08.03.1948
Neðri deild: 70. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1836)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Steingrímur Steinþórsson:

Það kann vel að vera rétt hjá hv. þm. Borgf., að það er nýtt, sem þarna kemur inn, og það er vafalítið, að það eru önnur ákvæði, sem eiga að gilda um þessar jarðeignir útarfa heldur en hinar. En ég lit á þetta fyrst og fremst frá sjónarmiði sveitarfélagsins. Ég þekki vel, hvernig búið er á jörðum, þar sem eigendur eru margir og jarðirnar eru hlutaðar niður í smábúta, svo að það er lítt mögulegt að sameina þetta í eina heild sem sjálfstæða bújörð, og ég álit alveg réttmætt að gefa sveitarstjórnunum heimild til þess að grípa fram í og geta sameinað, þegar svo stendur á, slíkar jarðeignir. Þegar þetta heyrir til útarfa langt út, þá hef ég ekki svo ríka tilfinningu fyrir því, að það sé verið að fara illa með slíka erfingja, þótt þeir verði að láta af hendi þessa jarðarskika fyrir það verð, sem þeim er lagt þetta út við arfaskipti, og þá virðist mér þeir fá fullt verð fyrir þetta, og stangast það því ekki við þau ákvæði stjskr. að skylt sé, að menn fái fullt verð fyrir eign sína, þar sem þeir einmitt fá það verð fyrir hana, sem hún er lögð erfingjum til arfs.