15.12.1947
Neðri deild: 33. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 73 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. — Það er nú fróðlegt að athuga það, sem þegar hefur komið fram, að andstaðan gegn þessu frv. eða rökin gegn því eru mjög sitt úr hverri áttinni. Stundum er fundið að því, að dýrtíðin sé ekki lækkuð með þessu. Stundum er sagt, að það sé svo stórkostleg lækkun, að nálgist ofsókn og ofbeldi við launþega landsins. Stundum er sagt, að ráðizt sé of mjög á eignir manna og þá sérstaklega stríðsgróðann. Stundum er sagt, að skattur á stríðsgróðann sé allt of lítill. Stundum er sagt, að skattarnir, sem á séu lagðir, komi of mikið niður á almenningi, og aðrir finna aftur að því, að það séu aðeins framkvæmdamenn, sem ráðizt hafi í fyrirtæki á stríðsárunum, sem sérstaklega verði fyrir barðinu að þessu sinni. Þannig mætti lengi telja, hvernig mótmælin gegn þessu frv. koma mjög sitt úr hverri áttinni, hvernig þar stangar eitt annað, og er það raunar nokkurt vitni þess, að nærri hafi tekizt að hitta á hinn gullna meðalveg. En þó að fróðlegt sé að athuga, hvað andmælin gegn frv. eru ólík, þá er þó merkilegast, að flestöll mótmælin, mótsetningarnar, koma frá einum manni, sem sé hv. 2. þm. Reykv. Það má segja, að í ræðu sinni hafi hann í rauninni alveg kveðið niður jafnharðan þær fullyrðingar, sem hann áður hafði í frammi.

Aðalmótbáran hjá hv. 2. þm. Reykv. var nú sú, að það væri engin ástæða til þess að vinna gegn verðbólgunni, gegn hinu háa kaupgjaldi, sem nú er hér í landinu, vegna þess að allt væri í bezta lagi með það að láta allt haldast í sama farinu og verið hefur. Illa kom þetta nú heim við ásakanir sama þm. undanfarna daga og vikur, þegar hann hefur verið að tala um það, að stjórnin væri allt of sein á sér með frv. sitt gegn dýrtíðinni, vegna þess að dýrtíðin væri allt af að stíga, og öðru hverju kom nú þetta fram í ræðu hv. þm. En svo kom það, að það væri svo hátt afurðaverðið, að ef við vildum nota okkur það, þá þyrfti ekkert að gera. Þm. telur engin vandræði að því að selja afurðirnar fyrir ábyrgðarverð. En hvernig stendur þá á því, að þm. sjálfur hefur með flutningi frv. síns sýnt, að honum var ljóst, að bátaútvegurinn mundi ekki fara af stað, nema ábyrgðarverð væri veitt? Og hvernig stendur á því, að hver einasti þm. veit, að ef dýrtíðin verður ekki lækkuð miklu meir en menn treysta sér til á þessu stigi, þá er stöðvun óhjákvæmileg? Ástæðan fyrir þessu er sú, að tilkostnaðurinn er svo gífurlegur, að jafnvel þótt verðlag hafi hækkað að mun frá því, sem var fyrri hluta árs — sumar fisktegundir, a.m.k. í bili —, þá fer því fjarri, að það nái hinu íslenzka ábyrgðarverði.

