15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (165)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Þá er nú loksins komin stundin, sem hæstv. forsrh. var að boða, að væri að nálgast, hér um daginn, og við gætum ætlað eftir þeim tíma, sem hæstv. forsrh. hefur haft til að búa sig undir þessa stund, að hann hefði getað haldið eitthvað ofurlítið skárri framsöguræðu en hann hélt áðan. Satt að segja er þunnt að bjóða þm. upp á það að fá ekki einu sinni í framsöguræðu hæstv. forsrh. sæmilega gerða grein fyrir frv. ríkisstj., þannig að tilgreint væri, hvað tekjurnar af þessum sköttum mundu nema miklu — hvað mikið þetta mundi gera. Hæstv. forsrh. reyndi ekki einu sinni í framsöguræðu fyrir þessu frumvarpi að færa nokkur rök að því, hvað þetta frv. mundi gefa í ríkissjóðinn eða annað slíkt. Það liggur næst að halda, að þrátt fyrir langan undirbúningstíma hafi ríkisstj. ekki undirbúið málið betur en þetta. En fyrst hæstv. forsrh. kemur með tilmæli um að hafa ekki langar umr., þá hefði hann sjálfur átt að hefja sína ræðu dálítið skár, svo að menn kæmust hjá því að spyrja hann í þaula um það, hvað felist í einstökum ákvæðum frv., og þegar hvorki er í grg. né framsöguræðu gerð grein fyrir þessu, þá er ég hræddur um, að hæstv. forsrh. komist ekki hjá því að taka aftur til máls. Ég hef áður mótmælt því, að málið verði nú þegar tekið til umr. Það er ósvinna að ætlast til, að þm. hafi getað athugað frv. á svona stuttum tíma. og á sama tíma og ætlazt er til slíks af þm., þá gerir einn af ráðh. sig sekan um það að fara út fyrir þinghelgina til að segja frá frv. á opinberum eða hálfopinberum fundi og lætur síðan birta ]tau ummæli í blaði, áður en þm. fá að sjá frv. Ég á hér við hæstv. dómsmrh.. sem sagði frá frv. á Varðarfundi í gær, og þau ummæli eru svo birt í Vísi í dag, þannig að frásögnina er búið að prenta, áður en þm. fá að sjá frv. Þetta eru nokkur orð um það, hvernig þetta frv. ber hér að og að sjálf framlagningin hér á Alþ. tekst með endemum, sem hæfir innihaldi frv.

Þá er sem sé loksins komið að því, að úrræði hæstv. ríkisstj. eru komin fram í frv.-formi hér á Alþ. — úrræði, sem hefðu átt að vera ákveðin, þegar ríkisstj. tók við, því að til þess hafði þessi ríkisstj. 23 daga umhugsunarfrest við tilraunir til að koma sér saman í janúar s.l., að hún gæti komið sér niður á að finna úrræði til lausnar á vandamálum þjóðarinnar. Þau eru ekki svo ný, að hún gæti ekki vitað, hvað við átti. Ég hef áður rakið það hér á þingi og skal ekki endurtaka það nú, þó að tilefni væri til, þvílíkur ónytjungsháttur hefur verið hjá ráðh. sem starfsmönnum þings og þjóðar, hvað snertir allan undirbúning málsins. Fyrst hún ekki kom sér saman um þessi úrræði, þegar hún tók við völdum, þá skuli hún hafa þurft 10 mánuði rúmi. til þess loksins að koma sér niður á þetta frv., sem nú liggur fyrir, og það er vitanlega fjarri því, að nokkur stefna væri ákveðin hjá ríkisstj. í þessu máli, þegar hún tók við, því að það er kunnugt, að hún hefur verið, hvað úrræði snertir, að hrökklast úr einu í annað. Eina vikuna hefur hún verið með gengislækkun sem aðalúrræði viðvíkjandi dýrtíðinni, aðra vikuna hefur hún verið með gjaldeyrisskatt sem aðalúrræði gegn dýrtíðinni, svo hefur hún horfið frá þessum úrræðum, þegar sagt hefur verið frá því af stjórnarandstöðunni, að þetta væri það, sem hún helzt hugsaði um, hún hefur óttazt dóma almennings og þess vegna ekki þorað að koma fram með þau. En stjórnin sá, að einhverju varð hún að reyna að koma saman, einhverri mynd eða ómynd varð að koma á — einhverju varð að klöngra saman, hvers konar óbermi sem það væri, og nú er það komið. Þetta frv., það einkennist þess vegna fyrst og fremst af skorti á hugkvæmni um úrræði, á heiðarleik og réttlæti gagnvart þjóðfélagsþegnunum og ónytjungshætti í því að undirbúa málið þannig fyrir þingið, að hægt sé sæmilega að ræða það. Það, sem nýtilegast er í þessu frv., liggur fyrir þinginu í öðru frv., og sjálft er þetta frv. í rauninni aðeins yfirskin þess að berjast á móti dýrtíðinni í landinu, en gerir ráðstafanir til þess að stórauka dýrtíðina, en yfirskin þess og aðalatriði er launalækkun — árás á kjör alþýðu, og það er sá raunverulegi tilgangur með þessu frv. Þetta þykja kannske ljótar staðhæfingar, en ég mun leitast við að færa rök að þeim og sanna það með þessu frv., að þetta er það, sem ríkisstj. stefnir að, og hér séu engin raunveruleg úrræði á móti dýrtíðinni í þessu frv. önnur en þau, sem áður liggja hér fyrir í frv.- formi, en hins vegar gerðar stórkostlegar ráðstafanir til þess að auka dýrtíðina með frv. og raunverulega innihaldið sé launalækkun. Þetta ætla ég nú að reyna að sýna fram á með því að taka fyrir einstaka kafla frv.

Aðalatriðið fyrir ríkisstj., eins og hæstv. forsrh. líka viðurkenndi, er III. kafli frv., þar sem bannað er að miða greiðslu launa eða aðrar greiðslur við hærri vísitölu en 300. Þarna er m.ö.o. lagt til, að Alþ. eyðileggi þá frjálsu samninga, sem atvinnurekendur og launþegar í landinu hafa gert á milli sín, og fyrirskipaður rangur útreikningur á vísitölunni, sem hefur í för með sér til að byrja með 81/2% launalækkun fyrir alþýðu og með þeim ráðstöfunum, sem að öðru leyti eru gerðar í frv., meiri launalækkun þegar lengra líður. Þetta er hvorki meira né minna en raunverulegur þjófnaður. Það er verið að stela af launum launþeganna í landinu til þess að veita það þeim ríkustu í þessu landi. — Það er verið að taka af því launafé, sem launþegarnir hafa tryggt sér ýmist með samningum eða l., og nota það til þess að gefa það þeim ríkustu og tekjuhæstu í landinu, sem bezta möguleika hafa til að standa undir ráðstöfunum gegn dýrtíðinni.

