16.03.1948
Efri deild: 80. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

85. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. Það er hvort tveggja, að ég er seinn til leiks til umræðu og enn fremur seinn á mér með þá brtt., sem ég ætlaði að koma fram með við þetta frv. En ég gerði ekki ráð fyrir, að þetta bæri svo brátt að.

Svo er mál með vexti, að það gengur bátur milli Hnúksness í Dalasýslu og Stykkishólms — svokallaður Langeyjarnesbátur, því að hann lenti fyrst við Langeyjarnes, en síðar við Hnúksnes, en þar er sláturhús og rétt við smjörsamlag, og eru vikulegar ferðir þaðan til Stykkishólms. Einnig er nú fyrirhugað að koma þar upp símastöð að vori, svo að þessi staður hefur mörg og mikil skilyrði til að verða lendingarstaður fyrir minni báta. Einnig er það nauðsynlegt fyrir Klofningshrepp, að þar verði komið upp höfn. Þetta verða aldrei mikil fjárútlát, enda þótt heimilað sé í frv. framlag til hafnarbóta þarna. Ég geri ráð fyrir, að þótt málið verði sent til Nd., verði nægur tími til að afgreiða það. Það var yfirsjón að koma svo seint fram með þessa brtt. Ég ætla ekki að hafa miklar umbúðir um málið. Þetta er mikið nauðsynjamál, og margt hefur verið sett inn í hafnarlög, sem minni þýðingu hefur. Ég legg því til, að samþ. verði, að aftan við 1. gr bætist: Hnúksnes í Dalasýslu. — Þessar tvær víkur geta þá fylgzt að eins og tvíburasystur, og vona ég, að ekki verði skilið á milli systra þessara, þótt önnur sé seinna fædd. Og legg ég hér fram skrifl. brtt., að aftan við 1. gr. bætist: Hnúksnes í Dalasýslu.