Hv. þm. fór nú mörgum orðum um slæmleika þann og beinan illvilja, sem stjórnin hefði í afurðasölu landsmanna og stafaði fyrst og fremst af því, að stjórnin vildi koma hér á kreppu, hruni. Eitthvað var boðskapurinn á þessa leið. Eins og hæstv. menntmrh. gat um, hefur verið mjög rækilega gengið á hv. 2. þm. Reykv., m.a. á. fundi í utanrmn., þar sem hann var spurður, hvaða úrræði hann gæti bent á í afurðasölumálunum önnur en þau, sem ríkisstj. hefur borið fram. En hv. 2. þm. Reykv. skaut sér undan á miður karlmannlegan hátt að segja nokkuð um það. há var ekki á honum sama málæðið og í dag. Hann tók sér þá þagnarstund, eins og menn muna frá útvarpsumræðunum á dögunum. Þá hafði þm. færi á því að gefa okkur sínar leiðbeiningar, en hann lét það algerlega undir höfuð leggjast. Sannleikurinn er og sá og staðreynd, að aldrei hefur verið unnið með meiri ötulleik og tetri árangri að sölu íslenzkra afurða en á þessu ári. Og það er slæmt, að þegar kommúnistar eru að halda því fram, að núv. ríkisstj. og þá sérstaklega ég sé beinlínis andvígur því, að landsmenn fái hátt verð fyrir afurðir sínar, þá skuli einmitt hafa verið gerður sá hagkvæmasti samningur, sem enn hefur verið gerður — sá samningur, sem gerður var við Hollendinga — án þess að nokkrir af þeim góðu kommúnistum komu þar nálægt. Reynslan hefur sannað, að þeir samningar, sem kommúnistar áttu fulltrúa í, voru um flest miklu lakari en þeir, sem tekizt hefur að ná án þeirra atbeina nú. Enn hefur okkur nú tekizt að stofna til samninga um sölu á mjög miklu fiskmagni, allt að 70 þús. tonnum, til hernámssvæða Bandaríkjanna og Breta í Þýzkalandi, og það er víst, að ef þeir samningar verða í framkvæmd eins og meginefnið segir til um, svo sem við verðum að vona, þá geta þeir haft úrslitaþýðingu fyrir afkomumöguleika allra sjómanna og útgerðarmanna á Íslandi og þar með landsfólksins alls. Það eru því sannast sagna fullkomin öfugmæli, þegar núv. ríkisstj. er sökuð um slappleika í þessum efnum. Hún hefur gert allt, sem í hennar valdi hefur staðið, til þess að ná hagkvæmum samningum og hefur tekizt þá bezt, þegar kommúnistar voru víðs fjarri. Nú er ég ekki að segja þetta þeim fulltrúum kommúnista til lasts, sem í þessari nefnd voru, vegna þess að þeirra ráð voru þar auðvitað ekki sérstaklega mikil. Því fer fjarri, að þeir hafi nokkurt stórveldi í vasanum, eins og þeir stundum digurbarkalega vilja vera láta. Það kynni frekar að vera, að þeir væru í vasanum á einhverjum, en það skiptir ekki máli í þessu sambandi. En öruggt er, að í afurðasölumálunum hefur þessi flokkur ekkert til að státa sig af og að framkvæmdir núv. stjórnar eru í beinu framhaldi af farsælu starfi fyrrv. stjórnar Ólafs Thors og annarra þeirra, sem með mál Íslands höfðu farið á undan honum. Starf núv. stjórnar þolir samanburð við allt, sem áður hefur verið gert, og gagnrýnin hlýtur að falla gersamlega máttlaus til jarðar, enda væri það nú sannast sagna meira en lítil illmennska, ef nokkur Íslendingur vildi vísvitandi verða til þess, að afurðir landsins seldust lægra verði en vera þyrfti. Og jafnvel þótt ég efist ekki um, að hv. 2. þm. Reykv. vilji a. m. k. láta fylgjendur sína halda, að ég sé slíkt illmenni, þá væri okkur og þó sérstaklega mér, sem þeir telja vera einhvern víkadreng heildsalanna, mjög blinduð sýn, ef ég vildi nú ekki láta þessa góðu húsbændur mína græða sem allra mest á því að fá sem allra mestan gjaldeyri til þess að flytja inn varning til landsins, en í málgagni sínu bera kommúnistar fram þá furðulegu staðhæfingu, að ég sé þjónn heildsalanna og heildsalarnir muni græða þeim mun meira sem afurðaverðið sé minna og þeir fái þar af leiðandi minni innflutning. Það er von, að menn trúi þessu vart, en þetta hefur staðið dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð með nokkru millibili í því mjög einkennilega blaði, Þjóðviljanum, og er langt frá því, að það sé einkennilegt, að það birtist þar, því að flest er þar á sömu bókina lært.