Í fyrsta lagi vildi ég viðvíkjandi þessum kafla segja það, að hugkvæmnin er ekki sérstaklega mikil hjá þessari hæstv. ríkisstj. Þessi leið, sem hún finnur til þess að minnka launin, það er nákvæmlega sama leiðin og utanþingsstjórnin lagði fyrir í frv.formi hér á Alþ. í sept. 1944, sem hét frv. til l. um ráðstafanir vegna dýrtíðarinnar. Þá var lagt til af ríkisstj. Björns Þórðarsonar samkv. 2. gr., að verðlagsuppbót mætti ekki miða við hærri vísitölu en 270, það var m.ö.o. lagt til, að binda vísitöluna við 270 stig. Þetta var nú leiðin, sem þáverandi utanþingsstjórn sá. Nú eru liðin þrjú ár síðan, og þeir þjóðstjórnarflokkar, sem hafa sett saman þessa ríkisstj. og búið til þetta frv., þekkja ýmsar aðrar aðferðir frá því áður fyrr til þess að lækka launin, svo sem gengislækkun, gerðardóm og annað slíkt. Þeir hafa nú viljað láta sér hugkvæmast eitthvað nýtt, en hafa ekki komizt lengra en að taka upp nokkuð breyttar till. utanþingsstj. frá 1944. Þá sáu þessir flokkar ekki marga aðra möguleika en að ráðast á launakjörin. Þegar það frv. var lagt fram, þá hentum við sósíalistar á aðra leið út úr ógöngunum, sem þessir flokkar töldu, að þjóðin væri komin í, leið, sem þjóðin síðan fór, og það hefur sýnt sig, að það var hægt að hækka launin og bæta kjör alþýðu vegna þess, að okkar leið var farin. Þá treystust þessir flokkar ekki til þess að fylgja því frv., sem þá var lagt fram. Nú hafa þeir eftir þriggja ára umhugsun um dýrtíðina komizt að þeirri niðurstöðu, að engin önnur ráð sé hægt að finna en að höggva nú í sama knérunn eins og áður var gert í gerðardómsl. og reyna að lækka laun hjá launþegum á sama hátt eins og lagt var til 1944 og afstýrt þá. Það er fyrsta stjórnin, sem Alþfl. hefur myndað, sem nú situr að völdum, og hugkvæmni hans hefur þá verið svona mikil. Mér liggur við að segja, að það hafi aldrei neinir fulltrúar auðmanna verið eins fátækir af hugsun eins og þeir hæstv. ráðh., sem nú sitja, og mér finnst andleg eymd Alþfl. nokkuð mikil, þegar hann ofan á svo snauða siðgæðiskennd hefur ekki einu sinni hugkvæmni til að finna ný ráð handa herrum sínum til þess að skýla sinni andlegu nekt. Þetta var nú viðvíkjandi hugkvæmninni og ráðunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur þurft 10 mánuði til að leita að, en eru búin að standa þrjú ár prezítuð í bókum þingsins.

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni, að meiningin með þessu væri að stöðva verðbólguna. En hvað er það raunverulega? Stöðvar þetta dýrtíðina? Nei, hún heldur áfram að vaxa jafnt fyrir þessu. Í fyrsta lagi kemur verð á allri útlendri vöru til með að hækka, það hefur farið hækkandi allt þetta ár og kemur til með að fara hækkandi um þó nokkurt skeið. Og viðvíkjandi því öðru, sem almenningur þarf að greiða: Hvernig er það með húsaleiguna? Húsaleigan fer enn sem komið er hækkandi á svarta markaðnum, og það er engin ráðstöfun gerð í þessu frv. til að hindra þá hækkun. Það er vitanlegt, að fjöldi manna býr við hærri húsaleigu en reiknað er með í vísitölunni, og því færri hús sem byggð eru, því meir kemur þessi svarti markaður til með að hækka. Það er þess vegna gefið, að það er verið að gera mönnum ókleifara að ráða við dýrtíðina einmitt með þeim ráðstöfunum, sem ríkisstj. gerir. Því meira sem byggt er af nýjum húsum, því fleiri verða þeir, sem búa í nýjum og dýrum húsum og búa við háa húsaleigu, sem ekki kemur inn í húsaleiguvísitöluna. Jafnframt er það vitanlegt, að ríkisstj. hefur gert ráðstafanir til þess að gera færri mönnum kleift að byggja hús yfir sig samkv. l., sem áttu að tryggja það, því að þau l. eru ekki framkvæmd. Þeir fá ekki leyfi til þess að byggja, sem eiga að fá það samkv. l., ef þau væru framkvæmd. Þeir menn, sem hafa lagt í húsbyggingar, verða að standa undir dýrum stofnkostnaði og háum vöxtum, og afleiðingin verður sú, hvað snertir húsaleiguna, að dýrtíðin heldur áfram að vaxa, því að gagnvart svarta markaðnum eru engar ráðstafanir gerðar. Hvað snertir vextina, sem eru mjög mikill þáttur, ekki aðeins í húsaleigunni, heldur í öllum rekstrarkostnaði Íslendinga, þá gæti maður bezt trúað, að frekar væri hugmyndin að hækka þá en lækka. Það er ekkert, sem bendir til þess hér, að það eigi að hafa eftirlit með bönkunum viðvíkjandi vöxtunum, og ef þeir hækka, samtímis því sem bundnar eru og lækkaðar þær launafúlgur, sem launþegar fá greiddar, þá þýðir það raunverulega rýrnun í viðbót á kjör þeirra. Svo er þar að auki auðséð, að ríkisstj. gerir sjálf í þessu frv. ráðstafanir til þess að auka dýrtíðina í landinu.

