01.03.1948
Neðri deild: 66. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1092 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

84. mál, sóknargjöld

Frsm. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Það, sem fram hefur komið í ræðum þeim, sem haldnar hafa verið um þetta mál, gefur mér tilefni til að segja nokkur orð um málið í viðbót við það, sem ég hef áður tekið fram.

L. um sóknargjöld, sem nú gilda, eru að meginefni frá 1909. Þeim var breytt nokkuð með l. frá 1941, sem gengu í gildi 1. júní 1942. Í l. frá 1909 var ákveðið, að sóknargjald til kirkjunnar skyldi vera kr. 2.75 á mann, en sóknargjaldið skiptist í tvennt: kr. 1.50 lagðist í prestslaunasjóð, en kr. 1.25 fór til sóknarkirkjunnar, sem starfaði í sókninni. Sú breyt., sem gerð var 1941, var að fella niður prestslaunasjóðinn. og kr. 1.50 gjaldið, sem átti að renna til hans, féll einnig niður. Það ákvæði l. kom til framkvæmda 1. júní 1942, svo að eftir var skilið af hálfu Alþ. sem tekjustofn til handa kirkjunum kr. 1.25 á safnaðarmann, og Alþ. bjó svo um hnútana, að kirkjunum var ekki heimilað að leggja verðlagsuppbót samkvæmt vísitölu ofan á þetta gjald. En á árunum 1941–1942 var vísitölukerfið komið í gildi við greiðslur hér á landi, og einmitt á árinu 1942, þegar þessi breyt. kom til framkvæmda, fór vísifalan ört hækkandi og öll gjöld, sem krafin voru af mönnum í samræmi við það. En Alþ. skildi að vísu eftir 1941 tvenns konar heimild. sem áður hafði verið í l. og helzt enn, til þess að hækka gjaldið nokkuð frá þessu, sem ég hef tilgreint, kr. 1.25. Annars vegar er heimild til þess að hækka þetta persónugjald á hvern safnaðarmeðlim. En til þess að sú heimild geti komið til framkvæmda, þurf samþykki safnaðarfunda heima fyrir og síðan endursamþykki héraðsfunda í prófastsdæminu. Hin heimildin er sú, að nægi þetta ekki, er sóknunum heimilt að leggja viðbótargjald á safnaðarmeðlími eftir efnum og ástæðum, eða m.ö.o. eftir sama grundvelli og útsvörin eru lögð á menn í hreppunum. Nú segir biskupinn yfir Íslandi og forráðamenn kirkjunnar, að reynslan hafi sýnt, að þessi heimild til að hækka sóknargjöld með samþykki safnaðarfunda og endursamþykki héraðsfunda hafi reynzt ákaflega erfið og svifasein, þar sem enn fremur sé gert ráð fyrir, að sú heimild sé veitt til stutts tíma í senn, en ekki um ákveðinn tíma í eitt skipti. Þeir forráðamenn kirkjunnar, sem sýna mestan áhuga á þessu máli, telja því, að reynslan hafi sýnt það, sérstaklega síðustu 6 árin síðan gengið var frá breyt. á sóknargjaldinu 1941, að þetta fyrirkomulag, sem nú gildir, hafi ekki gefizt vel og að tími sé til þess kominn að fara fram á það við Alþ., að það endurskoði nú þessa löggjöf.

Til þess að gera sér grein fyrir því, hvað hér er í rauninni um að ræða, tel ég rétt að rif ja nokkuð upp, hvað er nýtt í þessu frv. Það er alveg rétt, sem hv. 6. þm. Reykv. tók fram, að ákvæði 1. gr. um gjöld utanþjóðkirkjusafnaða eru í öllu hliðstæð því, sem stjskr. sjálf tiltekur. 4. gr. þessa frv., um álag á útsvörum, er í rauninni ekki ný efnislega, og það fannst mér hv. 1. þm. Árn. ekki gera sér réttilega grein fyrir, því að eins og ég hef þegar tekið fram, hafa sóknarn. nú þegar í l. heimild til að jafna niður eftir efnum og ástæðum manna viðbótargjaldi til kirknanna. Og þótt till. menntmn. og frv. þetta í heild yrði fellt, þá felli það ekki niður þetta, sem er efnislega í gildandi l. frá 1909. Það, sem mest hefur verið rætt, eru því í rauninni ekki nýmælin í þessu frv. Og varðandi það, sem hv. 6. þm. Reykv. dró fram sem vandkvæði á framkvæmd þessa atriðis, þá skapast í sjálfu sér ekki nein ný vandkvæði, þó að þetta frv. sé samþ. með brtt. menntmn., því að það eru þá þegar til staðar þau vandkvæði. sem kunna að vera á því hér í Rvík að framkvæma þau ákvæði. Mér finnst því ekki ástæða fyrir því að mikla sér það svo mjög fyrir augum.