Hv. þm. talaði mjög um þá sælutíma, sem hér hefðu ríkt í tíð fyrrv. ríkisstj., og minntist þess, að öðruvísi mundi nú vera hér umhorfs, ef Ólafur Thors væri við völd. Víst skal ég á það fallast, að engum manni trúi ég betur til þess að fara með æðstu völd á Íslandi, og það var ekki ég eða mínir flokksbræður, sem studdu að því, að fyrrv. ríkisstj. fór frá völdum. Það var einmitt hv. 2. þm. Reykv. og flokkur hans, sem þar áttu frumkvæðið og veltu burt allri þeirri dýrð, sem hv. 2. þm. Reykv. var nú að útmála í dag, og má hann því með sanni segja, ef hann talar af jafnmikilli einlægni og orð benda til: Hið góða, sem ég vil gera, geri ég ekki. Hið illa, sem ég vil ekki gera, það geri ég. – Það er áreiðanlegt og skal sérstaklega fram tekið, að um skeið valt á hv. 2. þm. Reykv., að fyrrv. ríkisstj. var ekki endurreist, svo að á honum situr allra manna sízt að vera með þau krókódílstár, sem hann lét svo fagurlega renna úr hvörmum sínum hér í dag. Hitt er mönnum auðvitað orðið ljóst, hvert erindi hv. Kommúnistafl. átti í ríkisst. á sínum tíma, þótt hann, sem betur fór, kæmi ekki fram áformum sínum. Kommúnistafl. réð því ekki, hvernig eyðslan varð, og fyrir bragðið er svo komið, eins og hv. 2. þm. Reykv. réttilega sagði, að Íslendingar hafa nú betra færi á því en nokkru sinni fyrr að láta sér líða vel í landi sínu, vegna þess að þessum miklu fjármunum var yfirleitt varið til skynsamlegra framkvæmt, sem geta orðið undirstaða að hollu atvinnulífi landsbúa, og það má segja, að það var nokkur gifta fyrir þá ólánsmenn, sem í Kommúnistafl. eru, að þeir skyldu þó bera gæfu til þess, að taka þátt í þessum framkvæmdum, enda mun það vera það eina, sem þeir nú hafa sér til trausts, þó að aðrir hefðu þar forustuna, og þykir það mikið kraftaverk hversu lengi tókst að halda þeim sæmilega skikkanlegum. En aðalerindið var ekki þetta — þeir höfðu ekkert á móti að vera með í þessari eyðslu — heldur það, sem sannaðist mjög berlega, þegar þeir hlupu úr ríkisstj., að koma á fjandskap milli Bandaríkjanna og Rússlands. Og að slíkt hafi ekki verið tilviljun, heldur þáttur í fyrir fram yfirvegaðri áætlun. kemur fram í því, að þessu starfi sínu hafa þessir þm. engan veginn hætt með því að hverfa úr ríkisstj., heldur halda þeir því dyggilega áfram, ekki aðeins varðandi þetta tiltekna mál, sem reyndist þeim banabiti í stjórnarsamvinnunni, heldur einnig hafa þeir teitið önnur mál eftir skipunum annars staðar að til þess að reyna að nota sem fjandskaparefni milli Íslendinga og þessarar voldugu vinaþjóðar okkar. Það var að sjálfsögðu ómögulegt fyrir nokkurn góðan Íslending, sem vildi frelsi og sjálfsfæði íslenzku þjóðarinnar, að taka þátt í því leppshlutverki, sem þessir menn ætluðu okkur að vinna í þágu tiltekins stórveldis, og úr því að þeir höfðu sett sér það aðalmarkmið að koma okkur í svo óvirðulega aðstöðu, þá hlaut sú samvinna, sem af þeirra hálfu var í þessu skyni gerð, að fara út um þúfur.