Samkv. þessu frv. er ekki aðeins framlengd tollahækkunin frá því í vor, heldur er líka lagður á sérstakur söluskattur, sem leggst allur á almenning og eykur þannig dýrtíðina. Enn fremur kæmi mér það ekki alveg á óvart, þó að ríkisstj. í vandræðum sínum með að fínna tekjustofn fyrir ríkissjóð — tekjustofna, sem ekki koma við auðmennina – grípi til þess ráðs að hafa ekki niðurgreiðslurnar alveg eins miklar, þegar næstu fjárl. verða afgr., eins og verið hefur undanfarin ár og hækki þannig raunverulega vísitöluna. Ég er hræddur um, að það yrði mikil freisting hjá fulltrúum auðmannanna í þessari ríkisstj. að notfæra sér það að geta lofað vísitölunni að hækka án þess að það komi fram í launum. Hér eru sem sagt í þessu frv. gerðar beinar ráðstafanir til þess að auka dýrtíðina í landinu og það mjög verulega, en hins vegar er ætlazt til, að vísitalan hækki ekki neitt. Þess vegna er það gefið, þar sem 12. gr. þessa frv. mælir svo fyrir, að ekki megi reikna með hærri vísitölu en 300, að það þýðir lækkun launa í landinu til að byrja með um 81/2%, ekki 8%, eins og hæstv. forsrh. sagði. Það er auðséð, að strax og ráðstafanir frv. fara að verka, þá kemur dýrtíðin til með að fara hærra en hún er og hin raunverulega vísitala einnig. Hæstv. forsrh. sagði, að þessi launalækkun, sem almenningur ætti að taka á sig, ætti að verða eins konar vátryggingargreiðsla — framlag frá launafólkinu til þess að tryggja sér áframhaldandi atvinnu í landinu. Þetta hljómar ósköp fallega. En hvar er trygging í þessu frv. fyrir áframhaldandi atvinnu? Reyndi hæstv. forsrh. með einn orði að sýna fram á, að þessi trygging væri til í frv.? Nei, það er ekki eitt einasta ákvæði í þessu frv. um það að tryggja atvinnu í landinn, þvert á móti má gera ráð fyrir, að það þýði aukið atvinnuleysi í landinu, ef ríkisstj. og fjárhagsráð halda áfram á þeirri hraut, sem þau hafa verið á undanfarið. Það er öllum vitanlegt, að hér væri komið á stórkostlegt atvinnuleysi nú, ef síldarhlaupið hefði ekki komið. Atvinnuleysi virðist vera bein ráðstöfun af hálfu ríkisstj. til þess að skapa ótta hjá almenningi — til þess að geta beygt almenning undir þá launalækkun, sem hér er heimtuð af fólkinu í landinu. Ég vil leyfa mér að fullyrða, að ráðstafanir ríkisstj. til þess að skapa atvinnuleysi í landinu hafi verið gerðar af ráðnum hug til þess að geta þannig fylgt eftir launalækkunartilraununum, sem hún ætlar að gera með þessum þrælalögum. Henni hefur þótt óárennilegt að ætla að lækka launin við almenning í landinu, svo framarlega sem allir hefðu vinnu, enda sparaði ekki hæstv. forsrh. að ógna með atvinnuleysi. Ríkisstj. hefur þótzt þurfa að vera örugg um, að atvinnuleysi kæmi, svo að menn mundu eftir, hvernig það væri. Í þessu frv. er ekki gerð ein einasta ráðstöfun til þess að tryggja verkamenn gegn atvinnuleysi, hvorki með framkvæmdum, sem lögskipaðar séu í þessu frv., né atvinnuleysistryggingum. Þvert á móti hefur ekki nokkur skapaður hlutur heyrzt frá ríkisstj. um það, hvaða framkvæmdir hún ætli að láta gera á næsta ári eða hvaða framkvæmdir verði gerðar af einstaklingum eða einstökum samtökum í landinu. Það ríkir alger óvissa um allt, sem snertir atvinnulífið á næsta ári. En eitt er víst. Svo framarlega sem þessi ríkisstj. situr áfram að völdum og hennar fjárhagsráð, þá verður hin dauða hönd afturhaldsins lögð yfir atvinnulífið í landinu eins og síðari hluta þessa árs.

Belgingur hæstv. forsrh. um, að alþýðan í landinu væri með því að taka á sig þessar fórnir, að tryggja sig gegn atvinnuleysi, er því hreinasta blekking, enda reyndi hann ekki að rökstyðja það með einni einustu tilvitnun. Það er t.d. alveg víst, að lýsisherzluverksmiðjan, sem fyrrv. stjórn sagði, að ætti að halda áfram, verður stöðvuð af ríkisstj. Meira að segja var af einum fulltrúa flokks hæstv. forsrh. á alþýðusambandsþingi kallað fram í, þegar rætt var um, að nýsköpunin væri að stöðvast, og sagt, að togararnir fengju þó að koma til landsins. Sem sé, eina framhaldið á nýsköpuninni er það, að ríkisstj. treystir sér ekki til að fara að ráðum, sem einum af bankastjórum Landsbankans einu sinni hefur dottið í hug: að senda nýju togarana úr landi. Nei, frv. er svo aumlegt, hvað snertir tryggingu fyrir atvinnu, að ekki einu sinni hæstv. forsrh. leyfir sér að lýsa yfir því í framsöguræðu sinni, að útgerðin fari af stað eftir áramótin.

Svo framarlega sem þessi l. nái fram að ganga. Það væri þó það minnsta, fyrir Alþ.,ríkisstj. gæfi hér yfirlýsingu um það, að útgerðin færi af stað með þessu móti — að það væri öruggt, að hver einasta fleyta væri í gangi — það lægi fyrir yfirlýsing frá L.Í.Ú. um það, að það treysti sér til að gera út, ef þetta frv. væri samþ. En það er ekki einu sinni, að hæstv. forsrh. treysti sér til að lýsa yfir þessu hér við 1. umr. málsins eftir endalausar umr. um þessi mál við L.Í.Ú. og aðra aðila og fulltrúa innan ýmissa stétta. Það er ekki svo mikið sem trygging fyrir því, að útgerðin fari af stað, hvað þá að önnur atvinna haldist. Þvert á móti er fjárhagsráð látið sjá um, að ekkert hráefni sé til að vinna úr, og búið er að nota allt byggingarefni. Hæstv. forsrh. lýsti hrærður yfir því, að það væru ósannindi, að stjórnin ætlaði að skapa atvinnuleysi og láta fleiri launalækkanir sigla í kjölfarið, það ætti aðeins að bjarga atvinnuvegunum. Í því sambandi má bera saman dýrtíðarfrumvarp okkar sósíalista og frv. það, sem her liggur fyrir, með tilliti til framhaldsrekstrar hraðfrystihúsanna til dæmis.

Dæmi: Maður suður með sjó á hraðfrystihús. Hann borgar 300 þús. kr. í laun á ári, og hann borgar 100 þús. kr. í vexti. Launalækkunin samkvæmt þessu frv. hér mundi þýða 15 þús. kr. fyrir hann, sem hann sparaði á „fórninni“, sem hæstv. forsrh. vill láta færa og er alltaf að tala um. Hins vegar er einn liðurinn í okkar frv. sá. varðandi lækkun útgerðarkostnaðar, að lækka vextina um helming, úr 5% niður í 21/2%, og það mundi þýða 50 þús. kr. fyrir þennan mann, sem framleiðslukostnaðurinn minnkaði um, í stað 15 þús. kr. með launalækkunarframkvæmd þessa stjfrv., sem þó á að vera til þess að hjálpa atvinnuvegunum af stað og halda þeim við.

Þetta og fleiri dæmi sýna og sanna., að það er blekking, að þetta frv. tryggi það, að atvinnuvegirnir beri sig. Annar kostur þess á að vera sá, að í því felist öryggi gegn atvinnuleysi, en það er sama blekkingin, og loks á það að vera barátta gegn dýrtíðinni, og það á að réttlæta fórnir launamanna, en í þessu frv. felst engin trygging gegn atvinnuleysi eða vaxandi dýrtíð, nema síður sé.