Þá kem ég að því, sem nýtt er í þessu frv. Það eru fjögur nýmæli í þessu frv., þó að 4. gr. sé sleppt. — Í fyrsta lagi samræming og nokkur hækkun á sóknargjöldum, þ.e.a.s. á grunngjaldi því, sem hver aðili greiðir til kirkjunnar. Í öðru lagi er lagt til, að kirkjunni sé heimilt að innheimta sóknargjöld með verðlagsuppbót samkvæmt gildandi vísitölu, eins og aðrar stofnanir gera og gjöld almennt eru greidd eftir nú. Í þriðja lagi er ákveðinn í 2. gr. sérstakur kirkjumálasjóður. Og í fjórða lagi er nokkur breyt. gerð á aldurstakmarki gjaldskyldra manna til kirkjunnar.

Ég ætla fyrst að víkja að þessari breyt. á aldurstakmarki gjaldskyldra manna. Eins og l. eru nú, þá er gjaldskylda til kirkjunnar orðin frá 15 ára aldri og allan tímann meðan menn lifa, nema aðeins er undanþága með rúmfast fólk, ef það er komið yfir 67 ára aldur. Hér er lagt til að fella niður gjaldskyldu af 15 ára mönnum og hækka það upp í 16 ára, og þykir það ekki ósanngjarnt með tilliti til skólaskyldu, sem nú er lögboðin, og með tilliti til þess, sem gildir í tryggingalöggjöfinni og viða á sviði löggjafar.

Þá er enn fremur lagt til, að allir, sem eru 67 ára og eldri, hvernig sem högum þeirra er háttað, skuli undanþegnir þessu kirkjugjaldi. Mér þætti sennilegt, að þeir. sem telja alllangt gengið fyrir hönd kirkjunnar í álögum á safnaðarfólk í þessu frv., líti á þetta sem nokkra bragarbót, ef svo mætti segja.

Um ákvæðið að innheimta sóknargjöld með verðlagsuppbót þarf ekki að fjölyrða. Það finnst mér í alla staði eðlilegt og sanngjarnt ákvæði miðað við þau ákvæði, sem nú gilda um kaup og kjör og allar greiðslur í þessu landi. Á það verður einnig að minna í þessu sambandi, að þau gjöld, sem kirkjurnar verða að greiða, fara að verulegu leyti eftir vísitölu eða því verðlagi, sem nú gildir, enda hygg ég, að starfsmenn kirkjunnar, hljóðfæraleikarar og iðnaðarmenn, sem kynnu að verða fengnir til þess að gera við kirkjurnar framvegis, vilji fá kaup sitt greitt með verðlagsuppbót. Ég hygg líka, að kirkjurnar séu ekki undanþegnar t.d. ljósagjaldi og öðrum sköttum, sem oft eru miðaðir við það verðlag, sem almennt gildir.

