16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (185)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

Forsrh. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég vil út af ummælum hv. 2. þm. Reykv. geta þess, að ríkisstj. telur nauðsynlegt, að þetta mál verði afgr., áður en þinghlé hefst fyrir jól, og má vart búast við vegna utanbæjarþm., að starfstíminn verði lengri en þessi vika. Ég álít því, að engan tíma megi missa í þessu efni, og tel, að rétt sé að láta umr. fara fram í dag, og vil beina því til hæstv. forseta. Ég veit að vísu, að hér er um stórt mál að ræða, en það er þó mál, sem er þannig vaxið, að um það hefur mikið verið rætt og hugsað á þessu þingi, og sumt í þessu frv. er ekki sérstaklega nýtt fyrir hv. alþm. Og þar sem enn þá eru eftir fimm umr. þessa máls á Alþingi, þá ætla ég, að allir, sem vilja bera fram sínar till. og aths., eigi þess kost, þó að málinu sé nú nokkuð hraðað. Það er ekkert eins dæmi á Alþingi eða þjóðþingum yfirleitt, að stundum þurfi að hraða mikilsverðum málum, og það er engin misbeiting á þingstarfinu, þó að svo sé gert. Allir fá að láta í ljós sínar skoðanir og bera fram brtt., eftir því, sem þeir vilja, og þinginu er enginn greiði gerður eða álit þess aukið, að umr., hvort sem er um þetta mál eða annað, séu látnar dragast úr hófi fram, eins og það er orðað í sjálfum þingsköpunum, þó að eðlilegt sé, að menn geti látið í ljós skoðanir sínar og geti flutt þær brtt., sem þeir vilja, og gert grein fyrir þeim, og ég álít, að öllum hv. þm. gefist kostur á því, sem vilja, að bera fram brtt. og láta í ljós sínar skoðanir, þó að 2. umr. sé látin hefjast nú þegar.