Heildarlaunatekjur launþega hér á landi munu að líkindum vera um 500 millj. kr. á ári, eða hafa verið á síðasta ári, og ég gæti trúað, að heildartekjurnar hafi verið heldur meiri en minni undanfarin ár. Um það eru þó ekki til nákvæmar skýrslur, en segjum 500 milljónir. Launalækkunin þýðir til að byrja með 81/2%, en með viðbótarlaunalækkun og hækkuðu verði á aðfluttum vörum er óhætt að reikna með 10% launalækkun í heild, og það mundi þýða, ef miðað er við heildartekjur launþega s.l. ár og gert ráð fyrir, að þær séu 500 milljónir, að teknar væru 50 millj. kr. úr vasa launþega á Íslandi á ári með þessu lagaboði. Þetta lagaboð sviptir starfsmenn ríkisins þeim kjarabótum, sem þeim tókst að ná, að mestu leyti í tíð fyrrv. ríkisstj., og það sviptir verkamenn öllum kjarabótum síðustu ára. Þetta er enginn smáskattur, sem launamennirnir verða að greiða vegna auðmannastéttarinnar og til hennar. Þeir, sem fyrst fengju að kenna á þessu boði, ef vertíð hefst, eru sjómenn á vetrarvertíð, því að lágmarkstrygging þeirra er ákveðin og reiknuð út með vísitölu. Þegar nýsköpunarstjórnin var mynduð, var samkomulag um að bæta kjör sjómanna með hærra verði og meiri lágmarkstryggingu og tryggja þannig betur hag þjóðarinnar, því að sjómennirnir færa björg í bú hennar. En það er svo sem eftir öðru óláni hjá núverandi stjórn, að hún skuli berjast gegn sjómönnum. Á sama tíma sem hún er að tala um, að útgerðin þurfi að fara í gang, og vitað er, að fyrst og fremst þarf menn til að fara á sjóinn, þá byrjar þessi ríkisstj. á að lækka lágmarkstryggingu sjómanna.

Hvað starfsmenn ríkisins snertir, biðu þeir árum saman eftir leiðréttingu á sínum hag. Það kostaði þá mikið að fá betri kjör, eða réttara sagt, þeir voru búnir að bíða lengi eftir því, og eitt af því bezta, sem fyrrv. stjórn gerði, var að laga og rétta þeirra hag. Og það er því einkennandi fyrir núv. stjórn, að hún skuli eftir 10 mánaða leit að dýrtíðarráðstöfunum gera það að einu aðalatriðinu í dýrtíðarfrv. sínu að svipta ríkisstarfsmenn þeim réttarbótum, sem þeir fengu 7945 og 1946, kennara og alla opinbera starfsmenn. Hvað snertir aðra launþega, verkamenn, bæði iðnlærða og óiðnlærða, er vitanlegt, að í framkvæmd verður þetta þannig, að þeir, sem sterkasta hafa aðstöðuna og lægst hafa launin fyrir, fá uppbót á launatapið með grunnkaupshækkunum, stjórnin veitir gæðingum sínum uppbætur, hún er ekki sínk á slíkt. Hins vegar er viðbúið fyrir þá, sem lægst eru launaðir, að þeir ættu erfiðast með að fá bætt upp tjónið, og þannig kæmi launalækkunin þyngst niður á þeim, er sízt skyldi.

