11.11.1947
Efri deild: 17. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1112 í B-deild Alþingistíðinda. (1697)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Gísli Jónsson:

Þetta mál er Ed. kunnugt. Það hefur verið hér áður til umræðu og búið að segja um það margt orðið. Það gladdi mig að heyra, að hv. 2. þm. Árn. lýsti yfir fylgi sínu við málið. Ef athuguð er afstaða hans á undanförnum þingum, hefur hann verið gegn málinn og ekki með. Það gleður okkur, sem jafnan höfum fylgt þessu máli, að hann skuli nú einnig vera sammála. En það varð ekki annað séð, er lesið var nál. 82, en að hann væri snúinn frá fyrri skoðunum, en það hefur verið hans háttur að koma ávallt með brtt., til þess að flækja málið og spilla fyrir því, tefja það og þvæla. Með tilliti til nál. varð ég því undrandi yfir þeirri brtt., sem hann hefur lagt hér fram. Hv. þm. undirskrifaði nál. fyrirvaralaust, þótt hann hafi áskilið sér rétt til að hafa óbundnar hendur um málið. Hafi n. ekki vitað um, hvað hann ætlaði sér, er það skrýtið. að hv. 2. þm. Árn. skuli á þennan hátt koma með hnífinn í bakið á nm. (EE: Er þetta siðferðisprédikun?). Það er heldur lágt siðferðisstig, ef hv. þm. tekur málið alvarlega.

Þetta mál hefði átt að ræðast betur í n. sjálfri, og ég vil því gera það að till. minni, að það verði tekið af dagskrá. Ef nokkuð má marka hv. 2. þm. Árn., hlýtur að vera hægt að koma fram við hann rökum. Ef hann vill, að málið verði leyst á skynsamlegan hátt. verður að halda honum að því á friðsamlegan hátt og án undirferlis frá hans hálfu. Áður hefur hann verið með alls konar fleyga til þess að fella málið. Ef þetta mál á að sæta slíkri meðferð áfram, fer það að verða spursmál, hvort ekki eigi alveg að afnema búnaðarmálasjóð. Féð er tekið af bændum, og svo er deilt um það hér endalaust, hvernig því eigi að verja, sem þeir hafa sjálfir lagt fram. Að það sé einhver goðgá, að búnaðarþing skipti þessu, er mér ómögulegt að skilja. Og þetta kemur frá manni, sem þykist vera umboðsmaður bænda á Alþ.!

Ég legg til, að umr. verði frestað um málið og form. n., sem á mikið magn af lipurð og sniðugheitum, reyni að leysa það. Svo vænti ég þess, að hv. 2. þm. Árn. betrumbæti sig og fylgi málinn af heilum hug.