Þá kem ég að þriðja nýmælinu, sem er hækkun grunngjaldsins og samræming þess. Með verðlagsuppbót verður grunngjaldið, eins og það er nú í l., kr. 1.25, kr. 3.74, eða m.ö.o. lítið eitt hærra en sóknargjaldið nam áður en lagabreyt. 1941 var gerð. Það þykir nú hafa komið í ljós að fenginni reynslu, að þetta sé ekki nægilegur tekjustofn kirkjunni til handa. Það hefur líka verið viðurkennt af langsamlega flestum sóknum í landinu. Og í grg. frv., sem samin er af biskupi, er frá því skýrt, að 210 sóknir í landinu hafi notað sér heimild þá, sem ég gat um áðan, til að lækka kirkjugjöldin með samþykki safnaðarfunda og héraðsfunda, að meira og minna leyti, og sumar sóknirnar hafa komizt allt upp í 25 kr. á mann, en 60 sóknir hafa ekki hækkað sóknargjöldin neitt, 2/7 af öllum sóknum í landinu hafa dregizt aftur úr, en 5/7 hafa gripið til þess að notfæra sér þá heimild, sem til er. Nú segja forráðamenn kirkjunnar. að þær sóknir, sem ekki innheimta hærra gjald en kr. 1.25 á mann, hafi svo lítil fjárráð, að starfsemi hjá þeim, viðhald kirkjunnar og annað slíkt, hljóti að lenda í mestu niðurníðslu. Þetta horfa þeir upp á, en geta ekki að gert nema séð sé fyrir því, að nokkurra tekna sé aflað til þess að bæta úr þessum þörfum. Þá kemur tvennt til greina til að afla þessa fjár. Annars vegar að knýja safnaðarmenn heima fyrir, sem hafa sýnt, að þeir hafa ekki áhuga til þess að fara þá leið, sem heimil er, til þess að leggja nokkru meira fé fram til kirkjulegrar starfsemi en þeir hafa gert, eða á hinn bóginn: að krefjast þess, að ríkissjóður leggi kirkjunni til nokkurt fé til nauðsynlegs rekstrar. Nú hefur því verið hreyft á undanförnum þingum að fá ríkissjóð til þess að stuðla að kirkjulegri starfsemi á einn eða annan hátt. T.d. má minna á það, að á tveimur undanförnum þingum hafa legið fyrir frv. um kirkjubyggingar, þar sem farið var fram á, að ríkissjóður tæki að sér að greiða verulegan hluta af byggingarkostnaði kirknanna, allt að 1/2 eða jafnvel 3/4. Það þykir sýnt. að þessi leið hafi ekki hlotið byr hjá Alþ., því að þetta frv. um kirkjubyggingar hefur ekki náð fram að ganga, þótt það hafi verið lagt fyrir þingið tvisvar sinnum. Þá er komið að því, að forráðamenn kirkjunnar vilja leita eftir því við Alþ., að það fallist á og lögskipi þessa hækkun sóknargjalda, sem ég hef nú tilgreint, og knýi þar með þær sóknir, sem lengst hafa orðið aftur úr í viðhaldi og rekstri kirkjunnar, til þess að draga saman nokkru meira fé. Og að flestra dómi, að ég hygg, er hér í hóf stillt um þau gjöld og þær kröfur, sem hér eru fram settar. En það er svo, að sóknirnar heima fyrir verða að sjá fyrir, eins og l. eru nú, kirkjubyggingum og viðhaldi kirknanna á sinn kostnað. Ekki leggur ríkið fram fé til þess, nema þá að mjög litlu leyti, sem hefur komið fram við samþykkt fjárl. En það hafa oftast verið felldar allar till., sem gengu í þá átt, á síðustu tímum. Jafnframt því, að sóknargjöld eru hækkuð, er felld niður heimild sóknarnefnda og safnaðarfunda til þess að hækka eða lækka þau fyrir eitt ár í senn, að fengnu leyfi héraðsfundar, því að þá leið telur biskup erfiða í framkvæmd, og því var horfið að því, sem hér er lagt til Í frv. er gert ráð fyrir, að gjöldin að meðtalinni verðlagsuppbót verði 9–18 kr. á mann. Menn ættu nú að bera það saman, hvort það yrði þyngri byrði á herðum manna nú að greiða þetta gjald eða þær kr. 2.75, sem voru hið ákveðna persónugjald frá 1909 til 1940, þegar fjárhagur manna var svo miklum mun örðugri.

Ég kem þá að 2. gr., sem fjallar um algert nýmæli, sérstakan sjóð, er myndaður verði af nokkrum hluta sóknargjaldanna.

Biskup telur reynslu síðustu 5 ára sýna það, að Alþ. hafi yfirsézt, er það felldi niður prestslaunasjóðsgjaldið. Hér er farið fram á, að þetta gjald verði tekið upp að nýju, og skal það renna í sérstakan sjóð undir umsjá biskups og kirkjuráðs. Sumir hafa á móti þessu vegna þess, að allt þetta fé muni renna til Rvíkur og sé það ranglátt og óeðlilegt. En það er nú svo um mörg félagasamtök, að þau eiga miðstöð sína þar. Ég leyfi mér t.d. að benda á Ungmennafélag Íslands, sem að sumu leyti er byggt upp með svipuðum hætti og kirkjan. Það hefur deildir í öllum sveitum og miðstöð sína í Rvík. og þau félagasamtök innheimta nefskatt, sem rennur til sambandsins í Rvík, og er hann nú 1 kr. á hvern ungmennafélaga. Það fé fer alls ekki einvörðungu til starfseminnar í bænum, heldur er það notað til þess að styðja að allsherjar samtökum félagsdeildanna, kosta fulltrúa, sem ferðast á milli þeirra, og láta þeim t.d. í té leikrit til sýninga o.s.frv. Ýmsir fleiri aðilar fara einnig þannig að eða svipað, og stundum er svo um hnútana búið með löggjöf, sbr. t.d. ýmis ákvæði í tryggingal.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði aðallega um þetta atriði. Hann hefur reynslu í þessu efni umfram aðra þm., þar sem hann hefur forstöðu félagsskapar, sem hliðstætt er upp byggður og hefur miðstöð sína í Rvík — og hygg ég, að hann sjái, að það mundi reynast erfitt að halda þar uppi nauðsynlegu starfi án þess að draga saman til þess nokkurt fé.

