18.03.1948
Efri deild: 81. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (1672)

84. mál, sóknargjöld

Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vildi ekki láta hjá líða að mótmæla þessu frv. í heild sinni. Hv. frsm. menntmn. sagði, að hér væri að vísu um nefskatt að ræða, en honum fannst það eðlilegt, því að hér væri um félagsgjöld að ræða. Það eru einkennileg félagsgjöld, þar sem meðlimirnir fá engu að ráða um það, hver gjöldin séu, heldur eru þau ákveðin af löggjafarvaldinu. Þetta er þó ekki aðalatriðið, heldur hitt, að einnig þeir, sem ekki eru í félagsskapnum, eru skyldaðir til að borga líka. Skýring hv. frsm. er því fráleit. Ástandið í þessum málum er þannig, að vissri áróðursstofnun í landinu eru gefin hlunnindi til þess að geta lagt skatta á alla landsmenn til að halda uppi starfsemi sinni, hvort sem menn eru fylgjendur hennar, hlutlausir eða henni andvígir. Hér er því um þvingunarlög að ræða, en breyt., sem frv. þetta felur í sér, er sú að hækka gjöldin, og verða þvingunarlögin því enn tilfinnanlegri. Og ég mundi vera þessu frv. enn meir andvígur, ef ég væri kirkjunnar maður, því að ég tel þetta fyrirkomulag ósæmilegt hverri stofnun, ekki sízt kristinni kirkju.

Ég get svo látið þetta nægja, og ég mun greiða atkv. á móti frv.