22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

79. mál, kaupréttur á jörðum

Frsm. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Herra forseti. Þetta frv. er endursent frá hv. Nd. Það var orðið mjög svo sæmilegt, eins og við í hv. d. vorum búnir að ganga frá því, en kemur nú aftur sýnu verra heldur en það fór héðan. Reyndar voru hér gerðar á því óþarfa breyt. varðandi óðalsjarðir, en þær máttu þó gjarnan vera til skýringar, og hef ég ekkert við þær að athuga. — En svo hefur þarna hálfgerð laundóttir hv. 1. þm. N-M. komizt inn í frv. í hv. Nd. (PZ: Hef ég ekki kannazt við hana?), þ.e. 2. mgr. 4. gr., og þess vegna er nú frv. komið hingað aftur.

Ég get sagt það strax, að í raun og veru skiptir það ekki svo miklu máli efnislega, hvort þessi gr. verður samþ. eða ekki, þar eð ég geri ráð fyrir því, að á næsta Alþ. verði erfðaréttarl. breytt þannig, að það hverfi alveg, sem þetta ákvæði nær til. En eins og ég hef áður sagt hér í hv. d., álít ég, að þessi breyt. stappi mjög nærri því að koma í bága við stjskr., og þar að auki á þetta ekkert skylt við þetta frv. um kauprétt á jörðum. Í frv. er aðeins talað um það, hverjir megi hafa forkaupsrétt á jörðum fyrir það verð, er seljandi þeirra getur fengið hæst fyrir þær á hverjum tíma, en þessi brtt. er þannig, að þeir, sem taka arf eftir fjarskylda arfleiðendur, eru skyldugir til þess, ef hlutaðeigandi hreppsn. fer fram á, að láta fasteignina eða jörðina af hendi — ekki fyrir það hæsta verð, sem kann að fást, heldur fyrir það verð, sem fasteignin hefur verið metin á. Slíkt væri svo fráleitt fyrirkomulag, að ég og hv. 2. þm. Árn. gátum ekki stillt okkur um að koma með brtt. um, að 2. mgr. 4. gr. falli niður, og er brtt. að finna á þskj. 521. Óska ég þess við hæstv. forseta, að um hana fari fram nafnakall.