Annað var það, sem mjög glögglega kom fram í allri stjórnarstefnu kommúnista, og það var það, að þeir fengust aldrei til þess að vera með í nokkrum raunhæfum aðgerðum gegn vaxandi verðbólgu og dýrtíð. Það var að vísu mjög oft um það talað, um það leyti sem fyrrv. stjórn tók við völdum, að það ætti að sitja við sama grunnkaup sem þá var hér í Reykjavík hjá Dagsbrúnarmönnum — að grunnkaup ætti ekki að hækka frá því, sem þá var. Þessir hv. þm. virtust þá hafa ei því skilning, að síhækkandi kaupgjald væri hætta, ekki aðeins fyrir þjóðfélagið allt, heldur líka og ekki síður fyrir verkalýðinn í landinu. Þannig töluðu þeir þá með svipuðum hætti og t.d. hv. 2. þm. S.-M. hefur oft talað á fundum útgerðarmanna, þó að tunga hans muni áreiðanlega mæla nokkuð öðrum orðum hér síðar í kvöld eða nótt, en þá sannar það einungis, að gott er að hafa tungur tvær og tala sitt með hvorri. En hv. 2. þm. Reykv. var að minna á þann vinnufrið, sem ríkt hefði í tíð fyrrv. stjórnar, og það er alveg rétt, að að verulegu leyti var þá um hríð vinnufriður, enda höfðu flokksbræður hans og hann, ekki manna sízt, eindregið lofað því, að slíkur vinnufriður skyldi komast á. En hann gleymir bara því, að þegar til framkvæmdanna kom, þá var þetta gersamlega svikið, þá beittu þessir flokksmenn sér beinlínis fyrir kauphækkunum — almennum grunnkaupshækkunum, og einmitt hjá Dagsbrún, — kauphækkunum, sem voru þó enn stórvægilegri en sú kauphækkun, sem hv. þm. miklaðist af, að kommúnistar hefðu komið fram í tíð núverandi stjórnar. Vinnufriðurinn var nú ekki með meiri heilindum en þetta: Það var svikið allt, sem lofað hafði verið í þeim efnum. Ég veit, að nú hrósar hv. 2. þm. Reykv. sér af þessu og segist hafa unnið gott verk fyrir verkalýðinn með því að koma þessum kauphækkunum á og þar með vaxandi verðbólgu og örðugleikum fyrir atvinnulífið og mikilli og varanlegri stöðvun á íslenzkum atvinnuvegum, ef ekki skyldi lánast að ná því marki, sem til er ætlazt með þessu frv., að láta nú loksins þessum skollaleik lokið og stöðva verðbólguna til að byrja með og smám saman reyna svo að hverfa í rétta átt. Það er rétt, að hv. 2. þm. Reykv. og hans flokksbræður hafa getað áunnið verkamönnum nokkurn stundarhag með því að leiða yfir þá varanlega hættu, sem þessir menn eru manna fúsastir til að játa, þegar þannig liggur á þeim, en segja þó bara sem svo: Það er ekki okkar að hugsa um núverandi þjóðskipulag, farið hefur fé betra. — Ljóstra þeir þar með upp þeim tilgangi, sem þeir hafa með þessari starfsemi sinni, sem sé því, að sprengja eða eyðileggja fjárhagskerfi íslenzku þjóðarinnar til þess að leiða yfir hana þá harðstjórn og hörmungar, sem mundu verða fylgjandi þeirra eigin kerfi, sem vonandi — og með vissu verður aldrei reynt í íslenzkum jarðvegi. Hv. 2. þm. Reykv., sem manna mest ber ábyrgð á því, að fyrrv. stjórn sagði af sér og að eitra það samstarf þannig, að það gat ekki lengur blessazt — eitra það með því að halda tryggð við sínar gömlu kommúnistahugsjónir, í stað þess að taka upp hollan íslenzkan hugsunarhátt og vinna að málefnum landsins sem góðum íslenzkum alþm. sæmdi — þessi maður ætti nú ekki öllu lengur að vera með hræsnisblástur yfir þeim fornu dyggðum hér í sölum Alþ. Hv. alþm. er allt of kunnur þáttur hans allur í því máli, til þess að það afli honum mikillar samúðar, hvorki hér innan veggja né hjá þjóðinni í heild.

