02.03.1948
Neðri deild: 67. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1156 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

85. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Áki Jakobsson):

Herra forseti. Ég verð að láta í ljós undrun mína yfir því, hvað hv. þm. Snæf. fylgist lítið með störfum Alþingis, ef hann vill afsaka sig og telur sóma að því að afsaka sig með því, að svona ákvæðum hafi verið sleppt fram hjá aðeins af vangá. Hv. þm. veit líka, að þegar þessi l. voru afgr. á þinginu 1946, þá áttu sæti á þingi 8 þm. fyrir Reykjavík og þar á meðal borgarstjórinn í Reykjavík, sem þá var, Bjarni Benediktsson. Og ég verð að segja það, að það þyrfti að endurskoða þm. Reykv., ef þetta ákvæði hefur alveg farið fram hjá þeim. (SigfS: En borgarstjórinn í Reykjavík er þm. Snæf.) Já, þm. Snæf. er einnig borgarstjórinn í Reykjavík, en hann sat þá á þingi, þegar þessi l. voru afgr., en það er kannske ekki rétt að ætlast til þess, að hv. þm. Snæf. væri svo framsýnn, að hann vissi það, að hann ætti eftir að verða borgarstjóri í Reykjavík, og hafi þess vegna haft augun hjá sér eins vel og hefði þurft. En það er heldur lítill sómi fyrir borgarstjórann í Reykjavík og þm. hennar, ef þeir ætla að bera það sem rök fyrir málinu, að þetta ákvæði hafi farið fram hjá þeim af vangá. Ég mundi heldur þegja en bera fram svona rök.

Ég hef haft sérstakan kunnugleika af innheimtu slíkra gjalda, sem hér er um að ræða, — það var á Siglufirði —, af því að ég var þar bæjarstjóri í fjögur ár. Þar er ekki um lögveðsrétt að ræða, og kom það ekki að sök, þó að geysifjöldi skipa kæmi þar á höfnina.

Þegar l. voru sett, hafði ég mitt kjördæmi sérstaklega í huga og taldi mér sérstaklega bera skyldu til þess að líta eftir, hvernig málið kæmi fyrir mitt kjördæmi, og taldi ég ekki sérstaka ástæðu til þess að gera ágreining um þetta atriði. En ég taldi mér ekki skylt að fara að gera sérstakar till. og gæta sérstaklega hagsmuna Reykjavíkur, og það hvarflaði aldrei að mér, að þetta hefði þotið fram hjá hv. þm. Reykv. af vangá. En nú er það upplýst af hv. þm. Snæf., að þeir séu nú fyrst að sjá þetta, og er náttúrlega út af fyrir sig fróðleikur.

En ég mælist eindregið til þess, að lögð séu fram skýr rök fyrir því, hvað Reykjavíkurhöfn hefur orðið fyrir miklu tjóni vegna þess, að lögveðsrétturinn var af henni tekinn.