11.11.1947
Efri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1695)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Páll Zóphóníasson:

Ég hafði ekki ætlað mér að tala 1 þessu máli, en þessi brtt. gefur mér tilefni til að segja nokkur orð. Ég skal viðurkenna. að ég er samþykkur brtt. hvað viðkemur vörzlunni. En ég vil benda á, að hv. flm. tekur hér upp það sama, sem áður var í lögum, að helmingi skuli skipt í samræmi við framlög úr viðkomandi félögum. Ég sagði það í fyrra, að þá yrði að gera hverjum manni skylt að gera skýrslu um það, hvar hann seldi vöru sína, eða þeim, sem hana kaupir, að taka með henni upprunaskírteini. En þetta gerðu menn ekki. Við skulum taka dæmi um nokkur búnaðarfélög hér sunnanlands, sem selja afurðir sínar fyrir utan félagssvæðið. Bændur á svæði Búnaðarfélags Suðurlands selja töluvert mikinn hluta af vörum sínum til Rvíkur. Bændur, sem búa á Kjalarnessvæðinu, selja eingöngu á sínu búnaðarsvæði, en bændur í Borgarfirði gera það ekki. Þeir selja utan svæðis síns mjólk, æðardún o.fl., mest til Rvíkur, og það eru engar skrár gerðar yfir það. Bændur á svæði Búnaðarsambands Snæfeilsness selja aftur mikið í Borgarnesi, en bændur á svæði Búnaðarsambands Dala selja í Stykkishólmi, af því að þeir verzla margir í Stykkishólmi. Vörur framleiddar í Vestfirðingafjórðungi eru seldar þó dálítið á svæði Búnaðarsambands Strandamanna. Úr Húnavatnssýslum eru nokkrar landbúnaðarvörur seldar til Rvíkur og til sjávarþorpa í Eyjafirði, og fengi því búnaðarsamband sýslunnar ekki afgjald af þeim, heldur þau búnaðarsambönd, sem sölustaður varanna liggur í. Skeggjastaðahreppur, sem liggur á svæði Búnaðarsambands Austfjarða, verzlar að mestu leyti á Þórshöfn, og rynni því gjald af vörum þeirra til Búnaðarsambands Norður-Þingeyinga. Það yrði sami glundroðinn, nema því aðeins, að tekið yrði fram með reglugerð, að gerður yrði sérstakur reikningur um, úr hvaða sambandi vörurnar eru. Þá er hægt að framkvæma þetta, annars ekki.

Þá talaði hv. þm. um það, að búnaðarþing gæti ekki skipt þessu. En hvernig fer búnaðarþingið að því nú að skipta ríkissjóðsframlaginn til félagsins milli sambandanna? Alþ. veitir engu búnaðarsambandi fé, heldur skiptir búnaðarþingið því, og það hefur aldrei orðið ágreiningur um skiptinguna. Búnaðarþingið hefur skipt þessu eftir ákveðnum hlutföllum, og það gildir nákvæmlega sama um það, hvort það skiptir hálfum eða öllum búnaðarmálasjóði. Nú get ég upplýst það, að búnaðarþingið hefur ákveðinn skala fyrir skiptinguna, sem það fer eftir. Það fer eftir býlafjölda og því, hve mikið sambandið fær af starfsfé af sínu eigin svæði. Það eru framlög félaganna og býlafjöldinn, sem farið er eftir. Hafi samböndin eitthvað sérstakt með höndum, sem krefur aukaútgjöld, njóta þau þess í hærri styrk vegna þess það árið. Um þetta má spyrja hvern þann, sem verið hefur á búnaðarþingi, og síðan 1921 hefur aldrei verið ágreiningur um þetta. Á búnaðarþingi eru líka fulltrúar frá öllum búnaðarsamböndunum, og þeir eru ekki þangað komnir til þess að ota sínum tota, heldur til þess að vinna að framkvæmd búnaðarmálanna í heild. Búnaðarfélagið getur gert þetta, en eigi að breyta þar um, verður að búa til nýjan grundvöll. Grænmetisverzlunin hefur engar skýrslur um það, hvaðan hún tekur kartöflurnar, og henni ber engin skylda til að hafa skýrslur um það. Hv. þm. verður því að breyta l. meira en brtt. hans gerir ráð fyrir, ef þetta á að komast í framkvæmd. Það má bæta við nýrri grein um það, að þeir, sem selja landbúnaðarvörur, haldi skýrslu um hvað og hvert þeir selja. Án þess yrði skiptingin ranglát og ekki hægt að framkvæma hana með neinu réttlæti.

Þegar ég lagði til, að búnaðarþingið skipti þessu. gerði ég það til þess að forðast skriffinnsku og vegna þess að ég áleit, að það gæti alveg eins skipt þessu eins og ríkissjóðsframlaginu. Það hefur líka farið svo, að allir hafa ætíð verið ánægðir.