Þá segir hv. þm., að núverandi stjórn hafi unnið að því að koma á atvinnuleysi, stöðva byggingar og annað slíkt, og sagði, að það hefði verið ætlunin hjá ríkisstj. að færa mjög alvarlegt atvinnuleysi yfir landslýðinn til þess að geta kúgað hann þeim mun betur. Nú skulum við láta það alveg vera, hvort það mundi vera vænlegt fyrir ríkisstj. og líklegt til þess, að hún héldi fylgi og yrði langlíf, að hún leiddi hinar mestu hörmungar yfir borgara landsins, það mundi þá vissulega vera sú fyrsta ríkisstj., sem gerði þetta beinlínis af ásettu ráði til þess að tryggja sig í sessi. Nei, sú sögn er nú allt of ótrúleg og af sama toga spunnin eins og skáldsagan um það, að við viljum ekki selja afurðir landsmanna með skaplegu verði. Það, sem núverandi ríkisstj. hefur gert og af sumum er með nokkrum skorti á nægum skilningi útlagt þannig, að mikil höft hafi verið lögð á borgarana, það er ekkert annað en það, að ráðstafanir hafa verið til þess gerðar að nýta betur en áður það fjármagn, efni og vinnuafl, sem Íslendingar hafa yfir að ráða. Meðan fjármagnið var nóg og við gátum leyft okkur ýmislegt, sem við getum ekki leyft okkur nú, þegar fjármunirnir eru horfnir, þá gat verið skiljanlegt, að það væri látið undir höfuð leggjast að gera þessar ráðstafanir og koma framkvæmdum í samfellda heild og stuðla að því, að sem fyrst yrði lokið við það, sem í var ráðizt, og önnur nýrri verkefni látin biða, þangað til tekizt hefði að ljúka hinum. Margir mundu nú segja, að ýmislegt hefði betur farið, ef þessi stefna hefði fyrr verið upp tekin. Hitt er alveg ljóst, að óhjákvæmilegt var, og beinlínis nauðsynlegt, til þess að hér héldist atvinna og til þess að hér gætu áfram orðið stöðugar framkvæmdir í landinu, að nokkru betri skipan yrði á þessu upp tekin en áður var, og raðað yrði niður þeim verkum, sem gera átti, og eins og ég sagði, þau verk látin sitja fyrir, sem næstum því voru fullkomin, en heildarkostnaður ekki aukinn með því að verið væri að gera meira en efni og allar aðstæður leyfðu.

Annars verð ég að segja það, að þetta tal hv. 2. þm. Reykv. og beiskja hans í garð fjárhagsráðs ríkisstj., eins og hann kallar það, minnir óneitanlega mjög á ummæli refsins, sem ekki náði í vínberin og lýsti þá yfir, að þau væru súr. Það er öllum vitanlegt, að þessi hv. þm. sótti mjög eftir því að verða skipaður í fjárhagsráð ríkisstj. einmitt af þeim vondu hrunstefnumönnum, sem hann er alltaf að lýsa. Hann hefur ekki fyrirgefið okkur, að við töldum hann ekki mundu verða nógu einlægan starfsmann að þeim þjóðnytjaverkum, sem fjárhagsráði eru falin. Við héldum, að hann yrði ekki umboðsmaður íslenzkrar alþýðu eða íslenzkra hagsmuna, heldur hins alþjóðlega kommúnisma, og væri þess vegna betra að hafa hann í hvarfi frá þeirri starfsemi. En sá maður, sem svo mjög hefur verið á torginu í framboði til þessa starfs, ætti ekki að óskapast svo óskaplega yfir þeim illu verkum, sem þar hafi verið lagt fyrir að fylgja, því að hvernig vill hann þá skýra það, að hann vildi svo ólmur komast í þann svívirðilega hóp? En hér er það gremjan og vonbrigðin, sem hlaupa með þennan annars nokkuð greinda mann í gönur. (EOl: Er hæstv. ráðh. sama, hvers konar lygar hann fer með úr ráðherrastól?) Meir að segja komu fram í Þjóðviljanum mjög átakanleg kvein yfir því, að þessi biti skyldi detta úr hinum kommúnistíska aski. Hv. 2. þm. Reykv. er einn af þeim fáu þm., sem hefur verið staðinn að því að fara með vísvitandi ósannindi um fund, sem hann tók þátt í, og þannig verið stimplaður sem opinber ósannindamaður og lygari. (EOI gripur fram í.) Ég held það ætti við í þessu tilfelli, sem kom fram í till. hv. þm. S-Þ., að gott væri að hafa kvikmyndavél til þess að hv. þm. (EOl) gæti séð, hvernig vissar persónur líta út, þegar þær sleppa sér hér í þingsalnum. Menn geta sannarlega sleppt sér af fleiru en öldrykkju og brennivíni. Sumir menn verða sannleikanum sárreiðastir, og það sannast um þennan hv. þm., ósannindamann og