16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Einar Olgeirsson:

Ég vil út af þeirri ósk hæstv. stj., að málið verði afgr. sem allra fyrst, benda á, að með því þingfylgi, sem hæstv. stj. hefur, eru ekki líkur til, að sá frestur, sem ég fer fram á, geti orðið til þess, að málið fái ekki afgreiðslu fyrir jól. Það er mjög óviðkunnanlegt við þetta mál að beita aðferðum, sem aldrei hefur verið beitt áður. Eins og ég skýrði áðan fyrir hæstv. forseta, þá hefur mér ekki enn gefizt tími til að semja nál. Hér er um lagabálk að ræða upp á 12 síður, sem stjórnarandstaðan hafði ekki hugmynd um og verður því að fá aðstöðu til að setja sig inn í. Ég lýsti því yfir við hæstv. forseta, að ég mundi nú þegar, er fundi væri lokið, fara að vinna að því að skrifa nál. og semja brtt. Hæstv. forseti mætti mín vegna setja aftur fund kl. 9 í kvöld. Mundi ég reyna að sjá svo um, að nál. mitt og brtt. lægi þá prentað fyrir. Mundi sá tími þó alls ekki nægja til að senda frv. til umsagnar þeim aðilum, sem ég hefði viljað. Mér virðist, að hæstv. stj. með því fylgi, sem hún hefur, þurfi ekki að óttast, að þessi stutti frestur geti orðið til þess, að frv. nái ekki fram að ganga. Hæstv. stj. virðist ekki hafa haft svo mikinn áhuga fyrir þessu máli, að það sitji á henni að reka á eftir því með slíku ofurkappi, þegar það loks kemur fram.

Ég vil því mælast til þess við hæstv. forseta, því að það er hans starf að vernda jafnt rétt minni hlutans og meiri hlutans, að sjá svo um, að minni hl. gefist tími til að skila nál., eins og alltaf er siður, þegar um svona mál er að ræða.