16.12.1947
Neðri deild: 34. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

116. mál, dýrtíðarráðstafanir

1. frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. — Fjhn. d. hefur rætt þetta mál á fundi, og urðu menn ekki á eitt sáttir um afgreiðslu málsins. Meiri hl. n. hefur skilað nál. á þskj. 198 og leggur til, eins og þar segir, að frv. verði samþ. Ég mun ræða hér lítils háttar um l.—III. kafla frv., en annar af nm. í meiri hl., hv. 7. þm. Reykv., hefur hins vegar tekið að sér að ræða um aðra kafla frv., þ.e.a.s. IV.—VIII. kafla.

Það er í rauninni óþarfi að eyða löngum tíma í að skýra þetta frv. af n. hálfu, þar sem það var nokkuð ýtarlega rætt við 1. umr. hér í d. í gær og skýringar gefnar á málinu af hálfu ríkisstj., sem flytur frv.

Eins og segir í I. kafla frv. er að því stefnt með flutningi þess að vinna gegn verðbólgu og dýrtíð, tryggja áframhaldandi rekstur sjávarútvegsins, stemma stigu fyrir atvinnuleysi og auka framleiðslu til gjaldeyrisöflunar.

II. kafli frv. er svo ákvæði um eignaraukaskatt, en samkv. því á að leggja sérstakan skatt á eignarauka, sem orðið hefur hjá skattskyldum aðilum á tímabilinu frá 1. jan. 1940 til 31. des. 1947, og á skattur þessi að renna í framkvæmdasjóð ríkisins, sem stofnaður var með l. nr. 55 1942, en fé úr þessum framkvæmdasjóði er varið til nauðsynlegra framkvæmda, eftir nánari ákvörðun Alþingis. Þessi eignaraukaskattur leggst á alla skattþegna, sem um næstu áramót eiga skuldlausa eign, er nemur yfir 100000 kr. hjá hverjum skattþegni umfram skuldlausa eign þeirra 1. jan. 1940, og skatturinn er stighækkandi frá 5–30%. Ákvæði eru í 2. gr. frv. um nokkrar undanþágur frá þessum skatti, sem þegar hefur verið lýst. Það, sem þar kemur til greina, er Eimskipafélag Íslands og fyrirtæki, sem hafa sjávarútveg að aðalatvinnurekstri og fá að draga frá eignarauka það fé, sem lagt hefur verið í vara- og nýbyggingarsjóði og ekki hefur verið greiddur tekjuskattur af samkvæmt gildandi l. Á sama hátt dregst frá eignarauka samvinnufélaga það fé, sem þau hafa lagt í varasjóði samkv. ákvæðum l. um samvinnufélög, en eins og kunnugt er, er ekki leyft að skipta þeim sjóðum við félagsslit samkv. samvinnulögunum. Loks er í gr. ákvæði um það, að skattur af eignarauka samvinnufélaga svo og félaga, sem hafa sjávarútveg að aðalatvinnu, skuli ekki vera yfir 10% . Þetta eru aðalatriðin í ákvæðum frv. um eignaraukaskatt.

Það má geta þess, að áður hafa komið fram till. hér á Alþ. um eignaraukaskatt. Á Alþ. 1943 í þingbyrjun var flutt hér frv. til l. um eignaraukaskatt af þm. úr þrem flokkum, þ.e.a.s. Alþfl., Framsfl. og Sameiningarflokki alþýðu sósfl. Samkv. því frv. var lagt til, að leggja skyldi skatt á eignarauka, sem orðið hefði á árunum 1940–1942, sem væri um fram 80000 kr. hjá hverjum skattþegni, enda næmi skuldlaus eign hans að skattinum frádregnum eigi lægri upphæð. Þegar skattur væri á lagður. Þá var gert ráð fyrir, að þessi skattur yrði 20–30 af hundraði af skattskyldum eignarauka, og hámark skattsins var það sama í því frv. eins og hér, 30%, ef eignaraukinn var yfir 1 millj. kr. Þetta frv., sem flutt var 1943, náði ekki fram að ganga og hefur því aldrei verið lagður eignaraukaskattur á þann gróða, sem safnazt hefur undanfarin ár, fyrr en ef það verður nú með samþykkt þessa frv.

