18.03.1948
Neðri deild: 75. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

85. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Með tilvísun til umr., sem urðu í fyrradag um þetta mál, vil ég leyfa mér að bera hér fram brtt. við frv., svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta: Við 9. gr. laganna bætist ný málsgr., svo látandi: „Heimilt er að ákveða í hafnarreglugerð, að skipagjöld skuli tryggð með lögveði í skipi, og gangi það veð í 2 ár fyrir samningsveðskuldum.“ Þetta er eitt aðalatriðið í frv. um hafnarlög Reykjavíkur, en m.a. hafa komið fram þau mótmæli, að þetta væri bara fyrir Reykjavík, og vildi ég heimila með brtt., að þetta ákvæði komi inn í allar hafnarreglugerðir.

Ég sé ekki ástæðu til að reifa þetta frekar eða rökstyðja, en leyfi mér að vænta þess, að brtt. verði samþ.