16.03.1948
Efri deild: 79. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1157 í B-deild Alþingistíðinda. (1772)

85. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Frsm. (Björn Kristjánsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur rætt þetta mál og komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt væri að mæla með því, að frv. verði samþ. Þetta frv. var flutt í hv. Nd. af hv. þm. V-Húnv. og var þá aðeins um það að bæta Hindisvík á Vatnsnesi inn í hafnarl., og um það varð enginn ágreiningur þar. En við meðferð málsins í hv. Nd. varð það ofan á að bæta við annarri breyt. þess efnis að fella niður í 4. málsgr. 9. gr. l. orðin „sambærilegu mannvirki“ og setja í staðinn: hafnarmannvirkjum. — Þetta mun vera gert eftir ósk hafnarstjórnar Reykjavíkur til þess að tryggja það, að viss fyrirtæki, eða líklega aðeins eitt fyrirtæki, sem á bryggju og skipar þar sjálft upp vörum, greiði hafnargjöld til Reykjavíkur. Þetta fyrirtæki hefur alltaf á undanförnum árum borgað hafnargjöld, eins og þau eru borguð samkv. reglugerð, sem gildir um Reykjavíkurhöfn. Nú mun Reykjavíkurhöfn ekki eiga sambærileg hafnarmannvirki þeim, sem hér eru höfð í huga, og yrði því ekki heimilt að taka hafnargjöld af þessum sérstöku vörum og frá því sérstaka félagi, sem þarna á hlut að máli, að óbreyttum l. En til þess að gera Reykjavíkurbæ eða höfninni mögulegt að halda áfram að innheimta þessi hafnargjöld með góðu samkomulagi við það félag, sem þarna á hlut að máli, þá hefur þessi breyt. verið samþ. við l. í hv. Nd., sem ég lýsti. Sjútvn. sá ekki ástæðu til að gera till. til breyt. við þetta frá því, sem í hv. Nd. var gert, og leggur því til, að báðar gr. frv. verði samþ.