Ríkisstj. mun nú e.t.v. reyna að færa sín rök fyrir því, að lækka eigi hitt og þetta í verði, en ég hef sýnt fram á, að hún hefur reynt að auka og hækka verð á flestum sviðum. Og allar skuldir, t.d. sem launþegar hafa stofnað til á undanförnum árum vegna kaupa á íbúðum eða atvinnutækjum, hækka raunverulega í gildi með samþykkt þessa frv. og máske vextir líka. Það er e.t.v. engin tilviljun, að í haust, er mest var talað um dýrtíðarráðstafanir, sögðust auðmenn ætla að bíða þar til frv. ríkisstj. kæmi fram, þeir voru alveg rólegir. En þeir launamenn, sem hafa hrifizt af bjartsýni undanfarinna ára og trúað á framtíðina, þeim verður nú ekki að trú sinni, þeim er gert sem erfiðast að standa í skilum, hafi þeir t. d. í fyrsta sinn á ævinni lagt í að eignast þak yfir höfuðið eða annað slíkt. Þetta, sem lagt er til í 12. gr., þýðir a.m.k. 50 millj. kr. lán af launastéttunum til þeirra, sem græða og hverra gróði er ekki að neinn leyti tekinn með frv. þessu. Núv. stjórnarflokkar hafa áður komið sér saman um svipaðar ráðstafanir og nú. 1939 voru það þessir flokkar, sem komu sér saman um gengislækkun og bann við grunnkaupshækkunum, og 1942 voru þessir flokkar í stjórn, er gerðardómslögin voru sett. Þá hafði hæstv. núv. forsrh. annaðhvort eftir þann snefil af sómatilfinningu eða klókindum að fara úr stjórn. Nú er hann hins vegar forsrh. þeirra flokka, sem stóðu að gerðardómslögunum, nú er hann að framkvæma sams konar árás á launþega og alþýðu og hann lét þó vera árið 1942. Þessir flokkar virðast lítið hafa lært af reynslunni. Enn ráðast þeir á þá, sem búa við lökustu kjörin, og svipta þá þeim kjarabótum, sem áunnizt hafa fyrir erfiða baráttu, og taka a.m.k. 50 millj. kr. á ári hverju úr vasa þeirra eða andvirði 500 íbúða í verkamannabústöðum. En, ég býst við, að þetta sé hærri upphæð en veitt hefur verið til allra íbúða, sem byggðar hafa verið samkv. l. um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum. Af mjóum þvengjum læra hundarnir að stela. Þegar Iðnó, Alþýðubrauðgerðin og Alþýðuhúsið var selt, var stolið 300 þús. kr., en nú er stolið andvirði 500 verkamannaíbúða í einu vetfangi. Þetta eru verk fyrstu ríkisstj. Alþfl., eftir að við sósíalistar höfum verið hundskammaðir fyrir að gangast fyrir stjórnarmyndun með Sjálfstfl. Nú er Alþfl. búinn að sýna, hvað hann getur gert undir sinni forustu, hvað hann gefur alþýðu landsins, 50 milljónir með einni lagagr. teknar úr vasa hennar. Að vísu býst ég ekki við, að hægt verði að taka allt, sem náðst hefur í kjarabótum síðustu árin, en ekki vantar viljann til þess, en það vantar e.t.v. getuna. Alþýða þessa lands hefur áratugum saman barizt fyrir rétti sínum og bættum kjörum, en hæstv. núv. forsrh. hefur aldrei tekið þátt í þeirri baráttu. Hann hefur aldrei starfað í verklýðsfélagi, og hann hefur aldrei vitað, hvað það er að vinna með fórnum að því að fá kjör sín eitthvað bætt. Hann hefur hins vegar átt sæti í ríkisstj., sem svipti verkalýðinn samningsrétti 1939. 1941 tilkynnti hann, að engin hætta væri á því, að verkamenn fengju grunnkaupshækkanir til að bæta sín kjör, og 1944 barðist hann, meðan hann gat, á móti myndun ríkisstj., sem mynduð var í því skyni að bæta hag alþýðunnar og opinberra starfsmanna. Þessi hæstv. forsrh. hefur ekki aðeins látið vera að taka þátt í baráttu verkalýðsins fyrir bættum kjörum og launum, heldur hefur hann og flokkur hans lagzt æ þyngra á móti kjarabótum vinnandi fólks og barizt gegn þeim og verkföllunum, sem orðið hefur að grípa til, og í vor kallaði einn af aðalforustumönnum Alþfl. það glæp, ef verkamenn ætluðu að reyna að bæta sér upp þá launaskerðingu, sem tollahækkanirnar ollu. Þessi flokkur hefur gert allt, sem hann hefur þorað og getað, til að koma í veg fyrir, að íslenzk alþýða gæti bætt kjör sín, en hann hefur orðið undir í þeirri viðureign og ekki tekizt það fyrr né síðar, en þjóðin hefur stórtapað vegna baráttu þessa flokks gegn verkalýðnum. Og nú liggur hér fyrir frv., sem á að þræla í gegn með handjárnum umræðulaust og taka með því 50 milljónir króna af alþýðunni árlega, án þess að hún fái varizt. Hæstv. forsrh. talaði um, að atkv. ættu að ganga um þetta frv. hér, en ég spyr, vill hann ekki láta þjóðina greiða atkv. um það? Var það „akkurat“ þetta, sem hann lofaði í síðasta kosningaprógrammi Alþfl. 1946? Þorir hann nú ekki að horfast í augu við kjósendur og láta forseta leggja málið í þjóðardóm? Nei, nú á ekki að hlusta á rök, nú skulu menn bara hlýða. En anzi er ég nú hræddur um, að launþegar segi nú eitthvað, þegar farið verður að taka a.m.k. 2000 krónur af launum þeirra samkv. ákvæðum 12. gr. En þetta kemur auðsjáanlega ekki niður á launþegum einum, þó að þeim sé ætlaður aðalbitinn, heldur skilst mér, að hér heyri undir allar greiðslur vegna alþýðutrygginganna og aðrar slíkar. Það þýðir með öðrum orðum, að gamla fólkið, sem hingað til hefur fengið sínar hundrað krónur í grunn, plús meðalvísitölu ársins, fær nú vísitölulækkunina á þennan knappa lífeyri sinn, og eins er um ekkjur og munaðarleysingja. Þegar Alþfl. burðaðist við að vera með í stjórn undir forsæti Ólafs Thors, var það eitt, sem við knúðum fram, að alþýðutryggingarnar yrðu settar. Flokkurinn hefur mikið skrumað um þær síðan. En nú hefur hann haft tækifæri til að ráða og setja sín skilyrði fram. bæði varðandi tryggingar og annað, þegar hann hefur myndað sína fyrstu stjórn, en sannast sagna er, að auðmennirnir dikteruðu flokknum. hvað hann skyldi ganga inn á, og hann gekk inn á það. Og hér er jólagjöf hans til ekkna og munaðarleysingja. Hversu gæfusamt var þetta land að fá núverandi hæstv. forsrh. sem foringja! Undir forustu þessarar auðmannastjórnar á nú að rýra og draga úr því, sem hafðist í gegn með harðvítugri baráttu. Til nokkurs hefur þessi stjórn setið og lögboðið lækkun á öllu kaupi.

IV. kaflinn í þessu frv. er um ríkisábyrgð vegna bátaútvegsins. Ég ræði hann ekki sérstaklega. Þar er sumt tekið beint upp úr frv. okkar sósíalista, og allóþægilegt hlýtur það nú að vera fyrir þessa herra að krjúpa að krossinum og neyðast til að koma hér með Ákaverðið, sem þeir hafa nefnt svo, og biðja Alþ. um að samþykkja það. Hins vegar er svo lítið tekið upp úr frv. okkar, að vart mun nægja til, að útvegurinn fari af stað.

Svo er það 31/2% söluskatturinn, sem allur á að leggjast á almenning. Framsókn talaði ekki svo lítið um hinn óþolandi veltuskatt í tíð fyrrv. ríkisstj. Framsóknarmönnum þótti veltuskatturinn, sem lagður var á í tíð fyrrv. stjórnar, alveg óþolandi, og þeir fóru um allt landið til þess að segja þjóðinni, hve ægilegur þessi skattur væri. Já. Það var eitt ægilegt við skattinn, og það var það, að kaupmenn urðu að borga hann. Nú hefur Framsfl. haft tækifæri til að sýna, hvernig veltuskatt hún leggur á, þegar hann er í stjórn. Þá átti nú svo sem ekki að láta auðmennina sleppa. Hver varð svo reyndin? Reyndin varð sú, að þegar Framsfl. nú er í stjórn, þá er öllum skattinum velt yfir á almenning í landinu, en ekkert lendir á sjálfum heildsölunum. Það var rétt hjá framsóknarmönnum, að veltuskatturinn lenti áður á kaupfélögunum eins og kaupmönnunum. Þessi skattur, sem nú á að leggja á, lendir ekki á kaupfélögunum, heldur á kaupfélagsmönnunum. En veltuskatturinn, sem fyrrv. stjórn lagði á, lenti á auðmönnunum, en Framsfl. hefur nú tekizt að tryggja það, að byrðunum yrði velt yfir á almenning. Þessi stjórn segist berjast gegn dýrtíðinni í landinu. Þessi stjórn ætlar sér nú að leggja á 31/2% söluskatt, sem verður til þess að auka dýrtíðina. Ofan á annað er svo þessi skattur svo vísdómslega á lagður, að þeir. sem svíkja undan skatti, og þeir eru nokkrir, geta líka stungið skattinum í sinn vasa. Skatturinn er sem sé lagður:a útsöluverð, og ef einhverjum yrði á að telja ekki allt fram, fá þeir sjálfir hluta skattsins, í stað þess að með söluskattinum, sem lagður var á í tíð fyrrv. stjórnar, var tryggt, að hann rynni allur í ríkissjóð. Ríkisstj. er ánægð, ef hún getur látið almenning borga skattinn, en hitt gerir minna, þótt hann komi ekki allur í ríkissjóðinn. Sem sagt, þessi skattur er til þess tvenns, að verðlauna skattsvikara og auka dýrtíðina.

