16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. — Ég sé. að næsta mál á dagskrá er frv. um dýrtíðarráðstafanir. Ég vil leyfa mér að mælast til þess við hæstv. forseta, að málið verði ekki tekið fyrir nú þegar, vegna þess að fjhn. hefur klofnað um málið, og er ég þar einn í minni hl. Ég hef ekki haft enn tíma til að útbúa mitt nál. Það eru 24 klukkustundir, síðan þessu máli var útbýtt í d., og 1. umr. stóð frá því, að því var útbýtt og þangað til snemma í morgun. Fundur var í fjhn. frá kl. 11 til 12.15 og þingfundur frá kl. 11/2. Ég hef því ekki haft nokkurn tíma til að semja nál. og brtt. Ég vil því mælast til þess við hæstv. forseta, að fundi verði ekki haldið áfram, fyrr en ég hef gengið frá þeim. Ég mundi, strax og fundi væri lokið nú, fara að vinna að því, það er fyrsta stundin, sem ég hef til þess.