18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1671)

84. mál, sóknargjöld

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil segja það, að mér finnst næsta einkennilegt, að þetta frv. skuli nú vera hér til umr. í öllum þingönnunum, því að maður þarf ekki lengi að lesa í frv. til þess að sjá, að það er alveg óframbærilegt. Hér er ákveðinni stofnun í landinu gefin heimild til að leggja skatta á alla landsmenn eftir handahófi. Sums staðar á skatturinn að vera 3 kr., en annars staðar 6 og á valdi sóknarn. á hverjum stað, hver upphæðin skuli vera, og er þetta náttúrlega óþolandi fyrirkomulag. Þó kastar nú fyrst tólfunum, þegar lögfesta á hundraðsgjald af útsvörum. Hvaða vit er t.d. í því, að togari eigi að borga kirkjugjald, eins og þeir eru nú látnir borga kirkjugarðsgjald? Það er þó afsakanlegt, því að ef maður deyr í skipi, ber útgerðinni að láta grafa hann, svo að það er þó glóra í því, en að togari þurfi tíðasöng og altarissakramenti er alveg fráleitt. Ég skil ekki, að n. skuli láta annað eins og þetta ganga gegnum þingið. — Ég get ekki verið með 3. og 4. gr. og ekki með 1. gr. nema gjaldið verði jafnt á alla.

Ég vil svo að lokum óska þess, að n. athugi frv. betur og láti það ekki koma fram fyrr en á næsta þingi.