En svo er einn skattur, sem ríkisstj. segir, að auðmennirnir eigi að borga. Það er eignaraukaskatturinn. Með því að svo stutt er, síðan þessu frv. var útbýtt, hefur mér ekki gefizt tækifæri til að lesa ákvæðin um þennan skatt nákvæmlega, en nokkur orð vildi ég segja um hann, eftir því sem mér kemur hann fyrir sjónir við lauslegan lestur, en mér þykir leitt að hafa ekki haft tíma til að athuga þessi ákvæði nánar. Hæstv. forsrh. gerði heldur ekki mikið að því að skýra þau og minntist ekki einn orði á, hve mikill skatturinn væri áætlaður. Ég hef heyrt talað um 10 milljónir, en veit ekki, hvort það er rétt. Hæstv. forsrh. sagði, að allir yrðu að bera byrðarnar, það væri alveg óhjákvæmilegt. Við skulum nú athuga, hvernig þessi skattur kemur niður. Einhvern tíma hefði hæstv. forsrh. Kannske verið sammála mér um það, að þeir, sem breiðust hafa bökin, ættu að bera þyngstar byrðarnar. Skattskýrslur sýna, að bara hér í Reykjavík einni er skuldlaus eign 100 ríkustu fyrirtækja og einstaklinga 103 millj. kr., eftir því sem þeir gefa upp og á fasteignamati árið 1946. Það þýðir 500–600 millj. kr. í höndum hinna 200 ríkustu. Það er því ekkert smáræði, sem hægt er að byrja með að taka þar. Við skyldum því búast við, að þar mundi stjórn Alþfl. bera niður, — en hvernig hagar hún svo eignaraukaskattinum? Á hann að leggjast á þá ríkustu? Ekki er það prinsipið hjá ríkisstj., og maður skyldi þó ætla, að þessir 200 auðkýfingar ættu að geta borið að missa svo sem 50 millj. kr., þegar þjóðina vanhagar um það. Það er farið eftir því prinsipi, að þeir, sem auðgazt hafa á síðustu árum og næst til, skuli borga skattinn, og sýnist mjög tilviljanakennt, á hverjum hann muni lenda. Utanþingsstjórnin gamla hafði á sínum tíma eignaraukaskatt á stefnuskrá sinni, og hefur núverandi stjórn reynt að sigla sem mest þeim skatti. Ríkisstj. Alþfl. gengur ekki nær auðmönnunum en ríkisstj. Björns Ólafssonar og Vilhjálms Þórs. Hvað þessi skattur á að gefa mikið, vitum við ekki. En ef það er ekki meira en 10 milljónir - en það þarf að koma fram —, þá er að ekki nema lítill hluti af þeim 500–600 milljónum, sem eru í eign hinna 200 ríkustu hér í Reykjavík, en á sama tíma á að taka 50 milljónir af almenningi. Þannig skiptir stjórn Alþfl. á Íslandi byrðunum milli manna, eftir að hæstv. forsrh. hefur lýst yfir, að hann væri búinn að reikna nákvæmlega út, hverju hver ætti að fórna. Af lauslegri athugun á ákvæðum frv. um eignaraukaskattinn sýnist mér mjög tilviljanakennt, á hverjum hann lendir. Ef maður t.d. hefur átt hús og á það enn, þarf hann ekki að borga skattinn, en er hins vegar skattskyldur, ef hann hefur neyðzt til að selja húsið, og ef menn hafa keypt hús og ekki þurft að selja það, sleppa þeir við skattinn. Þannig fæ ég ekki séð þann siðferðilega grundvöll gagnvart borgurunum, sem frv. geti byggzt á. Mér varð á að segja um þetta, að eins mætti setja það ákvæði, að þeir húseigendur, sem fótbrotnuðu, ættu að borga skattinn, en hinir ekki. Hví í ósköpunum á ekki að taka skattinn af þeim ríkustu, þegar þjóðina vantar fé? Þeir verða nokkuð jafnvoldugir fyrir því, þó að þeir missi 50 milljónir af 500 millj. sínum. Og fyrir borgarana er svona skattur mjög óréttlátur, því að hingað til hefur það þótt rétt, að lögin gengju jafnt yfir alla. Sjálft principið í þessu er því hreinasta gerræði.

Þá vildi ég minnast nokkuð á einstök atriði frv. Það er meiningin að undanþiggja Eimskipafélag Íslands skatti, en hins vegar ekki önnur flutningaskipafélög, sem hér eru til og hafa verið að kaupa skip á síðustu árum. Er það nú rétt að gera svona upp á milli prívatfélaga og láta Eimskipafélagið njóta sérréttinda, en hin félögin borga skattinn og gera þeim þannig ókleift að keppa við Eimskipafélagið? Ég veit, að eftir áskorun fyrrv. ríkisstj. hafa allmargir lagt í að koma upp flutningaskipastól, en með því að veita Eimskipafélaginu stöðugt sérréttindi, eru þau gerð ósamkeppnisfær, og ef ríkið endilega vill styðja Eimskipafélagið, þá ætti það að gera það á þann hátt að láta félagið selja sér hlutabréf og gerast aðalhluthafi í félaginu, því þó að hluthafar félagsins séu margir og um allt land, þá er Eimskipafélag Íslands á valdi fámennrar klíku auðmanna hér í Reykjavík, og þessi klíka á meiri hluta hlutabréfanna og heldur sína klíkufundi, áður en aðalfundur kemur saman, og ræður lögum og lofum. Það er engin ástæða til að undanþiggja þá klíku skatti. Það sýnir sig líka, að Eimskipafélagið hefur lagt í önnur gróðafyrirtæki, og sá hópur auðmanna, sem stjórnar félaginu, er sífellt að reyna að leggja undir sig önnur félög, eins og t.d. Flugfélag Íslands. Enda þótt við viljum félaginu sem slíku vel, er engin ástæða til þess að láta það vera ókontroliserað af hálfu hins opinbera, og ég tel heppilegast, að ríkið gerist aðalhluthafi í félaginu. Og ég er alveg á móti því að gera svona upp á milli félaga, eins og hér er ætlazt til.

Hér er í 4. gr. talað um eignir, og ef menn hafa átt þær sömu eignir fyrir stríð, þurfa þeir engan skatt að greiða, þótt eignirnar hafi margfaldazt í verði. T.d. er enginn skattur greiddur af hlutabréfum í togarafélögum. ef sami maður, sem á þau, átti þau 1939, enda þótt hlutabréfin hafi á þessum tíma margfaldazt að verðmæti. Hins vegar eru gerðar ráðstafanir til þess, að starfsmenn togaraflotans taki á móti rýrnun á sínum launum. Það á að minnka laun allra, sem starfa við togarana, en hlutabréfin, sem margfaldazt hafa í verði, á þau er ekki lagður skattur. Það má þó vera, að þetta sé ekki rétt skilið hjá mér, en ég fæ ekki betur séð. Sem sagt, þeir, sem ausa upp auðnum, verða að borga, en eigendur togaranna sleppa. Ég efast um, ef Ólafur Thors, einn helzti auðmaður þessa lands, hefði verið forsrh., að hann hefði leyft sér að bera fram annað eins frv. En hvað núverandi hæstv. forsrh. gerir, það er annað mál, en þá fer Alþfl. að verða nýtur flokkur fyrir auðmennina, ef togaraeigendur þurfa að fá hann til að bera slíkt fram, og þá hefur það verið til nokkurs fyrir auðmennina að skapa þessa ríkisstj. Mér sýnist eignaraukaskatturinn ranglátur og að hann lendi ekki á auðmönnunum, að hann sé tilviljanakenndur í framkvæmd og óréttlátur gagnvart borgurunum og geti mun minna en rétt væri að taka af auðmönnunum. Hæstv. forsrh. lét líka alveg vera að upplýsa, hve miklar eignir og tekjur auðmannanna væru, og ætti þó ríkisstj. að vera innan handar að afla sér upplýsinga um það.