Eigi er því að leyna, að ég hefði kosið, að ýmis atriði þessa kafla frv. hefðu verið nokkuð á annan veg. T.d. hefði ég kosið, að ákvæðin um skattgreiðslur félaga væru á annan veg en hér er gert ráð fyrir. og fleira mætti nefna, en ég hirði ekki um það. Ég veit raunar, að það sama er að segja um aðra nm. í fjhn., sem skrifa undir þetta álit meiri hl., að ef þeir hefðu hver um sig mátt einir um málið fjalla, þá mundu till. þeirra vera nokkuð á annan veg en hér er lagt til. En svo sem kunnugt er, þá er þetta frv., jafnt þessi kafli eins og aðrir, árangur af samkomulagstilraunum, sem fram hafa farið um þetta mál innan ríkisstj. og stjórnarflokkanna, og ég geri því tæplega ráð fyrir því, að hægt væri að ná samkomulagi um aðra leið að þessu, sem fleiri gætu betur sætt sig við, heldur en þetta, sem hér liggur fyrir, og því leggur meiri hl. til, að þetta verði samþ.

III. kafli frv. (12.–16. gr.) er um verðlagsuppbætur o.fl. Þar er svo fyrir mælt, að meðan l. eru í gildi, þá skuli ekki miða verðlagsupphætur við hærri vísitölu en 300. Þetta er ákveðið í 1. gr. þessa III. kafla. Í þessu sambandi má minna á, að fyrst þegar tekið var að reikna út vísitölu framfærslukostnaðar og miða kaupgjaldsuppbætur við hana, 1939, þá var svo ákveðið, að ekki skyldi greidd full vísitöluuppbót miðað við aukningu framfærslukostnaðarins. En frá þessu var horfið skömmu síðar og ákveðið að greiða fulla verðlagsuppbót samkvæmt vísitölu framfærslukostnaðar á hverjum tíma, og hefur það haldizt síðan. Sú regla, sem hér var upp tekin í þessu efni, er, eftir því sem fram hefur komið í þessum umr., önnur en gilt hefur viðast eða alls staðar annars staðar, þar sem þetta fyrirkomulag hefur verið við haft. Þar hafa menn ekki fengið verðlagsuppbætur á laun sín miðað við vísitölu framfærslukostnaðar, og sjálfsagt hefur það verið misráðið hér að hverfa frá því fyrirkomulagi, sem tekið var upp vorið 1939, að því er þetta snertir.

Í þessum III. kafla eru enn fremur fleiri ákvæði, t. d. það, að undanþága frá greiðslu skatta og útsvara af áhættuþóknun, sem verið hefur í l. frá 1939, skuli niður falla. Þá er í 15. gr. ákvæði um það, að verðlagsyfirvöld skuli eftir gildistöku l. gera ráðstafanir til þess að færa niður verð á hvers konar vörum til samræmingar við niðurfærslu vísitölunnar. Einnig er í þessari gr. heimild fyrir ríkisstj. til að leggja fyrir húsaleigunefndir að færa niður um allt að 10% húsaleigu í húsum, sem reist hafa verið eftir árslok 1941, svo og húsaleigu í eldri húsum, þar sem nýr leigusamningur hefur verið gerður eftir árslok 1941. Þá er loks í þessum kafla frv. ákvæði um það, að eftir að l. hafa tekið gildi, skuli framleiðsluráð landbúnaðarins verðskrálandbúnaðarvörur af nýju og færa verð þeirra til samræmis við þá breyt., sem hér verður gerð á tekjum manna vegna þessarar breytingar á vísitölunni, þannig að sama hlutfali haldist milli tekna framleiðenda og launamanna eins og var.