Ég hef orðið þess var hér á Alþ., að ýmsir menn, sem ekki hafa nægilegt víðsýni, telja það ekki sæmandi að draga saman fé hingað til Rvíkur, sem þeir leyfa sér að segja, að notað sé til snakkfunda og pólitískra spekúlanta — frá almenningi utan af landsbyggðinni. Ég tel slíkan málflutning ósæmandi og bera vott um skammsýni og skort á félagsþroska. Ég held, að t.d. hv. 1. þm. Skagf. og aðrir, sem svipað líta á málið, ættu að geta gert sér ljóst, að kirkjan er einmitt með svipuðum hætti samband félaga víðs vegar um landið undir umsjá biskups og hefur miðstöð hér.

Hitt er eðlilegt, að spurt sé, til hvers eigi að nota það fé, er rennur í þennan sjóð. Það er satt, að um það eru ekki sett skýr ákvæði, heldur sagt, að reglugerð skuli sett um sjóðinn af kirkjumrh. samkvæmt tillögum biskups. En mér er tjáð, að svo mörg verkefni kalli að hjá kirkjunni, sem fé skortir til, að óhjákvæmlegt sé að bæta þar úr. Til dæmis má taka, að kirkjunni er nauðsyn að gefa út sérstakt málgagn, svo sem nú er gert. En öllum er kunnugt, að útgáfukostnaður er nú svo mikill, að erfitt er að standa undir útgáfu slíks blaðs nema sérstök framlög komi til. Mér hefur verið bent á, að kirkjan vildi einnig gjarnan hafa meira beint samband við hina ýmsu söfnuði úti um sveitir landsins með því að senda þangað fulltrúa margvíslegra erinda. En fjármagn skortir tilfinnanlega til slíkrar starfsemi. — Mér hefur verið bent á það til dæmis, að kirkjan beitir sér fyrir því að halda uppi söngkennslu fyrir organleikara utan af landi og vill a.m.k. styðja þá starfsemi. Nú er það svo að vísu, að söngmálastjóri fær laun sín greidd af ríkinu, en hins vegar hefur ekki verið betur að honum búið í starfi hans en svo, að hann hefur orðið að annast slíka kennslu á sínu eigin heimili, og annar stuðningur hins opinbera hefur verið eftir því.

Þá má líta á það, hvernig búið er um hnútana varðandi ráðstöfun þessa sjóðs að öðru leyti. Eins og áður er sagt, má ekki veita fé úr sjóðnum nema samkvæmt reglugerð kirkjumrh., og er í því fólgin trygging fyrir því, að honum verði ekki varið til neinnar óhófseyðslu eða óskyldra verkefna kirkjumálum. Í annan stað á sjóðurinn að vera undir umsjá biskups og kirkjuráðs, og er vert að atbuga, hvernig háttað er um skipan þeirra aðila til starfa. Biskupinn er í öndverðu kjörinn af prestum þjóðkirkjunnar og situr í embætti allan sinn starfsaldur. Kirkjuráð er aftur þannig skipað, að prestar landsins kjósa í það tvo menn og héraðsfundir aðra tvo, en biskupinn er formaður ráðsins. Í kirkjuráði eiga þannig sæti fulltrúar kirkjunnar og fulltrúar safnaðanna, kosnir af fólkinu úti á landsbyggðinni. Þessir fulltrúar eiga svo að hafa yfirumsjón um fjárveitingar úr sjóðnum, og hygg ég því, að ekki sé þarna neitt losaralega um hnútana búið.

Hér hefur verið beint til mín fyrirspurn um prestakallasjóð og reikningsskil hans. Ég hafði ekki búið mig undir að gefa svör um það og hef ekki í höndum gögn þau, er til þarf, en sjálfsagt er að afla þeirra áður en málið fer út úr d., og mér er ljúft að gefa um það skýrslu fyrir 3. umr. Það er rétt hjá hv. l. þm. Árn., að þessi sjóður á að vera undir umsjá kirkjuráðs, og er honum varið til menningar- og líknarstarfs. En þar er ekki fastur tekjustofn. og fer það eftir því, hve mörg prestaköll eru setin, hvað sjóðnum áskotnast.

Ég hef þá með þessum orðum gefið nokkurt yfirlit um þetta mál, sem ekki er ýkja stórt, miðað við margar aðrar nýjungar, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða meira um það, nema sérstakt tilefni gefist.