Þá er í frv. gefin sú heimild, að lækka megi húsaleiguna. Það væri gaman að vita, hvernig stjórnin hugsaði sér að framkvæma þá lækkun. Hæstv. forsrh. veit eins og aðrir, að meginið af hítsaleigunni er á svörtum markaði, þannig að menn kvitta fyrir miklu minni upphæðum en þeir hafa fengið borgað og menn eru bara þakklátir fyrir að fá þak yfir höfuðið, þótt þeir verði að borga stórkostlegar aukagreiðslur, sem hvergi koma fram, vegna þess að neyðin er svo mikil, og hæstv. ríkisstj. hefur unnið af fremsta megni að því að auka þessa neyð með því að hindra menn í að byggja sér hús, jafnvel þótt byggingarefni væri fyrir hendi. Engin ráðstöfun er lögð til í þessu frv. til þess að brjóta þennan svarta markað, og ég skal viðurkenna, að til þess þarf mjög harðvítugar ráðstafanir. En það er hægt með því að taka húsin undir kontrol ríkisins og með því að byggja mikið. En engar ráðstafanir eru lagðar til í frv. í þá átt, að brjóta svarta markaðinn og lækka húsaleiguna, svo að þetta er aðeins ónýtt pappírsákvæði. Ríkisstj. hefur aldrei viljað gera neitt til að lækka húsaleiguna, og hún hefur hindrað allar byggingar. svo að aldrei hefur verið gengið lengra á Íslandi í því að takmarka frelsi manna.

Það má fara nánar í einstakar gr. frv. síðar, en það er engu síður fróðlegt að athuga, hvað ekki er í frv., því að það eru nefnilega vissir hlutir, sem „tabu“ er á, þ.e.a.s. má ekki minnast á. En það, sem „tabu“ er á og ekki má tala um, er t.d. heildsalagróðinn, verzlunarumstangið og það, að beina fjármagninu til framleiðslunnar. Það er ekkert í frv., sem miðar í þá átt. Og ekki má verzlunargróðinn tæmast. Stjórnin virðist skoða hann sem einhvern heilagleika, sem ekki megi hrófla við. Það á að taka 50 milljónir af alþýðunni, en verzlunargróðinn skal haldast. Þá er það annar hlutur, sem „tabu“ er á, en það eru vextirnir. Það má ómögulega skipa Landsbankanum að lækka vextina. Það kostaði mikla baráttu í tíð fyrrv. stjórnar að fá Landsbankann til að lækka vexti af stofnlánum um helming eða rúmlega það. En í þessu frv. er ekkert einasta atriði um að lækka vextina, en þeir eru eitt hið allra óbærilegasta fyrir sjávarútveginn. Og það skyldi engan undra, þótt Landsbankinn hækkaði vextina nú bráðum, sem hann var kominn til að lækka í tíð fyrrv. stjórnar, sumpart af ótta við það, sem kynni að verða gert, og sumpart af ráðstöfun Alþingis. Þegar launþegunum er sagt að borga 50 milljónir, — hvað á þá Landsbankinn að leggja fram, sem á síðasta ári græddi 12,2 milljónir króna? Hæstv. forsrh., sem hefur reiknað út, hvað hver gæti borið, leggur ekki til, að Landsbankinn leggi fram einn einasta eyri. Það eru ekki einu sinni bannaðar vaxtahækkanir, og ég fullyrði, að ef þetta frv. verður að l., þá mun Landsbankinn hækka vextina — og sjáið þið til. Það var eitt af því góða, sem gert var í tíð fyrrv. stjórnar, að knýja Landsbankann til að lækka vextina, þótt ekki gengi það baráttulaust, þar sem landsbankavaldið átti allmikil ítök í stjórninni. Núna hins vegar, þegar lækkuð eru laun almennings, þá er Landsbankanum gefið fríbréf til að hækka vextina. Það er fyrsta stjórn Alþfl. á Íslandi, sem gerir þetta. Heildsalavaldið og Landsbankann má ekki nefna eða hrófla við að neinu leyti.

Hver eru svo rök ríkisstj. fyrir þessu frv.? Hæstv. forsrh. sagði, að erfiðlega gengi um sölu íslenzkra afurða, en hann reyndi ekki að rökstyðja þetta. Hver er svo reynslan? Jú, hún er sú, að það hafa allar afurðir þjóðarinnar selzt og þótt meira hefði verið og að svo miklu leyti, sem ekki hefur fengizt mjög hagstætt verð, þá er það ríkisstj. að kenna. Það var hægt að selja bæði saltfisk og hraðfrystan fisk gegnum Danmörku til meginlandsins fyrir hærra verð en selt var fyrir. Það hefur verið haldið illa á þessum málum af hálfu ríkisstj. En nú eru fullar líkur fyrir, að verðið næsta ár verði ennþá hærra en hægt var að fá þetta ár, þó að ríkisstj. geri allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að dylja þjóðina þess. T.d. er líklegt, að síldarolían seljist fyrir allt að 50% hærra verð og síldarmjöl og fiskimjöl, sem á þessu ári var selt fyrir 31£, geti selzt fyrir 4.5 í á næsta ári. Þrátt fyrir þetta talar ríkisstj. um, að þjóðin verði að fórna vegna sölutregðu. Með þessu frv. ætlar hún að setja lög í þeim tilgangi að stela 50 millj. úr vasa borgaranna.

Skyldi vera meiningin að hækka launin ef vel selst? Nei, svona brellur veit ég ekki, hvort nokkur útgerðarmaður hefði leyft sér að bera fram. Ég hef skorað á stjórnina að gefa upp, hvað hún byggist við, að hægt væri að selja. afurðirnar fyrir á næsta ári, en hún hefur ekki þorað að gefa það upp, en treyst á lygamátt Morgunblaðsins til að blekkja þjóðina í þessu efni. Þá hefur utanrrh. gert ráðstafanir til þess, að stjórnarandstaðan fengi ekki að fylgjast með þessum málum., og valið sem sinn aðalsendimann Björn Ólafsson, sem aldrei sér nema hrun og væri þess vegna vís til að vera harðánægður með sama verð og í ár, þó að auðvelt vari að fá miklu hærra. Ég veit, hvernig þetta var 1944, þegar sendiherrann í London tilkynnti, að allt væri að lækka og nú yrði fiskurinn að lækka. Ef sams konar stjórn hefði þá setið við völd, þá hefði verðið strax verið lækkað, þó að hins vegar með harðri baráttu hafi verðið fengizt hækkað.

