22.03.1948
Efri deild: 83. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1923)

173. mál, skipun prestakalla

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Mér skilst á hv. frsm., að hann vilji á engan hátt taka undir þau rök, sem hv. flm. frv., þm. Ak., flutti fram, hann vildi þvert á móti halda því fram, að það hvíldu ekki önnur störf á prestinum á Akureyri en prestsstörfin. En hv. þm. Ak. segir í grg., að reynslan hafi orðið sú, bæði um núverandi og fyrri presta á Akureyri, að á þá hafi hlaðizt ýmiss konar önnur störf en prestsembættið, og á því segir hann, að hafi verið byggð þörfin á því að fá aðstoðarprest. Annar þm. upplýsir í grg., að alls konar önnur störf hvíli á sóknarprestinum, en hinn heldur því fram, að á prestinum hvíli ekki önnur störf en vígslubiskupsstarfið og prófastsstarfið. Ég vil benda á, að bæði Hafnarfjörður og Ísafjörður eiga nokkuð svipaða kröfu á öðrum presti, ef Akureyri fær hann. Ísafjarðarpresturinn hefur samhliða því að vera prestur á Ísafirði Hnífsdal, og þangað er eins langt og frá Akureyri í Glerárþorp, svoleiðis að það er ekki léttara að þjóna Ísafjarðarprestsembættinu heldur en hinu, þó að þar séu eitthvað færri sálir, sem þarf að gæta. Þá vil ég benda á það, að Hafnarfjarðarpresturinn, sem hefur Garða-, Bessastaða- og Vatnsleysustrandarkirkju með sínum kaupstað, hefur miklu lengri vegalengd að fara heldur en frá Akureyri og upp að Lögmannshlíð. Ég held þess vegna, að það sé varhugavert að fara inn á þá braut að samþykkja þetta frv., því að það munu fljótt fleiri fara í kjölfarið, og væri ekki hægt að standa á móti því fyrir þá menn, sem hér vilja bæta við presti. Það, sem um er að ræða, er þetta: Er sálgæzlustarf prestanna svo mikið, að það beri að fjölga þeim? Ég held ekki. Ég held hins vegar, að það ætti að fækka þeim, því að við höfum ekki efni á að hafa þá svona marga, fleiri en læknana. Og þótt það sé langt á milli Glæsibæjar og annarra sóknarkirkna Akureyrarprests, þá er enn lengra milli þeirra staða, sem héraðslæknirinn þarf að koma á, og oftar, sem hann þarf að vitja heimilanna. Ég álít, að það eigi að fækka prestunum og helzt að skilja að ríki og kirkju. Og í þessu tilfelli, held é,g, að ekki komi til mála að fjölga, þegar bæði Ísafjörður og Hafnarfjörður koma þegar á eftir og sennilega fleiri staðir. Ég mun því styðja hina rökstuddu dagskrá frá hv. þm. Barð., þótt ég hefði kosið að hafa hana öðruvísi orðaða, og var ég raunar búinn að semja aðra dagskrá, en dagskrá hv. þm. Barð. barst fyrr til hæstv. forseta, og dró ég þá mína til baka, þótt ég teldi orðalag hennar heppilegra.