lygara. Ég held ég hafi ekki orðið var við neinn mann, sem ákafar hefur sótt eftir að komast í þjónustu ríkisstj. heldur en þessi hv. þm., og ég gæti nefnt ásókn frá fleiri kommúnistum. Þessi hv. þm. talaði t. d. mjög utan að því á þeim tíma, að hann vildi fara sem umboðsmaður minn á þing sameinuðu þjóðanna, og lýsti yfir, að það yrði auðvitað minn vilji, sem réði (EOl: Ráðh. lýgur einu sinni enn. — Forseti (BG): Ef samtal milli hæstv. ráðh. og hv. 2. þm. Reykv. hættir ekki, verður fundi slitið.) Ég held, að það sé rétt að taka með þolinmæði á hv. 2. þm. Reykv. Eins og hans málstaður er, er honum vorkunn, þótt honum renni nokkuð í skap, og ég held það eigi frekar að taka hann sem óþægt barn heldur en sem beinan illræðismann, vegna þess að hvað, sem um hv. þm. verður sagt, þá held ég, að hann sé ekki í eðli sínu maður illviljaður, heldur er gallinn sá, að hann er genginn á band hjá erlendri einræðisstefnu, og ógifta hans er sú, að hann skuli taka boðskap hennar fram yfir hagsmuni hinnar íslenzku þjóðar. Það er þess vegna mjög ótrúleg saga, jafnósönn og hún einnig er, þegar hv. 2. þm. Reykv. er að reyna að koma því inn hjá mönnum, að núverandi stjórn vilji leiða atvinnuleysi yfir landslýðinn. Það er gefinn hlutur, að eitt bezta ráðið til þess að halda skaplegu þjóðskipulagi er það, að allir þegnar landsins hafi nóg að bíta og brenna — allir hafi atvinnu og geti látið sér líða vel, og það væri vissulega nokkuð ný stjórnkenning, ef það ætti að vera aðalmarkmiðið að reyna að láta fólkinu líða sem allra verst. Hitt er svo annað mál, að kommúnistar gerðu dálítið broslega tilraun til þess um næst síðustu mánaðamót að láta líta svo út sem það væri komið upp mikið atvinnuleysi hér í bænum. Þá fór fram atvinnuleysisskráning, eins og l. stóðu til, og Þjóðviljinn birti þá margar áminningar til manna um að láta skrá sig, og sama boð var látið ganga í kommúnistasellunum hér í bænum. Niðurstaðan varð sú, að það komu um 70 menn til að láta skrá sig. Flestir þeirra höfðu verið atvinnulausir í 1–2 daga, og kunnugir sögðu, að það hefði verið mjög áberandi, úr hvaða sauðahúsi þessir menn voru. Sem betur fer, hefur tekizt að halda böli atvinnuleysisins frá mönnum hér í þessum bæ, og það er vissulega þýðingarmesta og helgasta starf hverrar ríkisstj. að reyna að halda þeim vágesti frá sem allra lengst. Margir okkar þekkja allt of mikið til þess ástands, sem var hér fyrir ófriðinn — þó að við lentum ekki sjálfir í þeirri raun — til þess, að við viljum ekki allt til vinna að leggja allt, sem við getum og megum, í sölurnar til þess að halda þessum vágesti utan dyra, og einmitt vegna þess, að það er höfuðnauðsyn, að þetta verði gert, þá tjáir ekki lengur annað en að hefjast handa um virkar aðgerðir til að lækna verðbólguna. Menn geta nú mjög deilt um það, hvort þetta frv. gangi nógu langt í þeim efnum eða ekki.

Það er rétt, sem kom fram af hálfu starfsbræðra minna í ríkisstj., að frv. er ávöxtur samningaumleitana þriggja flokka og þess vegna hefur enginn einn þeirra fengið þar öllum sínum óskum framgengt, og við hefðum sjálfsagt allir, hver um sig, borið frv. fram með nokkuð öðrum hætti, ef við hefðum einir mátt mælast við úr hverjum flokki. En þrátt fyrir það dylst mér ekki, að ef þetta frv. nær samþykki, sem ég vona, og ef það hlýtur þann skilning þjóðarinnar, sem ég vona. að þá muni þetta frv. verða talið marka vatnaskil í viðureigninni við dýrtíðardrauginn og ásókn hans hafi þá verið stöðvuð með þessu frv. og grundvöllur lagður að því, að dýrtíðin geti verið héðan af til áframhaldandi uppbyggingar atvinnulífsins sem heilbrigður efniviður góðs fjármálalífs. Það eru nú ýmsar og mismunandi till., sem fram hafa komið í þessu máli. Sumir segja, að rétta ráðið sé að lækka dýrtíðina sjálfa sem allra mest og fara inn á svo kallaða verðhjöðnunarleið — lækka vísitöluna með lagaboði ennþá meira en hér er gert til þess að knýja þannig vinnulaun og allan innlendan tilkostnað niður.

