08.03.1948
Neðri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Steingrímur Steinþórsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 8. þm. Reykv. (SG) flutt hér brtt. á þskj. 433. Brtt. er við 4. gr. frv. og fjallar um það, að falli jörð við erfðir til skyldmenna eftir 6., 7. og 8. gr. tilskipunar frá 25. sept. 1850, skuli hreppsnefnd fá forkaupsrétt að jörðinni við því verði, sem hún er lögð erfingjum til arfs.

Þessi tilskipun frá 1850 er sjálfsagt orðin að ýmsu leyti úrelt og þyrfti breyt. við. Ég sé, að hér er komin till. til þál. um það, að farið verði að vinna að endurskoðun á henni. Oft er það með jarðir, að þær geta skipzt á milli mjög margra, og þá verður að koma slíkum jörðum á eina hönd, svo að hægt sé að hafa þær til ábúðar á eðlilegan hátt. Það er þá heppilegt að tryggja hreppsnefndunum forkaupsrétt á jörðum, sem þannig stendur á um. Sams konar brtt. lá fyrir Ed. og var felld þar. Heyrði ég, að sumir, sem voru á móti henni, töldu hana réttmæta, en töldu að öll erfðatilskipunin þyrfti endurskoðunar við og væri því ástæða til að taka hana til athugunar. En við lítum svo á, að rétt sé að gefa sveitarstj. möguleika til þess að tryggja það, að jarðirnar verði í ábúð á eðlilegan hátt.

Þetta er ekki stórmál, og mun ég ekki ræða það nánar, en atkvæði munu skera úr um úrslit þess.

Hv. frsm. n. hefur mælt með brtt. á þskj. 431. Ég skal geta þess, að þótt ég gengi til samkomulags inn á það að breyta þessu úr fjórum árum í þrjú ár, tel ég það vafasamt, að þessi brtt. sé rétt frá mínu sjónarmiði. Ég viðurkenni, að hún sé ef til vill í samræmi við óðalsréttarl. og vildi því ekki gera þetta að deiluefni. Ég tel nauðsynlegt að tryggja hreppsn. nokkur völd yfir jörðum innan sinna takmarka, eins og ég lít á það, að jarðir, sem eru innan kaupstaðanna, eigi að sem mestu leyti að vera í umsjá bæjaryfirvaldanna þar. Það er vitað, að það er til stórvandræða, hvernig jarðirnar eru keyptar upp af utanhéraðsmönnum og jarðirnar þannig lagðar í eyði. Stundum er maður fenginn til að búa á jörð sem leppur þann tíma, sem tilskilinn er, og svo heimtaður kauparétturinn. Með því að tíminn sé lengdur, er siður hægt að koma þessu við.

Ég skal ekki fara nánar út í þetta. Ég fylgi auðvitað þeirri brtt., sem n. leggur fram, og vil vænta þess, að einnig mín brtt. fái fylgi.