18.03.1948
Neðri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (1729)

43. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. meiri hl. (Jón Sigurðsson):

Herra forseti. Landbn. hefur komið hér með brtt. Fyrir liggja brtt. frá hv. 2. þm. Rang. (IngJ) og 2. þm. Eyf. (StSt), sem n. gerði ráð fyrir, að mundu koma til atkv. Þær voru að vísu teknar aftur til 3. umr. Nú hefur landbn. orðið ásátt á, eftir atvikum, að fallast á fyrri lið þessarar brtt., en flytur jafnframt við síðari liðinn, b-liðinn, brtt., þannig, að í staðinn fyrir að í brtt. á þskj. 524 stendur: „í réttu hlutfalli við framleiðslumagn héraðanna“ komi: „með hliðsjón af áætluðu framleiðslumagni héraðanna af gjaldskyldum söluvörum landbúnaðarins“ — Þetta er flutt vegna þess, að það hefur sýnt sig við framkvæmd l., að það er ákaflega erfitt eða því nær ógerningur að fá fulla vissu um það, hvaðan hver vara er í þessu efni, þannig að þetta verði ekki meira eða minna handahóf. Þar sem mörg héruð verzla kannske á einum og sama stað, liggur það í hlutarins eðli, að erfitt verður að ákveða um þetta. Þetta er þess vegna fyrst og fremst flutt til þess að létta á verzlunum og fyrirtækjum um að halda mjög ýtarlegar skrár yfir þetta, sem búast má þó við, að hefðu aldrei orðið fulltryggar. Við teljum þetta vera að öllu leyti eðlilegra og heppilegra fyrir málið og að það mundi gera það óbrotnara. Ef ég hef skilið rétt, skilst mér, að hv. 2. þm. Rang. geti eftir atvíkum fallizt á þessa breyt.

Ég hefði náttúrlega ýmislegt að segja, ef svara ætti ræðum frá fyrri umr. En þær umr. voru þannig vaxnar og ég skildi þær þannig, að þær hefðu verið meira til þess að egna okkur hina til umr. og draga málið á langinn. En ég ætla ekki að gefa tilefni til þess að vekja umr. nú um málið á nýjan leik, og læt ég því þær umr. liggja.