08.03.1948
Neðri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1174 í B-deild Alþingistíðinda. (1833)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Steingrímur Steinþórsson:

Ég mun ekki fara að halda uppi málþófi um þessa hluti, en vildi út af því, sem frsm. n. sagði, segja það, að þótt komin sé fram þáltill. um, að endurskoðun skuli fara fram á tilskipuninni frá 1850, er ekki þar með sagt, að þetta verði framkvæmt undireins, og af þeim ástæðum finnst mér ekkert því til fyrirstöðu að samþykkja rétta og eðlilega brtt. á því, sem þar gildir. Ég þekki svo vel, hvílíkum erfiðleikum það er bundið, þegar jarðir hafa lent í eigu margra útarfa, að sameina jarðarpartana aftur og held, að allt, sem gert er í því skyni að fyrirbyggja það — þar á meðal það að veita sveitarstjórnum forkaupsrétt — sé spor í rétta átt. Ég geri ráð fyrir, að sveitarstjórnirnar líti á þetta frá sama sjónarmiði og mundu nota sér forkaupsréttinn, hvort sem það væri til eigin þarfa eða til þess að bæta úr fyrir þeim mönnum, sem hafa orðið fyrir barðinu á l.

Ég skal ekki karpa um það við hv. þm. A-Húnv., hvort mikil brögð eru að því, að menn hafi verið notaðir sem leppar við jarðakaup. Frá mínu sjónarmiði er nægilegt, að það hafi verið einn maður, en ég get upplýst hv. þm. A-Húnv. um það, að það eru til fleiri dæmi en eitt. Jarðirnar eru teknar úr búrekstrinum og notaðar til skemmtunar. Ég get nefnt hv. þm. A-Húnv. mörg dæmi um þetta. Ég gæti nefnt honum dæmi um hreppa, sem liggur við, að séu að fara í eyði vegna þessa. Það er eitt dæmi um slíkan hrepp hér nálægt. Þeir menn, sem keypt hafa jarðirnar, taka þær ekki til venjulegra nytja, og þótt sumar af framkvæmdum þessara manna megi skoða til nokkurra nytja, eins og það, þegar menn girða landið til þess að koma þar upp skógrækt, er það ekki gott frá sjónarmiði hreppanna. Það er einmitt af þessu, sem ég álit, að sveitarstjórnirnar eigi að hafa atkvæði um þetta allt.