Hæstv. forsrh. gat þess í ræðu sinni, þegar hann lagði þetta frv. fyrir, að athugun hefði leitt í ljós, að sú festing vísitölunnar, sem hér er ákveðin í HI. kafla frv., mundi hafa í för með sér raunverulega tekjurýrnun hjá þeim, sem fá verðlagsuppbætur, um nálega 5% af heildartekjum þeirra. Út af þessu m.a. hefur frv. verið mjög illa tekið, það er í því sambandi talað um árás á einstakar stéttir þjóðfélagsins og jafnvel höfð svo stór orð, að hér sé stefnt að setningu þrælalaga, og þar fram eftir götunum. Ég verð að segja það, að það er ósköp að heyra slíkt orðbragð um þetta, þótt hér sé gert ráð fyrir því, að menn leggi örlítið fram af tekjum sínum til þess að reyna að tryggja áframhaldandi rekstur aðalatvinnuvega landsmanna. Ég held, að okkur væri hollt að athuga í þessu sambandi, hvernig ástatt er hjá sumum öðrum þjóðum og hvaða kjör þær eiga við að búa. Ég heyrði frásögn í ríkisútvarpinu í fyrra kvöld. Það var erindi, sem einn hérlendur maður flutti um það, sem fyrir augu hans hefur borið og hann hefur kynnzt á ferðalagi um Mið-Evrópu nú fyrir skömmu. Það var ófögur lýsing, sem hann gaf á kjörum fólksins þar. Það var saga um hungur og harðrétti, vonleysi almennings og eymd. Þeir, sem við slíkt eiga að búa, hafa vissulega ástæðu til að kvarta, en við Íslendingar höfum enga ástæðu til þess. Sem betur fer hafa menn hér nóg að bíta og brenna, ég held óhætt að segja undantekningarlaust. Og ef það skyldi nú einhverjum takast að æsa marga menn í landinu upp gegn þessum ráðstöfunum, sem hér er verið að gera, þó að í þeim felist það, að þeir verði að leggja lítið brot af tekjum sínum til þess að tryggja áframhaldandi atvinnu í landinu og rekstur aðalbjargræðisatvinnuvega okkar, þá verð ég að segja, að það ber vott um minni þroska og þjóðhollustu hér heldur en vera ætti.

Það er búið mikið að ræða um þessi dýrtíðarmál, bæði fyrr og síðar, og það hafa vikulega komið uppástungur um nokkuð aðrar leiðir í þessu máli en hér eru till um. Eitt af því, sem talað hefur verið um í þessu sambandi, er breyt. á skráningu gjaldmiðilsins, þ.e.a.s. gengislækkun. Ýmsir hafa haldið því fram, að sú leið mundi vænlegust til þess að létta undir með útflutningsatvinnuvegunum. Aftur hefur það komið fram, að mjög margir hafa haft ótrú á þeirri leið og jafnvel enn síður viljað á hana fallast en aðrar ráðstafanir. Ég er einn af þeim, sem eru því andvígir að sú leið verði farin, ef annars er kostur. En ég vil benda á það, að þeir menn, sem beita sér gegn þessari tilraun, sem hér er verið að gera af hálfu ríkisstj., — þeir, sem beita áhrifum sínum til þess að reyna að koma í veg fyrir, að sá árangur náist, sem hér er stefnt að — þeir eru með því að grafa grunninn undan aðalatvinnuvegunum og þar með að kalla yfir sig og aðra landsmenn örðugleika, þrengingar í atvinnulífinu, gjaldeyrisskort og þar með óumflýjanlega vöntun á ýmsum nauðsynjum, sem m. a. er líklegt og sennilega óhjákvæmilegt, að mundi leiða af sér verðfall peninganna. Hversu margir þeir verða, sem vilja vinna að slíku, það er óupplýst mál enn sem komið er, en þess vildi ég vænta, að þeir yrðu sem fæstir.

Ekki er því að leyna, að ég tel, að hér hefði þurft að gera meira — gera stærra átak til þess að koma okkar aðalatvinnuvegum á tryggan grundvöll til þess að sporna við hinni vaxandi verðbólgu og þeim margvíslegu örðugleikum, sem sigla í hennar kjölfar, og það vil ég benda á, að þótt þetta frv. verði að l., þá er þörf á því að koma fram fleiri ráðstöfunum í þessa átt en hér er um að ræða í þessu eina frv. En jafnvel þótt þetta sé ekki svo stórt spor sem æskilegt hefði verið og ekki svo fullkomið sem maður hefði kosið, og langt frá því, þá tel ég, að hér sé í höfuðatriðum stefnt í rétta átt. Þetta er í fyrsta sinn, sem gerð er alvarleg tilraun til þess að stöðva verðbólguna.

Það er ekki auðvelt um það að spá, enda ætla ég ekki að gera það, hvort þetta kemur að tilætluðum notum eða hversu lengi þessar ráðstafanir, þegar ekki er lengra farið, nægja til þess að halda okkar aðalatvinnuvegum og útflutningsframleiðslunni gangandi. En aðalatriðið er þetta, að hér er stefnt að mínu áliti í höfuðatriðum í rétta átt, og þess vegna tel ég rétt og við í meiri hl. n., að frv. verði samþ., þó að við hefðum hver um sig, ef við hefðum mátt ráða, kosið að hafa ýmis einstök ákvæði frv. nokkuð á annan veg. Ég sé svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þessa kafla frv., sem ég tók að mér að ræða um af hálfu n., og get látið máli mínu lokið.