Það er rétt, að það er aðalleiðin, sem farin er í þessu frv., og ég held nú, að við athugun muni allir góðviljaðir menn hafa sannfærzt um, að mjög margir og miklir annmarkar voru á því, að fara stærri skref í þessu í einu en gert er með þessu frv. Aðalatriðið er þó í frv. ekki sjálf lækkunin, sem með því er gerð, þó að hún sé nokkur og auðvitað tilfinnanleg fyrir þá, sem fyrir henni verða, sem er nær allur landslýður og raunar allur landslýður á einn eða annan veg, þegar ákvæði frv. eru athuguð í heild, heldur er það, sem mestu máli skiptir, að vísitalan er fest. Sá óheilla skrúfugangur, sem myndazt hefur um það, að sprengja þjóðfélagið og fjármálakerfi þess, hann er nú stöðvaður.

Hæstv. menntmrh. gat þess í ræðu sinni áðan, að fleiri þjóðir mundu hafa tekið upp vísitölufyrirkomulag eins og við. Ég veit ekki til, að nokkur þjóð hafi lagt út í annað eins vísitöluævintýri eins og við Íslendingar. Mönnum er kunnugt um það, að kommúnistar í Frakklandi hafa komið með till. um að taka upp fyrirkomulag eins og það, sem hér gildir, en stjórnarvöldin þar í landi hafa ekki treyst sér til þess þrátt fyrir ákafa ósk kommúnista í þá átt.

Sá ósigur, sem þeir hafa beðið í Frakklandi, stafar m.a. af því, að franska þjóðin og stjórnarvöld hennar hafa ekki viljað taka upp það sama fyrirkomulag, sem nú er að ríða íslenzku fjármálalífi að fullu. Ég hef einnig fregnað, að kommúnistar í Noregi hafi einnig viljað taka upp þetta vísitölufyrirkomulag, en Norðmenn höfðu kynnt sér áhrif þess og afleiðingar hér og þeir skildu, að það var ekki til neinna heilla. Norskir kommúnistar hafa, eftir að hafa borið fram þessa till., goldið gífurlegt afhroð á fylgi, eins og mönnum er kunnugt. Það er því vissulega engin tilviljun, að engin þjóð hefur tekið þetta fyrirkomulag upp, og skýringin er sú, að þegar til lengdar lætur, hefur það svo skaðvænlegar verkanir, að engin þjóð, sem fengið hefur reynslu í atvinnu- og fjármálum, hefur treyst sér til að leggja út á þessa braut.

Annað ráð, sem nú er talið um til að koma fjármálum þjóðarinnar á öruggari grundvöll, er það að lækka gengi krónunnar, og það virðist óvefengjanleg nauðsyn, ef leysa á vandann á skömmum tíma og allt í einu, og ekki verður lokað augunum fyrir því, að erfitt mun að finna ráð að gagni, án þess að gengislækkun komi til. Hins vegar þyrfti sú lækkun að vera svo mikil. að engin líkindi eru til, að almenningur sætti sig við það, enda er almenn andúð á gengislækkun. Ég hygg, að það muni sannast og reynast, að ef ekki tekst að fara þá leið, sem með þessu frv. er farin, þ.e.a.s. að stöðva verðbólguna, og ef þessi tilraun fer út um þúfur, þá er ýtt undir það, að gengislækkun eigi sér stað. Hér er ómögulegt að skilja, hvernig menn vilja leysa þetta mikla vandamál, ef þeir vilja ekki fara þá leið, sem reynt er með þessu frv. — Hv. 2. þm. Reykv. var með miklu offorsi að boða fjandskap gegn frv. og hælast um, að ekki væri víst, hvernig framkvæmdin á því reyndist. Ég veit, að hv. 2. þm. Reykv. er svo greindur maður, að hann ætti að sjá, að hann með vissum fjandskap sínum er vísvitandi að stuðla að því, að gengislækkun verði ofan á. þau úrræði, sem hann og flokksmenn hans hafa bent á, eru engin úrræði. Frv. þeirra miðar ekki að því að verðfesta vörur né vinna bug á verðbólgunni, heldur að því að hækka allt í vaxandi mæli. Eins og hv. 2. þm. Reykv. gaf í skyn, þá