17.12.1947
Efri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Eins og frsm. þessa máls tók fram, gátum við ekki orðið sammála. Við þrír erum með brtt. á þskj. 196, og skildum við bæði á honum og 2. þm. Árn. (EE), að þeir upphaflega væru með þessu, en þeir vildu ekki láta það koma í þessum l., heldur sem breyt. á tilskipun um erfðir. Breyt. á erfðal. liggur ekki fyrir hér, og þess vegna er ekki hægt að taka þetta upp nema að taka upp breyt. á þeim, en okkur fannst nauðsynlegt að breyta þessu nú þegar, og þess vegna lögðum við fram brtt. á þskj. 196.

Það er rétt hjá hv. þm. (ÞÞ), að eins og þetta er orðað hér, getur það kostað erfiði fyrir bónda að ná sínum rétti, og þess vegna er ég með skrifl. brtt. hér, að í staðinn fyrir orðið hreppsn. komi: forkaupsréttarhafar.

Ástæðurnar til þessa eru tvær. Brtt. byggir fyrst og fremst á því, þegar jörð fellur til skipta og þegar útarfar eiga að fá arfspart. Það er ákaflega nærtækt dæmi hér úr næstu sýslu, þar sem dó gamall, efnaður bóndi og erfingjar hans voru útarfar — ekki aðeins hér á landi, heldur og í Ameríku. Þessi jörð liggur þannig í sveit, að hreppnum er afar mikils virði að fá hana. Skiptaráðandi hefur látið meta hana sérstaklega, og er hún metin á 80 þús. kr. í arf, og vitað er, að hreppurinn mundi glaður kaupa hana því verði og jafnvel hærra. Nú eru mestar líkur til, að einn útarfinn nái samkomulagi um að kaupa af hinum til þess svo að selja jörðina hreppnum og græða á því. Við sjáum ekki ástæðu til, að þetta verði, og sjáum ekkert réttlæti í því, að jörðin falli til útarfa, til þess að þeir geti grætt á henni, þegar þetta eru svona fjarskyldir menn. Þetta dæmi er mjög ljóst og sýnir, hve óheppilegt það er að láta skipta svona til útarfa. Hin dæmin eru líka mörg, að jörð sé skipt í marga parta. Ég þekki jörð, sem er skipt í 24 parta og enginn ábúandi býr á, heldur er hún nýtt af mönnum, sem borga fyrir það leigu. Ég veit líka um jörð, sem skipt er í 15 parta. Enginn erfingi þeirrar jarðar var í sveitinni, þar sem hún lá, og helmingur þeirra er í Ameríku, en hinir á við og dreif um landið. Það orkar ekki tvímælis, að bóndinn, sem á jörðinni bjó, hafði fengið leyfi hjá skiptaráðanda til að kaupa hana. Nú eru liðin 3 ár, og hann hefur verið að leitast við að fá partana keypta, en enn þá er hann ekki búinn að ná í þá alla. Það er sjálfsagt fyrir löggjafann að koma hér á móti og reyna að fyrirbyggja, að slíkt komi fyrir, þegar bændur óska eftir að fá jarðirnar keyptar með sanngjörnu verði. Það er þá skiptaráðanda að láta meta jörðina og sjá til þess, að erfingjarnir fái það matsverð fyrir hana.

Til þess að ráða bót á þessu er þessi tillaga, sem við flytjum hér, og þeir tveir, sem ekki fylgja henni, gera það af einhverri gamalli tryggð við erfðirnar, og þeir kunna ekki við að ganga á móti hinum gömlu venjum erfðatilskipunarinnar. Þetta er ekki nema lítið brot, sem við viljum takmarka og ekki frekar en það, að forkaupsréttur fáist eftir mati og að erfingjarnir fái peninga, sem hér er um að ræða og þeim ber eftir virðingu jarðarinnar. Hvað hafa menn í Ameríku að gera með jörð hér úti á Íslandi? Þetta er breytingin, sem við viljum fá og eigum að fá.

Ég skal þá leyfa mér að leggja fram brtt., hvort sem hún verður skoðuð sem leiðrétting eða ekki. Ég læt hæstv. forseta ráða því.