Það er stórt tjón, sem ríkisstj. veldur þjóðinni í sambandi við afurðasöluna, en þó tekur út yfir allt, þegar á að fara að skylda borgarana til að greiða 50 millj., vegna þess að vörurnar seljist ekki. Hvað snertir ábyrgðarverðið, þá er mjög vafasamt, að það nægi útveginum, nema aðrar ráðstafanir séu gerðar um leið, sem lækki útgerðarkostnaðinn. En um þær leiðir var getið og rætt í frv. okkar sósíalista. Hitt verður að telja mjög vafasamt, að launalækkun komi útgerðinni að nokkrum notum, enda virðist það í fyllsta máta óréttlátt, að þeir, sem draga björgina í búið, verði fyrstir fyrir skerðingu á sínum lífskjörum. Rökin fyrir launalækkun fá því ekki staðizt, en það er eitt markmið, sem ríkisstj. vinnur að og kemur greinilega fram í þessu frv., en það er að gera þá ríku í þessu þjóðfélagi ennþá ríkari á kostnað alþýðunnar.

Ríkisstj. hefur undirbúið atvinnuleysi, eftir því sem hún hefur getað, og í skjóli þess átti að knýja fram launalækkanir. Ég þarf ekki að ræða frekar þennan tilgang, það sjá hann allir, sem athuga þetta mál. En það er ekki nóg, að verkið. sem ríkisstj. ætlar sér að gera, sé illt, heldur er til þess stofnað, án þess að það sé framkvæmanlegt. Ráðh. reikna skakkt. Ríkisstj. hefur tvisvar í ár gert sams konar tilraunir, reynt, hvað langt hún kæmist gegn verkalýðssamtökunum. Í átökunum við Dagsbrún og önnur verkalýðsfélög í sumar beið ríkisstj. herfilegan ósigur. Hún þreifaði aftur fyrir sér við járniðnaðarmenn í haust og fór enn hraklegri ófarir. Blöð stjórnarinnar reyna að blekkja þjóðina varðandi þessa deilu nema Vísir. Þar segir, að hafi verið rétt að semja nú og ganga að kröfum járniðnaðarmanna, þá hefði verið rétt að gera það strax. Meira að segja Vísir virðist eitthvað farinn að læra af þessum óförum. En ríkisstj. hefur ekkert lært.

Sterkustu menn stjórnar þeirrar, er reyndi að framkvæma gerðardómslögin, Ólafur Thors og Hermann Jónasson, hafa passað sig með að veru ekki í þessari stjórn, sem nú er að leggja í sams konar tilraun. Fíflunum skal á foraðið etja. Tveir ráðh. úr stjórninni 1942 eiga sæti í núverandi ríkisstj., Stefán Jóh. Stefánsson og Eysteinn Jónsson. þeir virðast ekkert hafa lært. En dýr verður lærdómur þeirra, ef þjóðin á enn að þurfa að standa í harðvítugum deilum til að kenna þeim að ráðast ekki á lífskjör alþýðunnar.

Það fer með þessi lög eins og önnur lög, sem sett hafa verið á síðustu árum til að gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari, af því að alþýðan er orðin nógu sterk til að láta ekki bjóða sér slíkar árásir.

Ríkisstj. hefur miðað allt starf sitt við að eyðileggja árangurinn af starfi fyrrv. ríkisstj., og þó er lengst gengið í þá átt með þessu frv. Samt fer hagur íslenzku þjóðarinnar enn batnandi fyrir aðgerðir fyrrv. ríkisstj. Togarakaupin og aðrar nýsköpunarframkvæmdir gera það að verkum, að tekjur þjóðarinnar eru meiri þetta ár en s.l. ár og verða fyrirsjáanlega meiri á næsta ári, ef hin dauða hönd ríkisstj. sligar ekki atvinnuvegina. Það er víst ekkert, sem mælir með því, að alþýðan sætti sig við skerðingu á lífskjörum sínum Hæstv. forsrh. óskaði eftir því að ekki yrði þæft um þetta mál eins og hann orðaði það. Ég vil leyfa mér að óska þess, að þm. athugi þessi mál vandlega, áður en þeir greiða þessu frv. atkv. hvað kann að vera, að stjórnin sé búin að undirbúa þm., en þó getur verið, að einhver hafi persónulega sannfæringu. Einhver talaði um persónulega sannfæringu hér um daginn, en kannske hefur það bara veríð í ölæði.

Ég vænti þess þó eindregið, að þm. íhugi þetta vandamál vel, en láti ekki forsrh. fjötra sig. En þó að flestir stuðningsmenn stjórnarinnar verði fjötraðir í þessu máli, þá teldi ég ráðlegra fyrir forsrh. að gefa að minnsta kosti 4. þm. Reykv. undanþágu, það gæti ef til vil] verndað Alþfl. að einhverju litlu leyti frá þeirri smán, sem hann bakar sér með þessu frv.

Ríkisstj. hefur ekki sýnt þá röggsemd í að halda uppi lögum landsins við útlendinga, sem hér eru, að framkvæma þann lagabókstaf, sem samþ. var, þegar samningurinn var gerður. Hún hlífir þeim útlendingum, sem eiga að borga skatt til ríkissjóðs, og auðmönnunum, sem mest hafa grætt undanfarin ár. Svo ætlar hún að skella byrðunum á almenning. Þetta hefur það verið, sem þessi ríkisstj. ætlaði sér, þegar hún tók við völdunum. Hún var dálítið feimin að koma fram með þetta nú, þar sem hún vissi, að stórfelldar framkvæmdir, sem þjóðin var að gera, var ekki heppilegur grundvöllur til þess að birta þessa launalækkun fyrir þjóðinni. Nú veifar forsrh. atvinnuleysisvipunni yfir höfðum manna til þess, að þeir skuli hafa hitann í haldinu, ef þeir beygðu sig ekki undir það.

Ég mun vera á móti þessu frv. Það, sem nægir til þess að koma sjávarútveginum af stað og tryggja, að hann komist af stað, það frv. liggur nú þegar fyrir. Þær ráðstafanir, sem hér eru teknar upp, eru ekki nægilegar til að tryggja útveginn. Hins vegar felst í þessu frv. árás á hendur alþýðunni í landinu, sem ekki er rétt að framkvæma og stjórnmálaleg heimska að knýja í gegn. Þess vegna mun ég berjast á móti þessu frv. og gera mitt til að sannfæra þm. og þjóð um, að það væri að öllu leyti óráð af Alþ. að samþykkja það.