglum, hvernig sem embættaskipunin er.

Þá finnst mér meira en hæpið ákvæði 4. gr. frv., að ef tekjurnar hrökkva ekki, þá megi auk annarra breyt., til þess að ná meira fé, leggja á útsvarsgreiðslur hlutfallslega. Sem sagt, ég tel það meira en hæpið að ganga inn á þessa braut og er því alveg gersamlega mótfallinn. Ég tel það satt að segja einkennilegt, að hv. menntmn. skuli hafa séð sér fært að leggja þetta til, eins og högum er nú háttað hjá okkur hér á Íslandi. Ég get hvað þessi atriði áhrærir ekki almennilega skilið, að svo mikil nauðsyn sé á þessu. þar sem ég býst við, að það séu til fjármunir í sjóði til þessara málefna. Samkvæmt l. frá 1933, nr. 98, sem öðlazt hafa gildi 1. jan. 1934, er með 5. gr. þeirra l. stofnað til sérstaks sjóðs. Það er gert í sambandi við löggjöf um læknishéraða- og prestakallasjóði. 5. gr. þessara l. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar prestakall er prestslaust, svo að eigi kemur til greiðslu embættislauna eða hluta þeirra, skal fjárhæðin, sem sparast, miðað við byrjunarlaun presta, renna í sérstakan sjóð, sem kirkjuráð varðveitir. — Sjóðurinn heitir prestakallasjóður og skal hann geymdur í Landsbanka Íslands. Kirkjuráð ráðstafar sjóði þessum til verkefna þeirra, sem því eru ætluð samkvæmt l. 21 9. júní 1931.“

En ákvæði þeirra l., er að þessu lúta fyrst og fremst, hljóða svo, með leyfi hæstv. forseta, þ.e. 2. gr.:

„Verkefni kirkjuráðs er að vinna að eflingu íslenzkrar kristni og styðja að trúar- og menningaráhrifum þjóðkirkjunnar með því að:

a) íhuga og gera ályktanir um þau mál, sem varða þjókirkjuna í heild sinni og einstaka söfnuði hennar.

b) stuðla að frjálsri starfsemi til eflingar kristnilífi þjóðarinnar, mannúðar- og líknarstarfsemi.“

Þetta er m.a. verkefni kirkjuráðs, og samkvæmt þessu ættu þá þessir fjármunir, þessar nýju álögur, sem hér eru ráðgerðar, að ganga til þessarar starfsemi. Nú er ekki nema gott um það að segja, en ég býst við, að nokkrir fjármunir hafi fallið til samkvæmt þessum l., sem ég las upp áðan, svo að a.m.k. til bráðabirgða, meðan málið yrði á ný athugað, mætti það nægja og betur frá þeirri löggjöf ganga hvað áhrærir þennan nýja sjóð, sem hér er verið að stofna.

Nú tek ég eftir því, að ekki mun vera ætlazt til að nema þetta ákvæði úr l. frá 1931. A.m.k. er þess ekki getið í þeirri gr., þar sem felld eru úr gildi eldri ákvæði, enda er eðlilegt hvað áhrærir prestslaun að taka þau inn í þessi nýju l. Það fer miklu betur á því en að hafa í fleiri l. sambærileg ákvæði og fjármuni, sem ganga eiga til sams konar starfsemi.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta meira. Ég er á móti þessu, tel þessa löggjöf eiga að bíða, þar til þetta er betur grundað og íhugað. En mig langar til að forvitnast um það hjá hv. frsm., hvað þessari sjóðsstjórn samkvæmt hinni eldri löggjöf liður, hvað sjóðurinn er mikill nú og hvernig honum hefur verið varið á síðustu árum, því að það kynni að vera nokkuð fróðlegt fyrir menn að sjá, hvernig þessum fjármunum, sem verja hefði átt í þessu sérstaka augnamiði, hefur verið varið. Þetta vil ég vona, að hv. frsm. gefi upplýsingar um við tækifæri.