22.03.1948
Efri deild: 84. fundur, 67. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

173. mál, skipun prestakalla

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Mér finnst þessi dagskrártill. dálítið einkennileg. Hér stendur í upphafi hennar: „Í trausti þess, að ríkisstj. kosti prest ....“ Er það meiningin, að ráðh. eigi að kosta þennan aðstoðarprest úr eigin vasa, eða er ætlazt til þess, að ríkissjóður geri það? Auk þess vil ég mótmæla því, sem er meginefni till., að það sé eingöngu vegna heilsubrests aðalprestsins á Akureyri, að bæta þarf við öðrum manni, því að það nægir alls ekki einn prestur á þessum stað til þess að hægt sé að rækja þessi störf eins og vera ber. Til þess þarf 2 menn, þótt þeir séu heilbrigðir, eins og ég færði rök fyrir við 2. umr. hér um daginn og mun ekki endurtaka.