15.03.1948
Neðri deild: 73. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1120 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Ásgeir Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. meiri hl. n. með fyrirvara.

Ég hef áður verið því andstæður, að Alþingi hefði afskipti af innheimtu gjalda til stéttarfélaga. Fyrir nokkrum árum var flutt frv. þess efnis, að 1/8% af útfluttum sjávarafurðum skyldi renna til Landssambands íslenzkra útvegsmanna. Ég gat þess þá, að ef þetta yrði samþ., þá kæmu fleiri á eftir með slíkt. Það reyndist samt svo, að frv. flaug í gegnum þingið, og var mér þá ljóst, að þetta mundi draga dilk á eftir sér. Þegar svo búnaðarmálasjóðsfrv. kom fram nú, ákvað meiri hl. n. að spyrjast fyrir um það hjá samböndunum, hver væri vilji þeirra um afgreiðslu þess. Þegar svo svörin komu, fannst mér skylt að taka þau til athugunar. Ég hef samt ekki fallizt á skoðun þeirra, og þess vegna hef ég skrifað undir álit meiri hl. n. með fyrirvara.

Ég vil benda á það, að afleiðingin af þessum lagasetningum er sú, að ekki er lengur hægt að neita neinu stéttarfélagi um innheimtu gjalda til starfsemi þess, ef það á annað borð eru möguleikar fyrir hendi. Nú er komið út á þá braut, að annaðhvort verður að taka hér í taumana og neita þessu eða þá að verða við óskum allra, sem um það kunna að biðja. Búnaðarsamböndin mæltu öll með frv. því, sem hér liggur fyrir, að undanteknum 3 mönnum. og má segja, að til þess ætti að taka tillit.

Að síðustu vil ég taka það fram, að hvað snertir skiptingu upphæðarinnar, sem til sambandanna rennur, þá finnst mér rétt, að hún sé í samræmi við það, sem innheimt er á hverju svæði.