er frv. þeirra flutt í hefndarskyni og hefur ekki við neitt að styðjast. Þar er m.a. talað um að hækka viðgerðarkostnað og fleira þessu líkt. Það má segja, að eina raunverulega till., sem fram kemur í frv., sé sú að stofna landsverzlun. Nú er öllum ljóst, og einnig hv. 2. þm. Reykv., að það eru sízt líkur til, að landsverzlun yrði ódýrari í rekstri en einkaverzlun. Það er vitað mál, að frjáls verzlun og frjáls samkeppni er eina ráðið, sem leitt gelur til skaplegs vöruverðs, og ódýrasti verzlunarreksturinn fyrir þjóðina í heild. Það eru litlar líkur til þess, að þótt landsverzlun yrði komið á og kaupmönnum sýndur fullur fjandskapur og þeir sviptir atvinnu sinni, að það drægi nokkuð úr verzlunarkostnaðinum, heldur yrði það til þess að auka hann. Tilgangurinn með þessari landsverzlunartill. er því ekki að spara, heldur er hann sá að koma upp nýju áróðurstæki til þess eins að grafa undan því frjálsa þjóðskipulagi, sem hér ríkir. Ef tilgangurinn er sá að taka af verzlunargróðanum, þá hlýtur það að vera tilætlunin að leggja meira á vöruna, en með því að gera það, hlýtur það að koma niður á almenningi, sem þá tekur á sig hærra verð.

Till um landsverzlun er því leið ekki ólík því, að lagður væri á hár veltu- og söluskattur. Nú er útlitið þannig, að horfur eru á, að ekki verði fluttar inn í landið nema brýnustu nauðsynjar. Það er því auðsætt, að þegar verzlunin er slík, þá verður enginn gróði tekinn of verzluninni nema með auknu vöruverði. Það, sem því felst í frv., er það, að verið er að leggja nýja skatta á þjóðina í formi hækkaðs vöruverðs. Þegar því allt orðaskvaldrið er síað frá bunu þeirri, sem staðið hefur úr hv. 2. þm. Reykv. í dag, er það eftir, að hann vill láta hækka vöruverð almennt í landinu til þess að standa undir útveginum.

Hv. 2. þm. Reykv. létu því illa í munni öll þau gífuryrði, sem hann hefur haft í frammi í garð ríkisstj. út af frv. því, sem hér liggur fyrir. Hann vill láta hækka vöruverðið til þess að standa undir kostnaði, og er það í sjálfu sér ekki undarlegt. þó að hækkun á einhverju felist í frv., því að hv. flm. hlýtur að vera ljóst, að ekki er hægt að gera neinar raunhæfar till. til bóta, án þess að þjóðin leggi eitthvað á sig, en þeim hefur tekizt að finna eitthvert óheppilegasta formið. Hv. 2. þm. Reykv. er nú viss með að segja, að það séu bara heildsalarnir, sem eigi að bera þá hækkun, sem af frv. þeirra kann að leiða, en öllum er ljóst, að það hlýtur að leiða til hækkaðs vöruverðs. Einhver sagði í fyrra, um það leyti sem verið var að mynda nýja stjórn, að allháar öldur óróleika hafi risið í sálum kommúnista við þá tilhugsun að fara burt úr ríkisstj. Þá sagði og einhver, að þeir mundu fúsir ganga inn á hvaða skatta sem er til þess að verðu áfram í stjórn. Ég hygg, að það gangi sem rauður þráður í gegnum stefnu kommúnista að þykjast berjast fyrir lækkun dýrtíðarinnar, þó að hins vegar engir hafi í þeim efnum verið tillöguverri en þeir, en það kemur af því, að þeir álita annað þjóðfélagsskipulag betra en það, sem gildir hér hjá okkur, vilja einræði í stað lýðræðis og vilja því grafa undan því leynt og ljóst með því að taka á sig annarleg litbrigði og allra kvikinda líki. Þeir berjast fyrir sívaxandi verðbólgu og því gegn allri lækkun á henni. Þess vegna berjast þeir einnig hatrammlega gegn þessu frv., sem horfir til mikilla bóta í fjárhagslífi þjóðarinnar.